05.12.1984
Neðri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég get auðvitað ekki lýst yfir hér að þetta eða annað sé alveg tryggt með fjármál, en um leið og þessi ákvörðun er tekin ber stjórnvöldum skylda til að fjármagna þau verkefni innan ramma laganna. Heilbr.og trmrn. hefur heimilað það og stutt það með ráðum og dáð. Ég óttast því ekki um að þetta verði ekki fjármagnað og þá með millifærslu úr Tryggingastofnun ef ekki verður gengið frá því við endanlega afgreiðslu fjárlaga. En á þessu stigi fullyrði ég ekkert annað en það að á meðan ég er heilbr.- og trmrh. mun ég leitast við að sjá um að framfylgt sé lögum og þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Akureyri mun ekki verða sett utan við heilsugæslukerfið eftir að þessi ákvörðun er tekin og það kemur til framkvæmda nú um áramótin.