05.12.1984
Neðri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

175. mál, verndun kaupmáttar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil skýra frá því í upphafi máls míns, vegna þess að mörg stór mál eru á ferðinni utan þings þessa dagana, að þingflokkur Alþb. hefur farið fram á það við hæstv. forsrh. og utanrrh. að þær upplýsingar, sem hafa komið fram um kjarnorkuvopn á Íslandi á stríðstímum, yrðu teknar til umr. hér í Sþ. utan dagskrár á morgun. Hér er vitaskuld um að ræða eitt af alstærstu málum sem hér hafa komið upp og hefði verið full ástæða til að fjalla um þau rækilega utan dagskrár þegar í stað. En þar sem þess er að vænta að þingheimur hafi ekki átt kost á því að kynna sér þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið frá forsrh. í þessu efni, þá er eðlilegra að það verði gert á morgun og málið tekið til ítarlegrar umr.

Annað mál, herra forseti, sem einnig hefði verið ástæða til aðræða hér utan dagskrár í dag eru hugmyndir Seðlabankans um að hækka vexti um 5% núna næstu daga. Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. taki þátt í umr. þeirri sem væntanlega fer fram á þessum fundi um það frv. sem hér liggur fyrir og svari sérstaklega þeim spurningum hvort hann stendur á bak við till. Seðlabankans um vaxtahækkun um 5% og hvort ríkisstj. hefur samþykkt þær till. Og ég vil einnig spyrja: Hafa þingflokkar stjórnarliðsins samþykkt þá vaxtahækkun sem á að skella yfir á næstu dögum?

Herra forseti. Það frv., sem að ég mæli hér fyrir, var lagt fram í framhaldi af flokksráðsfundi Alþb. Sá fundur var haldinn um það leyti þegar kjarasamningar höfðu verið gerðir eða voru í frágangi, þegar umr. stóðu sem hæst um að útilokað væri að tryggja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem gerðir höfðu verið. Sömu helgi og Alþb. fjallaði um þessi mál á sínum flokksráðsfundi samþykkti ríkisstj. gengislækkun sem með einu pennastriki gerði meira en að taka til baka þá kauphækkun sem samið hafði verið um.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er fyrst og fremst að sýna fram á að það var til leið og það er til leið til að verja kaupmátt kjarasamninganna, sem gerðir voru í okt. og nóv. s.l., án þess að grípa þyrfti til gengislækkunar af því tagi sem ríkisstj. ákvað, án þess að það hafi í för með sér stórfellda verðbólgu og um leið að með þeirri leið yrði tryggð full atvinna. Gengislækkunin, sem ríkisstj. ákvað núna fyrir nokkrum vikum, var pólitísk aðgerð sem stjórnaðist ekki af efnahagslegri nauðsyn heldur fyrst og fremst af því að ríkisstj. vildi draga kjarkinn úr verkalýðshreyfingunni, berja launafólk niður þannig að það hefði ekki þrótt, kjark og þor til að rísa aftur upp gegn þeirri lágtaxta- og kaupránsstefnu sem fylgt er í landinu.

Nú liggur það fyrir að ríkisstj. hefur ekki einasta ákveðið að lækka gengið ng magna verðbólgu af meiri hörku en löngum fyrr, heldur liggur það einnig fyrir að ríkisstj. ætlar að hækka vexti í framhaldi af þeim efnahagshreyfingum sem hafa gerst að undanförnu.

Einnig er ljóst að vegna gengislækkunarinnar er atvinnulífið í stórfelldri hættu vegna þess að verulegur hluti af lánum sjávarútvegsins er í erlendri mynt. Það á allt að hreyfast, gengið, vextirnir, verðlagið, en kaupið á að standa kyrrt. Tilgangurinn er bersýnilega sá einn að halda laununum niðri sem hlutfalli af kostnaði hér í þjóðfélaginu.

1. gr. þessa frv. fjallar um það að ríkisstj. setji sér það markmið að miða allar ákvarðanir sínar í efnahagsmálum við að verja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í okt. og nóv. 1984 og að tryggja fulla atvinnu.

„Hér er átt við“, segir í gr., „allar ákvarðanir ríkisstj. um vexti, verðlagsmál, jafnt verðlag opinberrar þjónustu sem og vöru og þjónustu einkaaðila, um gengisskráningu íslensku krónunnar og aðrar ráðstafanir í efnahagsmálum sem hafa áhrif á kaupmátt launa.“

Ýmsum kann að sýnast að það sé nokkuð skothent að leggja fram frv. af þessu tagi miðað við þá stjórnarstefnu sem fylgt er í landinu núna. Alþb. vildi engu að síður setja þessi sjónarmið hér fram til að afstaða flokksins gagnvart þeim efnahagsvanda, sem ríkisstj. ber alla meginábyrgð á, liggi fyrir.

Fyrsta atriði frv. er um að tryggja kaupmátt launa eins og hann varð skv. þeim kjarasamningum sem gerðir voru núna í haust. Hvernig hefur kaupmáttur launa þróast á undanförnum árum? Því er borið við að þjóðarframleiðsla hafi minnkað mjög verulega á undanförnum árum. Það er rétt, hún hefur minnkað nokkuð. Þjóðarframleiðsla milli áranna 1981 og 1982 dróst saman um 2.8%. Þá minnkaði kaupmáttur kauptaxta að meðaltali um 0.4% á milli þessara sömu ára. Þjóðarframleiðsla hélt áfram að dragast saman á árinu 1983. Milli áranna 1981 og 1983 minnkar þjóðarframleiðsla á mann um 9.8%, en kaupmáttur kauptaxta minnkaði til fyrsta ársfjórðungs 1983 um 10.4%, eða sem næst jafnmikið og nam falli þjóðarframleiðslunnar. Þegar kom hins vegar fram á síðasta ársfjórðung 1983 hafði kaupmáttur kauptaxta minnkað, ekki um 9.8% eða 10% eins og nam falli þjóðarframleiðslunnar, heldur um 27% á sama tíma og þjóðarframleiðslan dróst saman um 9–10%. Hér er m.ö.o. um að ræða stórfelldan tilflutning á fjármunum. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að hann hlutist til um að hæstv. forsrh. verði hér í salnum meðan þessar umr. fara fram.

Því er haldið fram að lækkun kaupmáttarins hafi verið óhjákvæmileg til að mæta falli þjóðarframleiðslunnar. Staðreyndin er hins vegar sú að launin eru skert miklu meira en nemur falli þjóðarframleiðslunnar, sem þýðir að ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu hafa verið afhentir peningar, hundruðum milljóna saman, umfram það sem þeir áður höfðu. Þessir peningar, sem voru teknir af launafólkinu í landinu, gufuðu ekki upp, þeir týndust ekki, þeir voru afhentir öðrum aðilum í þjóðfélaginu sem skiluðu á síðasta ári og á þessu meiri gróða en þeir hafa nokkru sinni séð fyrr.

En það er fleira sem er fróðlegt að skoða í sambandi við þjóðarframleiðslu og kaupmáttarþróun. Tökum aðeins lengri tíma. Tökum t.d. tímann frá 1974 og athugum hvað þjóðarframleiðslan hefur breyst á 10 ára bili. Frá 1974 til 1984 hefur þjóðarframleiðslan aukist um 2.4%. Þá skyldi maður ætla að ef menn eru sjálfum sér samkvæmir ætti kaupmáttur launanna einnig að hafa haldið í við þetta. En núverandi ríkisstj. hefur séð til þess að kaupmátturinn hefur rýrnað svo mikið að hann hefur ekki haldið í við þessa aukningu þjóðarframleiðslu, heldur þvert á móti að á sama tíma og þjóðarframleiðslan á 10 árum eykst um 2.4% rýrnar kaupmáttur kauptaxta um 33.7% milli áranna 1974 og 1984. Kaupmáttur ellilífeyris og tekjutryggingar á sama tíma rýrnar um 13%. Af þessu sjá menn hvað nú er að gerast, hvaða tilflutningur það er sem á sér stað í þjóðfélaginu á fjármunum um þessar mundir.

En það má einnig bera þetta saman með öðrum hætti. Tökum árin 1975–1976 og 1977 annars vegar og berum þau saman við árin 1979–1982 hins vegar. Á milli þessara ára eykst þjóðarframleiðslan um 12.1%. En þá gerist það að kaupmáttur kauptaxta heldur nokkurn veginn í við þessa aukningu þjóðarframleiðslunnar. Kaupmáttur ellilífeyris hins vegar hækkar meira en nemur aukningu þjóðarframleiðslunnar á þessum tíma eða um 14 til 15%. Vísitala heilbrigðisútgjalda á mann, sem segir sína sögu um lífskjör, hækkar, á sama tíma og þjóðarframleiðsla eykst um 12%, um liðlega 20% .

Það hefur verið fróðlegt að hlusta á ræður hv. 5. þm. Reykv. núna að undanförnu um „áratug hinna glötuðu tækifæra“ þar sem hann spilar aðra fiðlu á eftir hagfræðingi Vinnuveitendasambandsins Vilhjálmi Egilssyni. Það er fróðlegt að virða fyrir sér í þessu sambandi, því að það eru líka lífskjör, að á árunum 1970–1980, á þessum „áratug hinna glötuðu tækifæra“, hækkar vísitala heilbrigðisútgjalda, þ.e. á föstu verðlagi, um 66%. Menn geta litið hér um landið allt, séð heilsugæslustöðvar og sjúkrahús og heilbrigðisþjónustu sem hefur verið byggð upp á þessum tíma. Hlutfall heilbrigðisútgjalda af brúttóþjóðarframleiðslu á þessum tíma hefur hækkað um 57%. Þetta eru líka lífskjör ekkert síður en kaupið og segir sína sögu. Það segir líka sína sögu í þessum efnum að samneyslan, hin félagslega þjónusta á þessu tímabili, hefur aukist og eflst mjög verulega á árunum 1980–1983, eða um 14.8% á raunvirði á þessum tíma, og á árunum 1970–1983 eykst samneysla í landinu um 33%.

Þetta bendi ég á, herra forseti, til að sýna fram á að fleira er lífskjör en kaup. Félagsleg þjónusta og samneysla eru líka lífskjör sem skipta mjög miklu máli. En því er haldið fram af núverandi ríkisstj. að allt þetta sé á faralds fæti, það sé í raun og veru ekki henni að kenna þó að þetta sé lækkað, það sé bara þjóðarframleiðslan, það fækki í þorpunum og í þessu ráði hún ekki neitt við neitt. Hvernig ætli þetta dæmi líti nú út ef við skoðum útflutningsframleiðslu þjóðarinnar og þróun hennar á nokkurra ára bili?

Það kemur í ljós að útflutningsframleiðslan á næsta ári og á þessu ári er talin verða sú mesta sem verið hefur í sögunni á föstu verðlagi. Útflutningsframleiðslan 1984 og 1985 er skv. töflum, sem ég hef frá Seðlabanka Íslands, meiri en hún hefur nokkru sinni verið. Útflutningsframleiðslan á árinu 1985 er talin verða 15.6% meiri en hún var á árinu 1982 og verulega meiri en hún var á árinu 1981 þegar hún hafði komist hæst áður. Þess vegna er alveg ljóst að verðmætasköpunin í þjóðarbúinu er gífurleg. Hún hefur verið að vaxa á undanförnum árum og áratugum, sérstaklega eftir 1971. Á árunum 1970–1981, á þessum tíma „hinna glötuðu tækifæra“ sem sumir spekingar kalla svo, jókst útflutningsverðmæti íslenska þjóðarbúsins á föstu verðlagi um 85% og meginhlutinn af þessu er sóttur í sjávarútveginn. Þegar menn eru að fjargviðrast hér yfir því að það sé sjávarútvegurinn í landinu sem allt sé að drepa þá held ég að menn ættu að átta sig á því að þau lífskjör, sem við búum við núna og hafa þróast hér á síðustu 12–15 árum, bötnuðu vegna aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútveginum fyrst og fremst. Það er grundvallaratriði og menn ættu að snúa sér að því að tala um offjárfestinguna í versluninni sem er dýrasti bagginn á þjóðarbúinu um þessar mundir.

Ég tel, herra forseti, að það sé óhjákvæmilegt í ljósi ræðuhalda einstakra ráðh. — alveg sérstaklega hæstv. sjútvrh. sem er sérfræðingur í að halda ræður um að hér sé allt að fara á svarta kaf og helst eigi þjóðin að lækka á sér kaupið — að benda á þær staðreyndir að útflutningsverðmæti þjóðarbúsins eru meiri núna á þessu ári en þau hafa áður verið og verða á næsta ári enn meiri. Þess vegna eru engin efnahagsleg rök fyrir því að það þurfi að halda kaupinu svona langt niðri eins og núverandi ríkisstj. gerir. Einu rökin eru pólitísk, þau rök að ríkisstj. telur að launahlutfallið í þjóðarbúinu eigi að vera svona lágt og milliliðir og aðrir slíkir aðilar eigi að hafa meiri fjárráð en þeir hafi nokkru sinni haft. Kauplækkunin, sem var ákveðin með gengislækkuninni, er þess vegna pólitísk aðgerð til að draga kjarkinn úr verkafólki og verkalýðshreyfingunni í landinu.

1. gr. þessa frv. lýtur að þessu meginatriði, almennri viðmiðun og stefnumótun í efnahagsmálum, efnahagsákvörðunum ríkisstj. Ríkisstj. hefur haldið því fram að hún hafi í raun og veru verið að stuðla að sérstöku jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það er fjarstæða. Ástandið á heimilunum hefur aldrei verið jafnhrikalegt og það er núna. Það væri fróðlegt ef þessir tíu ráðh. tækju sér það fyrir hendur að fara í könnunarferð inn á heimilin uppi í Breiðholti sem eru núna að glíma við þann vanda sem þeim birtist í lækkandi kaupi og hraðhækkandi verðlagi núna rétt fyrir jólin. Spurningin er kannske sú: Eru þessir menn komnir svo langt frá veruleikanum að þeir átti sig ekki á því við hvaða kjör þetta fólk á að búa, að þeir skilji ekki hvað það er sem þeir eru að bjóða þessu fólki upp á? Ég held að þeir ættu að fara í kynnisferð og reyna að setja sig inn í þann vanda sem fólk í örvinglan er að reyna að takast á við á alþýðuheimilunum í landinu um þessar mundir.

En fyrir utan þann vanda, sem ríkisstj. og ráðh. hafa skapað hinum almennu heimilum, er það ekki þannig að á efnahagslífinu að öðru leyti séu sérstök batamerki. Hvernig er staðan út á við, hæstv. forsrh., þegar þú og þínir félagar eru búnir að rústa fjárhag heimilanna? Ætli mætti fara yfir það og lesa upp úr riti sem er ekki beint áróðursrit Alþb. og heitir Hagtölur mánaðarins? Það segir m.a. um þróun utanríkisviðskipta og greiðslujafnaðar í tíð þessar ríkisstj. — og kem ég nú næst að því — í októberhefti, ritsins með leyfi forseta:

„Þróun utanríkisviðskipta og greiðslujafnaðar á fyrri helmingi ársins 1984 varð í heild mun óhagsstæðari en á sama tímabili árið áður.“ — Það bú, sem núverandi ríkisstj. tók við og taldi vont, varð verra eftir að hún hafði farið með stjórn landsins í eitt ár að þessu leytinu til. — „Gjaldeyrisverðmæti vöruútflutnings jókst um 8.5% á móti 23% aukningu á vöruinnflutningi.“ — Það var hinn hömlulausi og tryllti innflutningur sem skapaði hér vanda. — „Halli á viðskiptajöfnuði á fyrra helmingi þessa árs reyndist vera 694 millj. kr., en á sama tímabili árið áður var vöruskiptajöfnuðurinn hagstæður um 619 millj. kr. reiknað á gengi jan.-júní 1984.“

Þetta segir okkur m.ö.o. að frá því að viðskiptajöfnuðurinn var hagstæður á fyrri hluta ársins 1983, í tíð síðustu ríkisstj., um 600 til 700 millj. kr. varð hann óhagstæður í tíð þessarar stjórnar um 600 til 700 millj. kr., hann versnaði um 1300 til 1400 millj. kr. Síðan segir. „Viðskiptajöfnuður reyndist óhagstæður um 2591 millj. kr. á tímabilinu jan.-júní 1984, sem er 17% af útflutningstekjum á sama tíma.“

Er þetta nú stjórn í lagi? Mennirnir ætluðu að bæta hér allan vanda með einu pennastriki. Með því að svipta fólkið í landinu kaupi átti þetta allt að leysast sjálfkrafa. En dómurinn liggur fyrir. Staðan gagnvart útlöndum, gjaldeyrisþróunin, viðskiptastaðan er tvisvar sinnum verri en hún var þegar þeir tóku við. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Í nýlega endurskoðaðri þjóðhagsspá er nú með hliðsjón af þróuninni á fyrri helmingi ársins spáð að viðskiptahallinn á árinu 1984 verði 3500 millj. kr. og svarar það til um 10% af áætluðum útflutningstekjum og rúmlega 5% af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Þarf útkoman á síðari hluta ársins að verða tiltölulega hagstæð til þess að hallinn verði ekki enn alvarlegri“, segir Seðlabankinn og dæsir.

Þannig er þessi staða. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru núna um 61% af þjóðarframleiðslu. Öll þessi markmið, sem núverandi ríkisstj. setti sér, eru fokin út í veður og vind. Kauplækkunarstefnan hefur engan vanda leyst. Menn sjá nú hvert verðbólgan, sem átti að kveða niður í eitt skipti fyrir öll, stefnir og kem ég að því síðar.

Í 2. gr. frv. er fjallað sérstaklega um verðlagsmál. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að verðlagsráð skuli hafa sérstakt eftirlit með innflutningsverði og verðmyndun í innflutningsverslun. Skal verðlagsráð birta mánaðarlega skýrslu um þróun innflutningsverðs á sama hátt og gert hefur verið í smásöluverslun. Verðlagsráð skal enn fremur fjalla um allt verðlag opinberrar þjónustu og skal ríkisstj. taka afstöðu til till. sem fram kunna að koma um hækkun þjónustu opinberra aðila. Hækkunin tekur því aðeins gildi að ríkisstj. samþykki till.

Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Er ætlunin að taka eftirlit með verðlagi opinberrar þjónustu inn í verðlagsráð eða ríkisstj. á nýjan leik? Ég held að óhjákvæmilegt sé að þetta verði gert með tilliti til þess að opinberar stofnanir hafa birt hækkanir á sinni þjónustu sem eru langt umfram kostnaðartilefni. Svartast er þetta kannske að sumu leyti hér í Reykjavík.

Í grein, sem Sigurjón Pétursson borgarfulltrúi Alþb. skrifaði í DV 3. des. s.l., bendir hann á hvaða hækkanir hafa orðið á rafmagnsverði og hitaveitu hér í borginni. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Meðalraforkunotkun heimilis í Reykjavík er 3500 kwst. á ári. Ársnotkun 1982 kostaði á verðlagi 1.6. 1982 4 095 kr., það tók vagnstjóra á venjulegum launum borgarstarfsmanna 71 klukkutíma að vinna fyrir þessum ársreikningi 1982. Ársnotkun 1984 á verðlagi í nóv. kostar 12110 kr., það tekur vagnstjórann“ — sem Sigurjón tekur hér sem dæmi — „112 tíma að vinna fyrir ársreikningnum núna. Strætisvagnsstjórinn er því 41 tíma lengur á ári að vinna fyrir rafmagnsreikningi heimilisins en hann var í júní 1982, eða 57.7% lengur.“

Ef við tökum Hitaveitu Reykjavíkur sem dæmi í þessu efni þá kemur þetta m.a. fram:

„Í júní 1982 kostaði ársnotkun af heitu vatni 3044 kr. Það tók þennan opinbera starfsmann 52.7 tíma að vinna fyrir þessari ársnotkun. Í dag kostar rúmmetrinn af heitu vatni í Reykjavík 15 kr. Ársnotkunin kostar því 12 345 kr. Núna þarf þessi maður að vinna ekki 52.7 tíma á ári heldur 113.4 tíma fyrir sama hitaveitureikningi. Hann er 61.2 tímum lengur að vinna fyrir hitaveitureikningnum nú að nýgerðum kjarasamningum en hann var í júní 1982, eða 115% lengur.“

Þessi dæmi ættu að vera alveg nógu skýr til þess að sýna fram á að það er alveg nauðsynlegt að ríkisstj. hafi eftirlit með verðhækkunum opinberra stofnana. Auk þess hefur það verið þannig hér í Reykjavík að borgarstjórnin hefur verið að fjármagna rekstur borgarsjóðs með því að hækka gjöld borgarfyrirtækjanna langt umfram það sem kostnaðartilefni sögðu til um. Og hygg ég að það sé nýlunda að menn fari þessa leið að skattborgurunum eins og borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík hefur gert hér undir forustu Davíðs Oddssonar.

Í 1. málsgr. þessarar greinar er gert ráð fyrir því að haft verði sérstakt eftirlit með innflutningsverði. Það hefur verið sýnt fram á það með ítarlegum hætti að innflutningsverð hingað til lands var 5–10% hærra að jafnaði en til grannlanda okkar. Til þess liggja margvíslegar ástæður, sumar þannig að ekkert er við þeim að gera, en aðrar þannig að á þeim væri hægt að taka og ætti að taka. Ef þessi mismunur kæmi Íslendingum til góða, þ.e. ef innflutningsverðið hingað til lands væri lækkað og yrði sambærilegt við það sem gerist í grannlöndum okkar, mundi það muna íslenska þjóðarbúið 3 milljörðum kr. á ári, bara þetta eitt. Þarna er eftir miklu að sækjast. Þarna er aðgerð sem gæti styrkt og bætt lífskjörin í landinu og dregið úr verðþenslu á sama tíma.

En það er annað í sambandi við verðlagsmálin sem við skulum athuga. 1961 felldi viðreisnarstjórnin gengið mjög verulega í framhaldi af kjarasamningum. Þá voru gerðar ráðstafanir til að takmarka álagningu í verslunum með svokallaðri 30% reglu. Í meiri háttar gengislækkunum sem hafa orðið síðan 1961 hefur alltaf verið beitt svokallaðri 30% reglu þangað til í fyrra. Þegar ég spurði hæstv. forsrh. um það hvort núv. ríkisstj. hygðist beita 30% reglunni á álagningu fyrir nokkrum dögum svaraði hann: Nei, það verður ekki gert vegna þess að það er búið að sleppa allri smásöluversluninni svo að segja undan álagningareftirliti. Hann nefndi ekki einu sinni þann möguleika, sem var áður stefna Framsfl. en þeir hafa étið ofan í sig eins og annað, að Framsfl. beitti sér fyrir því að tekið yrði upp verðlagseftirlit og álagning yrði skert með þeim hætti sem alltaf var gert hér áður. T.d. á þeim tíma þegar Ólafur Jóhannesson var viðskrh., 1974–1978, var ævinlega beitt þessari svokölluðu 30% reglu.

Hvað þýðir þessi 30% regla? Hvaða áhrif hefði hún á vöruverð í dag ef henni væri og hefði verið fylgt? Ég nefni dæmi. Vara, sem kostar 100 kr. fyrir gengislækkun, fer í um 120 kr. við þá gengislækkun sem nú var ákveðin að meðtöldu gengissiginu. Miðað við 30% regluna og 20% verslunarálagninguna hefði útsöluverð þessarar vöru eftir gengislækkun orðið 136.80 kr. En skv. þeirri stefnu, sem nú er viðhöfð af ríkisstj., að skerða ekki verslunarálagningu, kostar þessi vara ekki 136.80 kr. heldur 144 kr., þ.e. verðmunurinn á þessari vörutegund er 5.2%. Það munar um þetta fyrir heimilin í landinu núna.

En ríkisstj. vildi ekki beita þessari 30% reglu sem var meira að segja alltaf beitt af viðreisnarstjórninni. Þessi stjórn, sem Framsfl. og íhaldið standa að núna, er að þessu leyti heldur verri en viðreisnarstjórnin. Héldu þó margir á árunum 1960–1971 að varla væri hægt að komast eins langt eins og hún. En núverandi stjórn hefur slegið öll met viðreisnarstjórnarinnar margfaldlega.

Því var haldið fram af núv. hæstv. forsrh. að þegar ríkisstj. tók við hafi verðbólguhraðinn hér verið 120–130%. Þegar ráðh. eru að yfirbjóða hvern annan á almennum fundum hér og þar í landinu nefna þeir helst hærri tölur og koma sér jafnvel upp undir 200% þegar vel liggur á þeim. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi ríkisstj. á núna Íslandsmetið í að auka verðbólgu vegna þess að efnahagsráðstafanir ríkisstj. margfalda verðbólguhraðann fjórfalt eða svo. Það hefur aldrei gerst á jafnskömmum tíma að verðbólga fari jafnhratt upp og nú. Það er hægt að leita með logandi ljósi í allri þeirri löngu verðbólgusögu sem þessi þjóð á og það eru engin dæmi um verðbólguaukningu af þessu tagi á þeim tíma sem þar er um að ræða á síðustu 40 árum eða svo. Núv. ríkisstj. er því alger methafi í því að auka verðbólguna hér í landinu.

Því er haldið fram að allar þessar hækkanir, sem nú eru að ganga yfir, séu bara kaupinu að kenna. Auðvitað er það hrein fjarstæða. Hvernig ætli það sé t.d. með bændur, ætli þeir hafi fengið alla þá hækkun sem varð á búvörunum núna 1. des.? Lítum aðeins nánar á það dæmi. 1. desember hækkar verðlagsgrundvöllurinn um 11.8%, en launaliðurinn hækkar á þessum tíma um 12.8%. Aðrir liðir hækka mun meira en launaliðurinn, kjarnfóðrið hækkar um 15.1%, kostnaður við vélar, þ. á m. olíu- og bensínkostnaður, hækkar um 16.6%, flutningskostnaður í búvörugrundvellinum hækkar um 15.8%. Þegar upp er staðið og meðan verðlagsgrundvöllurinn hækkar um 128 201 kr. nákvæmlega hækkar kaup bóndans á sama tíma um 48 656 kr. Bóndinn fær m.ö.o. í sinn hlut 38% af hækkun búvaranna núna 1. des. Hitt hirtu aðrir, m.a. milliliðirnir í landbúnaðinum sem má auðvitað ekki hrófla við meðan framsókn er í ríkisstj., hvorki í þessari stjórn eða fyrri stjórnum sem hér hafa setið. Þá er eins og komið sé við kvikuna í þeim stjórnmálaflokki.

Auk þess er það umhugsunarefni fyrir bændastéttina í landinu að á meðan það stendur í lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins að það eigi að hækka laun samsvarandi við fólk á mölinni, iðnaðarmenn og verkamenn, gerist það að bóndi með grundvallarbú fær 48 656 kr. út úr þessari hækkun, en bóndi með tvö grundvallarbú, sem er algengt, fær 97 þús. kr. og maður með þrefalt grundvallarbú fær 146 þús. kr. Verið er að nota þetta jöfnunarkerfi lífskjara fyrir bændastéttina í landinu til að halda við þeim mismun sem þar er um að ræða á lífskjörum öllum. Hér er ekki verið að verja hag smábóndans eða meðalbóndans sérstaklega, það er langt frá því. Hér er bersýnilega um það að ræða að sá, sem hefur mest fyrir, fær mest af öllum út úr þessu kerfi.

Það væri fróðlegt að vita hvað ríkisstj. gerði til að draga úr því að milliliðirnir fengju hækkun núna 1. des. Vill hæstv. viðskrh. svara því? Hvað var reynt til að skera niður kostnaðarkröfur milliliðanna? Hefur verið gerð úttekt á því hvað það kostar fyrir þjóðarbúið og bændastéttina í landinu að reka þessar ostahallir og undanrennuhof eins og það er kallað í Tímanum stundum? Hvað skyldi það kosta fyrir þjóðarbúið, hvort sem það heitir Osta- og smjörsalan, Mjólkursamsalan, Mjólkurstöðin í Borgarnesi, Mjólkurstöðin á Akureyri? Hér er um gífurlega fjármuni að ræða og það er aldrei sett spurningarmerki við hækkunarkröfur þessara aðila þegar núv. ríkisstj. er að fjalla um þessi mál. Þess eru engin dæmi. Hér er um að ræða fyrirtæki sem eru eins konar deild í ákveðnu félagsmálakerfi Framsfl. þar sem Framsfl. sér um pólitíkina, Osta- og smjörsalan um ostana, skipadeildin um skipin og þannig koll af kolli.

Herra forseti. Þær hækkanir, sem hafa verið að ganga yfir núna, eru ekki hækkanir sem eru til orðnar vegna kaups fólksins í landinu. Hér er að verulegu leyti um að ræða hækkanir við milliliðina sem höfðu þó gífurlega fjármuni fyrir. Svo er því borið við af hæstv. ríkisstj. og það viðlagið alla tíð: sjávarútvegurinn þolir ekki hærra kaup, það er honum að kenna að ekki er hægt að borga hærra kaup í landinu.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, að fara nokkuð ítarlega út í það mál hér vegna þess að reynt hefur verið að nota sjávarútveginn til að halda kaupgjaldinu í landinu niðri, reynt hefur verið að nota sveiflur í sjávarútvegi og erfiða rekstrarstöðu hans til að halda almennu kaupgjaldi niðri. Lítum aðeins á stöðu fiskiskipaflotans. Skv. tölum Þjóðhagsstofnunar voru tekjur allra fiskiskipa í landinu í ár 6.8 milljarðar króna. Allir aflahlutir eru taldir vera 1.9 milljarðar kr., eða aðeins 28% af heildartekjum fiskiskipaflotans. Þannig eru nú skiptin komin. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar í sept. var sú að ekki væri halli á bátum upp að 200 tonnum, þar væri um að ræða hagnað upp á 75 milljónir kr., ekki væri halli á þeim togurum sem voru keyptir fyrir 1977, það væri hagnaður af þeim upp á 15 milljónir kr. Hins vegar var talinn 13 millj. kr. halli á stærri togurunum, tæplega 1 millj. á hvern togara. Aftur á móti var halli á togurum sem eru skráðir eftir 1977 talinn vera 128 millj. kr. á ári. Þegar allt dæmið var gert upp, allur flotinn tekinn eins og hann lagði sig, var halli á fiskiskipaflotanum í sept. að mati Þjóðhagsstofnunar 51.2 millj. kr. Allir sjá auðvitað í hendi sér hvað það er fráleitt að beita gengislækkun til að rétta af hlut útgerðarinnar og sjávarútvegsins í landinu frammi fyrir þessari staðreynd. Halda menn að það lagist eitthvað hjá fiskiskipunum við að skrifa upp erlendu lánin hjá þeim um 1 milljarð meðan hallinn er 51.2 millj. kr.? Það er alveg furðulegt.

Mönnum gat dottið í hug að leysa einhvern vanda og flytja eitthvað til í efnahagskerfinu með gengislækkunum hér áður þegar ekki var um að ræða svona mikil erlend lán. Núna er aftur á móti um það að ræða að atvinnuvegirnir eru með svo mikið af erlendum lánum að það er vitlausara en nokkru sinni fyrr að fella gengið.

Ef við lítum aðeins betur á stöðuna og það kemur í ljós að tekjur fiskiskipaflotans eru 6.8 milljarðar, aflahlutir 1.9 milljarðar, þá kemur í ljós að olíukostnaður fiskiskipanna er 1.3–1.4 milljarðar kr. Ef við skoðum minni togarana sérstaklega eru allir aflahlutir á þeim 862 millj. kr., en olíukostnaður allra minni togaranna er 823 millj. kr. Olíukostnaðurinn er eiginlega alveg jafn hár og allir aflahlutirnir til samans.

Nú kunna menn að segja sem svo: Þetta er óviðráðanlegt, þetta er olía sem við fáum á venjulegum prísum og það er ekkert við þessu að gera. En þá hafa sumir menn hér í landinu fundið leið. Þeir hafa farið að flytja inn olíu sjálfir gegn þessum þríhöfða einokunarþurs sem framsókn og Sjálfstfl. halda verndarhendi sinni yfir.

Það hefur gerst að þeir Norðfirðingar hafa gripið til þess ráðs hjá Síldarvinnslunni að reyna að verða sér úti um olíu erlendis þegar þeir hafa þurft að sigla með aflann. Hvað kemur út úr því dæmi? Meðan olíulítrinn hér var á 8.90 af gasolíunni borguðu þeir þar eystra 6.50–6.80 fyrir lítrann. M.ö.o. þeir borguðu 27% lægra verð fyrir olíuna en fiskiskipaflotinn almennt. Hvað þýðir þetta ef tækist að lækka olíuverðið hér um 25%? Það þýðir að hægt er að hækka aflahlut sjómanna um 25% líka, vegna þess að stærðir þar eru jafnar, án almennrar fiskverðshækkunar.

En hvað hefur ríkisstj. gert í þessu máli? Hún lofaði olíulækkun 1. nóv. Sú olíulækkun er ekki komin enn, það hefur ekkert til hennar spurst. Og ríkisstj. hefur ákveðið að halda áfram að borga fisk úr ríkissjóði með 3% ofan á fiskverðið til áramóta. Það væri fróðlegt að vita hvort ríkisstj. hefur samþykkt að halda enn áfram eftir áramótin að borga fiskverðið með þessum hætti. Ég hygg að það sé einsdæmi að ríkissjóður greiði þannig uppbætur á fiskverð í landinu. Það er m.a. vegna þess að ríkisstj. hefur ekki staðið við það loforð, sem hún gaf útgerðinni í sumar, að það ætti að lækka olíuna.

Ég hef hér nefnt olíukostnaðinn. Það gæti verið um að ræða sparnað upp á hundruð milljóna króna ef menn þyrðu að leggja til atlögu við þennan þríhöfða einokunarþurs stjórnarflokkanna. Á þingi LÍU núna um daginn var samþykkt samhljóða till. frá Austfirðingum um að heimila olíusamlögum útvegsmanna og öðrum slíkum aðilum að flytja inn olíu til landsins á sín skip. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Hefur hann eða viðskrn. nokkuð við það að athuga? Eru menn ekki sammála því að eðlilegt sé að iðka það verslunarfrelsi sem menn í orði kveðnu vilja viðhafa í landinu? Hefur viðskrn. nokkrar athugasemdir að gera við það að útgerðarmenn flytji olíuna inn sjálfir? Ég hefði gaman af því að heyra hvað hæstv. viðskrh. segir um það mál hér á eftir.

En fyrir utan olíukostnaðinn, sem þannig mætti lækka með kerfisbundnum aðgerðum, er ljóst að í þessari stöðu ber að gera sérstakar ráðstafanir til að lækka fjármagnskostnað útgerðarinnar. En þar er nú eitthvað annað uppi á teningnum. Vextirnir voru hækkaðir í sumar — vaxtafrelsið mikla — og núna á að fara að hækka vextina líka. Það er fróðlegt að vita hvað hv. formaður sjútvn. Nd., Stefán Guðmundsson útgerðarmaður með meiru, segir um það hvort hann er sérstakur áhugamaður um að hækka vextina. Og það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig þessi vaxtahækkun kemur við Útgerðarfélag Skagfirðinga (StG: Kemur illa.) Kemur illa, datt mér ekki í hug. Það gæti því farið svo að Framsfl. risi upp og stoppaði þessa ósvinnu. Eða skyldi hann láta það ganga yfir sig?

Og hvernig ætli það sé með hæstv. félmrh. sem sagði frá slysinu í Borgarnesi í sumar þegar við vorum að tala um vextina. Hæstv. félmrh. sagði að þetta væri alveg óskaplegt slys, þessi vaxtahækkun, þetta framfaraspor Þorsteins Pálssonar. Það var haft eftir honum í útvarpi að þetta væri eiginlega stórslys og hamfarir. En núna á að fara að hækka vextina meira. Ætli hæstv. félmrh. sé búinn að samþykkja að það eigi að hækka vextina líka? Hann er búinn að ákveða að stórhækka vextina til lífeyrissjóðanna sem eiga að lána Byggingarsjóði ríkisins, þeir eru komnir upp í 9% ofan á verðtryggingu. Hann er því kominn í harða kapphlaup við Albert, við þetta ríkisútboð á víxlum og við okurlánasjoppurnar hér í landinu. Það verður fróðlegt að vita hvað út úr þessu kemur. En auðvitað átti ríkisstj. að beita sér fyrir því að keyra niður vaxtakostnaðinn hjá útgerðinni í landinu.

Ég hef hér bent á stöðu útgerðarinnar sjálfrar en ég ætla aðeins að fara yfir vinnsluna. Það er rétt að hafa það í huga mitt í öllum þessum svartagallsræðum hæstv. sjútvrh. að verðmætaaukning aflans á milli áranna 1983 og 1984 er nú hvorki meiri né minni en 16.6% að mati Þjóðhagsstofnunar. Og það vantar ekki ræðuhöldin hjá þessum hæstv. ráðh. þegar þeir eru að lýsa því yfir að þegar samdráttur verður eigi að lækka kaupið. En ég hef aldrei heyrt þá tala um að það eigi að hækka kaupið þegar aukning verður á þjóðarframleiðslunni.

En aukning varð á aflanum, hrein verðmætaaukning upp á 16.6% milli áranna 1983 og 1984. Vaxtakostnaður vinnslunnar, umbúðakostnaður vinnslunnar, flutningskostnaður, allt eru þetta gífurlega stórir kostnaðarliðir sem ég hef aftur og aftur bent á hér á hv. Alþingi að ætti að vera unnt að lækka vegna þess að þeir hafa verið að hækka í tíð þessarar ríkisstj. Vextirnir hafa verið að hækka, fraktirnar hafa verið að hækka, umbúðakostnaðurinn hefur verið að hækka.

Ég bendi á að með því að lækka vexti í fyrsta lagi niður undir raunvaxtastig, svo ekki sé farið fram á meira, mætti skera niður kostnað fiskvinnslunnar í landinu um 200–300 millj. kr. Í öðru lagi ef umbúðakostnaðurinn er skorinn niður í það sem hann var fyrir einu og hálfu ári þá þýðir það í kringum 100 millj. kr. Og með því að skera flutningskostnaðinn niður um fjórðung eða svo má spara í kringum 100–150 millj. kr. Ég ræddi þetta hér á þinginu 12. okt. að það ætti að lækka fraktir. Hæstv. forsrh. kom hér þá á eftir mér og sagði: Það er alveg vonlaust. Það er kannske hægt að reyna að stuðla eitthvað að slíku, en það þýðir ekkert að tala um það. Þetta er bara liður sem er óviðráðanlegur.

Hvað kom svo í ljós í þeim efnum? Nokkrum vikum eftir að hann hafði mælt þessi vísdómsorð lækkaði Eimskipafélagið fraktir á útflutningi Sölumiðstöðvarinnar — ekki um 10% eins og stendur hér í þessu frv. okkar, ekki 20%, heldur milli 30 og 40%. Talið er að þessi lækkun á farmgjaldakostnaði fyrir Sölumiðstöðina jafngildi um 1% í afkomu fyrir frystihús innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Í peningum gerir það um 100 millj. kr. vegna þess að veltan hjá fiskvinnslunni er milli 10 og 11 milljarðar á ári. Fyrir sumar greinar útflutningsins, t.d. útflutning á Bretlandsmarkað, er þetta ekki 1% heldur milli 3 og 5% í afkomu þeirrar vinnslugreinar.

Með því að stuðla að þeim ráðstöfunum, sem ég hef hér verið að benda á, er unnt að hækka kaup og styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækjanna í senn. Það er því algjör fjarstæða að halda því fram að sjávarútvegurinn hafi verið sá aðili sem var verið að fella gengið fyrir. Hægt var að tryggja þar kauphækkanir án þessarar gengislækkunar sem nú var gerð með ákveðnum skipulegum ráðstöfunum sem núv. ríkisstj. gerði auðvitað ekki, en ég hef sýnt fram á hér í þessari ræðu minni.

Í 3. gr. þessa frv., herra forseti, er bent á leiðir til að útvega tekjur til að standa undir þeim kostnaði sem af samþykkt þessa frv. mundi leiða. Við gerum ráð fyrir því að aflað verði tekna sem nemi í kringum einum milljarði króna. Í greininni er bent á þrjú atriði, þ.e. álag á skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði, veltuskattur á banka sem nemur 0.06% af heildarinnlánum þeirra og hagnaður Seðlabankans sem verði látinn renna í ríkissjóð. Síðan í grg. bendum við á veltuskatta af þeim greinum verslunarinnar sem hafa grætt sérstaklega að undanförnu. Við bendum þar einnig á að skattar fyrirtækja verði hækkaðir í það horf sem var áður en ríkisstj. lækkaði þá skatta með sérstökum ráðstöfunum á s.l. vetri.

Við teljum að með því að ná þarna í kringum einn milljarð kr. séu möguleikar til að halda þannig á málum að fjármunum verði varið til þeirra aðila sem sérstaklega þurfa á stuðningi að halda með sérstökum aðgerðum, en ekki sé reynt með almennum aðgerðum, eins og gengislækkun yfir línuna, að leysa vandann vegna þess að hún leysir ekki neitt.

Í 4. gr. þessa frv. segir svo:

„Tekjum skv. 3. gr. skal varið í tengslum við ákvörðun fiskverðs og skal markmið vera sem hér segir:

1. til þess að treysta rekstrarstöðu og afkomu útflutningsgreina sjávarútvegsins,

2. til þess að auðvelda fiskverðshækkun þannig að sjómenn fái a.m.k. það sama í sinn hlut og verkafólk í landi skv. kjarasamningum,

3. til þess að koma til móts við útgerðina vegna óhóflegs olíukostnaðar.

Jafnframt skal ríkisstj. undirbúa í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi skipulagsbreytingar og endurbætur á rekstri einstakra fyrirtækja þannig að tryggt verði að fjármunum skv. þessari gr. sé ekki varið til annarra fyrirtækja en þeirra sem vel er stjórnað og að komið verði í veg fyrir að fjármunir renni til aðila sem ekki hafa vald á rekstri fyrirtækja sinna við eðlilegar aðstæður.“

Hér er um að ræða mjög mikilsvert ákvæði. Síðan segir í lok gr.:

„Tekjum skv. 3. gr. skal því aðeins ráðstafað að meiri hluti myndist í Verðlagsráði sjávarútvegsins, enda eigi sjómenn aðild að meiri hlutanum.“

Í 5. gr. er mjög mikilsvert ákvæði sem á að stuðla að því að draga úr erlendum lánum. Erlendar lántökur eru vafalaust eitt stærsta efnahagsvandamál okkar. Og ástæðan er sú að kerfið er galopið upp á gátt og ríkisstj. ræður ekki neitt við neitt. Og það sem verra er, þessi ríkisstj. vill ekki ráða við neitt, því hún heldur að það sé eitthvert frelsi, markaðsfrelsi sem eigi að ráða öllu fyrir hana og hún sé ekki þarna til að stjórna heldur til einhvers annars.

Í þessari grein er gert ráð fyrir því að langlánanefnd verði lögð niður. Það er nefnd sem heyrir undir viðskrn. og er skipuð fulltrúum viðskiptabankanna. Að vísu er rn. þar inni, en viðskiptabankarnir ráða þar mjög miklu og þeir skammta sér í rauninni þar erlend lán, eftir því sem aðstæður bjóða hjá þeirra viðskiptavinum á hverjum tíma, þannig að nefndin er verri en ekki neitt til að halda aftur af erlendum lántökum, verri en ekki neitt, hún er alveg galónýt.

Þess vegna er hér lagt til að þessi nefnd verði lögð niður og að skipuð verði ný nefnd, lánanefnd, sem verði í fyrsta lagi með formann frá viðskrn., sem er auðvitað eðlilegt, en ekki frá fjmrn. eins og einhverjum hefði nú kannske dottið í hug, og í öðru lagi að frá Alþingi verði tveir menn, kosnir hlutfallskosningu í Sþ. Þetta væri þriggja manna nefnd sem á að miða störf sín við að draga verulega úr erlendum lántökum. Þannig skal nefndin miða við að erlend lán vegna fjárfestingar í verslun verði algerlega stöðvuð á árinu 1985, algjörlega stöðvuð.

Ég vildi spyrja hæstv. viðskrh.: Er mikið um það að verslanir hafi fengið erlend lán til fjárfestingar á árinu 1984? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar. Ég hef af því fregnir að ákveðnar einkaverslanir hér á höfuðborgarsvæðinu hafi fengið tugi milljóna í erlendum lánum í fjárfestingu á þessu ári, tugi milljóna. Meðan verið er að neita mönnum um lántökur í sambandi við ýmsa aðra starfsemi hafi verslunin fengið tugi milljóna kr. í erlendar lántökur á þessu ári, þ á m. fyrirtæki eins og Hagkaup svo ég nefni dæmi. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því: Er það rétt að á þessu ári hafi verslunin fengið hundruð milljóna í erlendum fjárfestingarlánum í gegnum langlánanefnd fram hjá lánsfjáráætlun? Því að þetta er auðvitað ekki inni í lánsfjáráætlun. Þegar lánsfjáráætlun var afgreidd hér á þinginu í vetur þá var aldrei talað um að það ættu að fara einhver hundruð milljóna kr. í verslunarfjárfestingu hér m.a. á höfuðborgarsvæðinu.

Í annan stað segir hér: „Þá verði greiðslufrestir á erlendum vörum til innflutnings styttir og verði að hámarki einn mánuður að loknum hæfilegum aðlögunartíma.“

Ekki kann ég það lengur nákvæmlega hvað viðskiptavíxlar erlendir eru nú orðið til langs tíma. Ég hygg að það séu þó nokkrir mánuðir sem þar er um að ræða. Þó ætti það ekki að vera mikið lengra en þrír mánuðir, en ég hygg þó að dæmi séu um slíkt frá þessu ári. Það er auðvitað eðlilegt að takmarka þetta mjög. Ég tel það óeðlilegt þegar ákveðnir innflytjendur eru að nota sér útflutningshagsmuni Íslendinga til þess að reyna að pína fram erlenda greiðslufresti eins og hér hefur verið reynt að gera á undanförnum árum. Það er óeðlilegt. Við eigum auðvitað að höggva þar alveg á milli eins og mögulegt er okkar innflutningshagsmuna og útflutningshagsmuna og eigum ekki að láta beygja okkur til eins eða neins í þeim efnum.

Í 5. gr. er einnig gert ráð fyrir því að lánanefndin birti mánaðarlega í Lögbirtingablaðinu lista yfir erlendar lántökur. Langlánanefnd birtir aldrei opinbera skrá yfir erlendar lántökur sem þar fara í gegn. Hér er gert ráð fyrir því að lánanefndin birti það nákvæmlega hverjir það eru sem fá hin erlendu lán, hvað há lánin eru — í innlendri og erlendri mynt — og til hve langs tíma þau eru. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að þetta verði birt reglulega. Og sama ætti auðvitað að gilda um stærstu lántakendur bankanna. Auðvitað ætti að birta slíkt opinberlega þegar upphæðir eru farnar að hlaupa á mörgum tugum milljóna kr. Auðvitað á ekkert að vera að pukrast með það. Ég minni á að á árinu 1979 féll hér í Nd. frv. sem gerði ráð fyrir því að upplýsingar um útlán bankanna yfir ákveðnu marki yrðu birtar opinberlega. Auðvitað ætti slík regla að vera. En hér er gerð till. um að stíga skref í þá átt.

Í 6. gr. frv. er svo komið að máli sem mjög hefur verið rætt að undanförnu, þ.e. sjúklingaskattinum sem núv. ríkisstj. lagði á. Hér er gert ráð fyrir að hann verði afnuminn og að ný gjöld fyrir lyf og læknisþjónustu verði ákveðin þannig að kaupmáttur elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar gagnvart þessum greiðslum verði sá sami og að meðaltali á fyrstu þremur mánuðum ársins 1983. Og á bls. 25 í frv. þessu eru birtar þær reglugerðir sem hér er gert ráð fyrir að afnema.

Nú hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. ákveðið að lyf og læknisþjónusta skuli ekki hækka á næsta ári. Það þóttu mikil tíðindi og frétt í ríkisfjölmiðlum, sem það auðvitað var. Það er auðvitað stórfrétt að heilbr.- og trmrh. skuli ekki ætla að hækka lyf og læknisþjónustu, það eru mikil tíðindi, því að menn bjuggust við því að hann ætlaði að halda áfram. En hann lét að lokum undan þeim þrýstingi sem hér hefur komið fram á Alþingi, en þó ekki nema að þessu leyti, að það á ekki að hækka á næsta ári. Engu að síður er það raunin að kaupmáttur elli- og örorkulífeyris gagnvart lyfjum og læknishjálp hefur aldrei verið lakari í 14 ár en hann er núna. Þess vegna er eðlilegt að flytja þá till. sem hér er gerð grein fyrir í 6. gr. þessa frv.

Kem ég þá að 7. gr. sem fjallar sérstaklega um vextina. Þar er gert ráð fyrir vaxtalækkun frá því sem verið hefur að undanförnu. Og til þess að gera langa sögu stutta ætla ég að fara aðeins yfir það hvað þetta frv. hefði þýtt fyrir mann sem skuldar milljón á venjulegum bankakjörum á undanförnum mánuðum. Hvað hefði það þýtt fyrir hann? Þetta frv. hefði þýtt það að vextir hans hefðu lækkað um 68 þús. kr. Vextir manns sem skuldar eina milljón hefðu lækkað um 68 þús. kr. Það eru meira en þrenn mánaðarlaun. Hér er um gífurlega stórt atriði að ræða og auðvitað hefði ríkisstj. átt að stuðla að lækkun vaxta en ekki hækkun eins og hún hefur gert.

Það er fróðlegt, herra forseti, að fara yfir það hvernig útlán bankanna hafa verið til einstaklinga og atvinnuvega að undanförnu og hvernig þessir aðilar hafa farið út úr vaxtaþróuninni, vaxtaokrinu. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs jukust lán verslunarinnar um 1.5 milljarða kr. Á sama tíma jukust lán iðnaðarins um 800 millj., 0.8 milljarð. Á þessum tíma jukust lán einkaverslunarinnar um 870 millj. eða miklu meira en til iðnaðarins alls og um miklu hærra hlutfall en lán til samvinnuverslunarinnar á sama tíma. Það er mjög fróðlegt að sjá að meðan samvinnuverslunin eykur sín lán um 35.4% þá aukast lán einkaverslunarinnar um 49.8% skv. tölum Seðlabanka Íslands. Og sérstaklega er það athyglisvert að einkaverslunin ein fær meiri aukningu en allur iðnaðurinn fær á níu mánuðum út úr viðskiptabankakerfinu.

Það er einnig fróðlegt að sjá að meðan verslunin fær meiri lán en áður og meira en iðnaðurinn þá er ljóst hverjir það eru sem fá minnsta lánaaukningu í bönkunum. Hverjir ætli það séu nú sem þarf alveg sérstaklega að taka á núna og kreista og halda utan um og koma í veg fyrir að hirði stóraukinn hlut hér í kerfinu? Hverjir eru það sem þarf að halda sérstaklega í við? Það eru húsbyggjendur. Meðan einkaverslunin eykur sinn hlut um 49.8% þá aukast útlán til húsbyggjenda um 27%. Útlán til íbúðabygginga aukast minnst allra lánaflokka í upptalningu Seðlabankans á útlánaflokkun viðskiptabankanna.

En hvað kostar fyrir þjóðina að halda þessum skuldum uppi? Tökum dæmi. Öll lán verslunarinnar í septembermánuði voru 4.7 milljarðar kr. í bönkunum. Miðað við 26% vexti á öllum þessum lánum kostar það þjóðarbúið 1.2 milljarða að reka þessi lán í gegnum bankakerfið. Og hverjir haldið þið að borgi þessi lán og þessa vexti nema almenningur í landinu, fólkið, neytendur?

Ef hins vegar sú till. sem hér liggur fyrir frá Alþb. um vaxtalækkun hefði verið samþykkt þá væri veltan á þessum lánum ekki 1.2 milljarðar, heldur 800 millj., þ.e. 400 millj. kr. lægri en um er að ræða í raun. Slík lækkun væri líka kjarabót fyrir hinn almenna mann í landinu.

Íbúðalán í bankakerfinu voru 2.7 milljarðar í september. Gerum ráð fyrir að þau séu með um 26–27% vexti. Það eru um 750 millj. sem íbúðabyggjendur verða að borga bankakerfinu í vexti, 750 millj. Er það ekki helmingurinn af heildarútlánum Byggingarsjóðs ríkisins eða ríflega það? Í vexti verður fólk að borga jafnvirði 1350 íbúða á ári. Það eru m.ö.o. 1350 íbúðir á ári sem eru í raun og veru borgaðar inn í bankakerfið fyrir þessa peninga í þeirri vaxtaokurstefnu sem hér er um að ræða, 1350 íbúðir á ári, það er álíka mikið og byggt er alls á árinu.

Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að þessi vaxtaokurstefna sem hér hefur verið framkvæmd hlýtur að leiða í stórfelldar ógöngur fyrir þjóðarbúið. Þessi stefna byggist á því að Seðlabankinn — eða ríkisstj. öllu heldur hefur afhent vaxtaskráningarvald til viðskiptabankanna. Og ég vil segja við hæstv. viðskrh.: Það orkar tvímælis að þessi ákvörðun sé lögleg. Skv. 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands hefur Seðlabankinn rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta sem innlánsstofnanir mega reikna af innlánum og útlánum. Það er Seðlabankinn sem hefur þessa heimild, þennan rétt. Og þessa heimild hefur Seðlabankinn þegið af Alþingi í löggjöfinni. Nú hefur Seðlabankinn hins vegar án lagaheimildar, án breytingar á seðlabankalögunum framselt ákvörðunarvald sitt í vaxtamálum að langmestu leyti öðrum aðilum í þjóðfélaginu og gefið vexti að miklu leyti frjálsa eins og það er kallað. Ég hef ekki séð lögfræðilega álitsgerð um þetta efni en ég dreg í efa að Seðlabankinn hafi heimild til að framselja öðrum aðilum vaxtaákvörðunarvaldið nema Alþingi breyti seðlabankalögunum. Og ég hef engin rök séð frá ríkisstj. eða Seðlabankanum fyrir því að þetta séu lögleg vinnubrögð. Mér er nær að halda að hér sé um að ræða hreina lögleysu og að Seðlabankinn sé með þessum vinnubrögðum að bregðast lagaskyldum sínum gagnvart hinum almenna peninga- og lánamarkaði í landinu.

Ég held að fyrir utan þetta, herra forseti, sé einnig nauðsynlegt að fara hér nokkrum orðum um vexti almennt og velta því fyrir sér hvað er eðlilegt að vextir séu háir. Hér var um skeið mikil deila um það milli Alþb. og Alþfl. hvort taka ætti upp svokallaða raunvaxtastefnu. Þeir Alþfl.-menn voru raunvaxtamenn. Við töluðum um að við vildum verðtryggingu í meginatriðum.

Nú hefur þetta hins vegar verið út úr öllum kortum á undanförnum mánuðum og rakin dæmi um allt upp í 18% vexti ofan á verðtryggingu á okurlánamarkaðnum. Ég held að það sé hins vegar alveg ljóst að með tilliti til hagkvæmni og stöðu atvinnulífsins eigi raunvextir aldrei að fara yfir 2–3%. Ef raunvextir fara miklu hærra þá þýðir það að peningar sogast út úr atvinnulífinu, vegna þess að menn hafa ekki hag af því að einu eða neinu leyti að setja peninga í atvinnulífið, og heldur ekki að setja peninga inn í bankakerfið sem síðan miðlar peningunum út til atvinnuveganna með venjulegum hætti. Menn kjósa að geyma sína peninga annars staðar, í skuldabréfum og öðrum slíkum eignum, sem ekki skila arði eða veltu fyrir þjóðarbúið.

Ég hef fengið mjög ítarlega grg. í hendur um þessi mál m.a. frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, efnahagsnefnd OECD, þar sem sýnt er fram á það að miðað við þær almennu markaðsforsendur sem þjóðfélög Vesturlanda byggja á-og ég er ekki að segja að ég skrifi upp á í öllum greinum — sé óeðlilegt að vextir séu hærri en nemur hagvexti á hverjum tíma. Staðreyndin er hins vegar sú að núna erum við með hærri raunvexti en nokkru sinni fyrr og við erum á sama tíma með neikvæðan hagvöxt eða minnkandi þjóðarframleiðslu. Þetta gengur ekki upp. Þetta er efnahagsleg endileysa.

Dæmi um þetta, sem snýr að húsbyggjendum, er t.d. það að ef allur byggingarkostnaður íbúðar væri greiddur með lánum með 9.5% vöxtum til 20 ára með annuitetsgreiðslum yrði heildarverðmæti endurgreiðslnanna ekki eitt hús, heldur 2.27 hús. Og það eru þessir 9.5% vextir sem hæstv. félmrh. var að ákveða að yrðu greiddir lífeyrissjóðunum. En það er tvöföldun, 2.27 húsverð, ef þetta yrði allt saman greitt með annuitetsgreiðslum og 9.5% vöxtum ofan á verðtryggingu. Með þessu móti eru menn í rauninni að frysta fjármagnið, taka það út úr atvinnurekstrinum í landinu, og það er furðulegt að þeir menn sem þykjast bera hag atvinnuveganna fyrir brjósti skuli beita sér fyrir þessari endileysu og bæta svo gráu ofan á svart með því að ætla að hækka vextina í dag eða á morgun til viðbótar við þessa hringavitleysu sem núv: ríkisstj. hefur innleitt í þessum efnum.

Ég tel að vaxtaokurstefna núv. ríkisstj. sé í raun og veru einn alvarlegasti þátturinn í hennar efnahagsstefnu. Í 9. gr. þessa frv. er sérstaklega komið inn á þetta atriði með því að þar er lagt til að vaxtatekjur fyrirtækja og einstaklinga yfir ákveðnu marki verði skattskyldar. Og til þess að tryggja framkvæmd þessa ákvæðis skuli ríkisstj. gera eftirfarandi ráðstafanir:

1. Að bankar og aðrar innlánsstofnanir geri grein fyrir vaxtatekjum einstaklinga sem eru yfir því marki sem um getur í 1. mgr. Bankarnir sendi skattstofum yfirlit um vaxtatekjur og þeir sem tekjurnar hafa skulu gera sundurliðaða grein fyrir þeim á skattaframtölum sínum.

2. Að öll skuldabréf verði skráð á nafn og þau handhafaskuldabréf sem nú eru í gangi verði skráð á nöfn í bönkum eða annars staðar þar sem þau eru til innheimtu við næsta gjalddaga eftir gildistöku laga þessara.

Skv. lögum um efnahagsmál o.fl. nr. 13 frá 1979, sem kölluð eru Ólafslög, er gert ráð fyrir því að öll verðtryggð skuldabréf séu skráð á nafn. Ég hygg að það sé misbrestur á framkvæmd þessa lagaákvæðis. Þess vegna var fyrir nokkrum árum rætt um það að setja lög um skuldabréf, sérstök lög. Ég skrifaði viðskrh. í fyrrasumar og bað hann um upplýsingar um það hvað liði undirbúningi Seðlabankans að löggjöf um skuldabréf. Það kom þá í ljós að lítið hafði þokast í þeim efnum en viðskrh. tjáði mér að hann hefði fullan hug á að þoka þeim málum áleiðis.

Ég held að þetta sé í raun og veru eitt hættulegasta atriðið í okkar efnahagskerfi núna, þetta neðanjarðarhagkerfi þeirra manna sem eiga skuldabréfin en koma hvergi fram. Það þarf að gera ráðstafanir til að ná þessum aðilum fram í dagsljósið, svæla þá út úr rottuholunum, þannig að í ljós komi hverjir það eru sem eru með okurlánastarfsemi að pína fólk um þessar mundir. Ég tel að þetta sé geysilega stórt og þýðingarmikið mál og ég legg á það áherslu varðandi þetta atriði og einnig önnur í þessu frv. að ef hv. Alþingi ber ekki gæfu til að samþykkja þetta eins og það kemur fyrir hér í frv., þá munum við flytja þessar tillögur sem brtt. um einstök þingmál sem fram kunna að koma á þinginu síðar í vetur.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að það fólk sem er að leita til hinna nafnlausu okurlánara um þessar mundir, það er fólk sem er ekki að gera slíka hluti að gamni sínu. Það kemur að lokuðum dyrum í húsnæðislánakerfinu, það kemur að lokuðum dyrum í bankakerfinu, það getur ekki lengur fengið skrifað í versluninni hjá sér. Það kemur alls staðar að lokuðum dyrum. Þetta fólk hefur kannske eignast íbúðarholu á undanförnum árum og áratugum og það getur látið þinglýsa bréfi á þessa íbúðarholu og selt það á þessum svokallaða frjálsa markaði, jafnvel með 18% vöxtum ofan á verðtryggingu, og jafnvel með afföllum þar ofan í kaupið. Þeir aðilar sem hagnast á þessu fólki og eru þannig að nota sér neyð þess, þeir koma ekki fram, þeir sjást mjög lítið. Það ætti að vera eitt af brýnustu verkefnum ríkisstj. að ná í þessa aðila, svæla þá út úr okurbúllunum þannig að í ljós komi hverjir það eru sem hagnast á neyð almennings um þessar mundir með þessum hætti.

Okurlögin voru sett 1960, lögin nr. 58 frá 1960. Þau hafa alltaf verið mjög erfið í framkvæmd en það hefur aldrei verið eins nauðsynlegt og núna að framkvæma slík lög undanbragðalaust. Ég vil því spyrja hæstv. viðskrh.: Hefur hann í huga að bæta löggjöfina að því leytinu til að sett verði lög um skuldabréf og lögunum um okur verði breytt þannig að þau haldi? Ríkisstj. hefur að vísu verið í vissum vanda í sambandi við lögin um okur vegna þess að hún ætlaði að afnema þau. Hún ætlaði að afnema lögin um okur vegna þess að þau samrýmdust ekki vaxtastefnu ríkisstj. Ríkisstj. var að láta okra á sér á hinum almenna markaði, hæstv. fjmrh. með ríkisvíxlana, þannig að þegar hugmyndin um ríkisvíxlana kom fram og almennt útboð á þeim þá datt hæstv. fjmrh. í hug að afnema okurlögin til þess að það mætti láta okra á ríkissjóði. Þetta hefur ekki enn þá verið gert, okurlögin eru enn þá til. En spurningin er um það hvort hæstv. ríkisstj. hefur í huga að gera þær lagfæringar á þeim sem nauðsynlegar eru til þess að taka á þessu alvarlega vandamáli þar sem um er að ræða eignatilflutning upp á milljarða króna sem okurlánararnir eru að hirða af hinum almenna manni hér í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég hef farið hér nokkrum orðum um efnisatriði þessa frv. Fskj. með frv. eru mörg. Fyrst er þar að telja stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Alþb. Þá eru þar birt viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við gengisfellingunni núna fyrir nokkrum vikum. Síðan eru birtar upplýsingar frá Alþýðusambandi Íslands um kaupránið að undanförnu. Birtar eru samþykktir Alþb. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum og samþykkt miðstjórnar Alþb. frá í haust um kjaramál. Það er birtur samanburður á verðlagi 1983 og 1984, það er birtur listi um gróða þjónustuaðila og það er birtur leiðari Tímans 25. nóv. 1979, en hann er þannig lagað plagg að hann þarf að birta reglulega til þess að ekkert fari á milli mála hvað þeir skrifuðu í Tímann 1979, því að þar lýstu þeir svo vel leiftursókninni — og væri gaman fyrir hv. þm. Stefán Valgeirsson og hæstv. forseta að lesa þann leiðara af og til því að þar er margt fróðlegt og vel sagt. Þetta fskj. XII er bara birt hér til að undirstrika það hvað okkur finnst að þarna sé vel og skynsamlega að orði komist, enda varð leiðarahöfundurinn, Jón Sigurðsson, fljótlega skólastjóri samvinnuskólans eftir að hafa skrifað þessi orð. En þetta er hinn prýðilegasti leiðari í alla staði sem ég hvet þá framsóknarmenn til að kynna sér og er auðvitað alveg óhjákvæmilegt fskj. með frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum.

Ég vil ekki dvelja lengi við þessi fskj., en ég vil sérstaklega vekja athygli þingheims á fskj. XV á bls. 28 og 29. Þar er birtur útdráttur úr gjaldeyrissölu og gjaldeyriskaupum bankanna á fyrri hluta þessa árs. Þar kemur það fram að gjaldeyrissala bankanna á þessum tíma hefur aukist á föstu verðlagi um 14.1%. En verslunar- og viðskiptaferðir, gjaldeyrissala í þessu skyni hefur aukist um 95.3% á föstu verðlagi á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tíma árið 1983. Í fyrra var gjaldeyrissalan til verslunar- og viðskiptaferðalaga 236.7 millj. kr., en núna í tíð Matthíasar Á. Mathiesens og Steingríms Hermannssonar, hæstv. ráðh., eru þetta ekki 237 millj. kr., heldur 461 millj. — í verslunar- og viðskiptaferðir. Þessi tala lýsir því kannske betur en margar aðrar hverjir það eru sem geta velt sér upp úr peningum í þessu þjóðfélagi eins og staðan er nú.

Ég ætla, herra forseti, ekki að sinni að lengja mál mitt mikið frekar. Ég ætla aðeins að segja þetta að lokum: Í gær birtist í blöðunum frétt um að stofnaður hefði verið nýr klúbbur á Íslandi. Hann heitir Lúxusklúbburinn. Markmið klúbbsins er að gefa hinum efnameiri kost á að skemmta sér og að eyða með eðlilegum hætti án þess að þurfa að blanda geði við pöpulinn í þjóðfélaginu. Þessi lúxusklúbbur á sér svo háleit markmið að hann telur óhjákvæmilegt ekki aðeins að halda samkomur máli sínu til framdráttar eins og önnur félagsmálasamtök, heldur ætlar hann að gefa út sérstakt málgagn sem heitir Lúxusblaðið. Það hlýtur að vera ákaflega mikið umhugsunarefni fyrir það fólk sem er núna að reyna að láta endana ná saman í heimilishaldinu sínu að frétta af því að ákveðinn fámennur hópur hér í þjóðfélaginu skuli vera svo efnum búinn núna að hann þurfi að stofna alveg sérstakt félag til þess að koma sínum peningum í lóg í Lúxusklúbbnum.

Önnur frétt birtist svo fyrir nokkrum mánuðum um það að það væri í rauninni ekki nógu öruggt að eiga skuldabréf á okurlánamarkaðnum fyrir þá sem ættu peninga. Það væri mjög brýnt að ríkisstj. tryggði að það yrði hægt að flytja hér inn í landið gull. Það væri svo brýnt að flytja hér inn í landið gull til þess að menn gætu sparað, sem ættu peninga, að það væri í rauninni eitt af brýnustu verkefnum ríkisstj. að tryggja að það yrði gert.

Og í þriðja lagi var fyrir nokkrum mánuðum stofnað hér fyrirtæki í landinu sem heitir Eðalvagnar hf. Það á að flytja inn nógu fína bíla til að keyra gullið sitt á fundina í Lúxusklúbbnum. Á meðan þetta lið skemmtir sér og lifir í vellystingum praktuglega eru lífskjör hins almenna launamanns í þessu landi, ellilífeyrisþegans og öryrkjans, svo hrakleg að það liggur við örvæntingu á hundruðum heimila í landinu. Ég hef ekki séð eitt einasta merki þess að núv. ríkisstj. átti sig á þessum staðreyndum. Miklu líklegra er hitt að áður en varir verði einhverjir af ráðherrum núv. ríkisstj. mættir á fund í Lúxusklúbbnum til að taka við þakklæti fyrir þá stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið að undanförnu og ýtir undir að fámennur hópur hafi hér betri lífskjör í landinu en nokkru sinni hefur verið.

Nei, herra forseti, gengislækkunin var ekki efnahagsleg nauðsyn. Hún var pólitísk aðgerð til að berja verkalýðshreyfinguna í landinu, berja úr henni kjarkinn. Hún var jólakveðja til almennings, til þeirra sem ekki eru í Lúxusklúbbnum, sem ekki versla við Eðalvagna hf. og ekki flytja inn gull. Hún var jólakveðja eins og vaxtahækkunin sem nú stendur til að fara að ákveða. Hún var jólakveðja eins og söluskattshækkunin sem vinur litla mannsins er að reyna að kvelja í gegnum þingflokk Sjálfstfl., þannig löguð jólakveðja til þeirra sem engan eðalvagn eiga, ekkert gull og komast aldrei á fund í Lúxusklúbbnum.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.