05.12.1984
Neðri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

175. mál, verndun kaupmáttar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það er mjög liðið á fundartímann, rétt er það, og þær tíu mínútur sem eftir eru duga varla til að gera þingheimi nokkra grein fyrir þeim þversögnum, því öfugmæli og þeirri dæmalausu vitleysu sem hv. 3. þm. Reykv. hefur látið frá sér fara í meira en hálfan annan klukkutíma.

Ræða hans byggist á frv. því sem hann flytur á þskj. 187, 175. mál, frv. til l. um verndun kaupmáttar og viðnám gegn verðbólgu. Hann rakti í ræðu sinni efni þeirra níu greina sem fylla þetta frv. Það er næsta furðulegt að maður sem búinn er að sitja í ríkisstj. í um fimm ára skeið og vera jafnvaldamikill og hann þar var skuli leggja fram á Alþingi slíkt vottorð um áhrifaleysi og aumingjaskap sjálfs sín allan þennan tíma sem hann sat í ríkisstj. Og ekki aðeins það heldur gegndi hv. þm. embætti viðskrh., en margar þessar greinar eru um málefni sem heyra undir það rn. Ég minnist þess ekki að hann hafi rétt upp litla fingur, — þá hafði hann völdin, þá sat hann í ráðherrastól, — eða gerði nokkurn skapaðan hlut af því sem hann nú er að leggja til að gert sé. (Gripið fram í: Hann las þó Tímann.) Hann las Tímann, segir hv. þm., nema honum hafi verið bent á að lesa Tímann. (Gripið fram í.) Það gæti vel verið að þannig hafi það verið.

Mig langar að vekja athygli á síðasta öfugmæli þessa hv. þm. hér í ræðustól þegar hann talar um stöðu elli- og örorkulífeyrisþega þessa dagana, rétt eftir að núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. er búinn að rétta hag þessa fólks. Hv. þm., þáv. hæstv. ráðh., sinnti ekki því hlutverki, sem honum bar að gera, að halda þannig á þeim málum að hag þessa fólks væri borgið. Þetta eru staðreyndir málsins. (Gripið fram í: Nei.) Þetta eru staðreyndir málsins og jafnvel þó að hv. samflokksmenn ráðh. fyrrv. séu ekki inni á þessu verða þeir samt sem áður að gera sér grein fyrir því að hér er um staðreyndir að ræða. En sannleikanum er hver sárreiðastur, ég veit ósköp vel um það, og það fer eins fyrir þessum hv. þm. og kannske samflokksmönnum hans, því að vissulega ætluðust þeir ekki til þess, ég efast ekki um það, og ég efast ekki um að hv. 10. landsk. þm. ætlaðist ekki til þess að það gerðist í tíð formanns flokks hans, að þeir sem minnst mega sín færu halloka. Það get ég mjög vel skilið af því að ég veit vel að hv. 10. landsk. þm. ber þann hug til þess þjóðfélagshóps að það er ekki í samræmi við hugsunarhátt þm. Þetta er samt sem áður staðreyndin.

Við skulum líka minnast þess sem gerðist síðustu dagana sem hv. 3. þm. Reykv. var í ráðherrastól og lét gefa út reglugerð í sambandi við ákveðna þætti í heilbrigðisþjónustunni. Það voru ekki neinir smápeningar sem þar átti að borga út. Þeim hefði kannske betur verið varið með öðrum hætti og það fyrr á tíma hv. þm. í ráðherrastól. En það var séð við þessu, einfaldlega vegna þess að þjóðin gerði það. Hún gerði það í kosningunum og hún gerði það svo eftirminnilega að þessi hv. þm. sat ekki í ráðherrastól nokkrum vikum síðar og þá var hægt að koma þar fram breytingu.

Það voru ótal spurningar sem hv. þm. beindi til mín í ræðu sinni sem ég verð að svara á síðari fundi þegar þetta mál verður til umr. En mér finnst ég ekki geta lokið máli mínu öðruvísi en að svara fsp. varðandi vaxtamálin.

Ræða þessa hv. þm. grundvallaðist á stöðu þjóðmála í dag, á þeirri breytingu gengis sem gerð var fyrir nokkru og þeim ráðstöfunum sem fylgt hafa í kjölfarið. Það er ærið efni í nokkuð langa ræðu að rifja það upp allt saman og feril hv. þm. í þeim efnum. Ég ætla þó ekki að gera það, en vil vekja athygli hans á því að 30%- reglunni, sem hann kom hér inn á, var hætt að beita í þeirri ríkisstj. sem hv. þm. sat í. Þegar tvær seinustu gengisfellingarnar, sem þessi hv. þm. stóð að af átta gengisfellingum sem hann stóð að á þeim tíma sem hann sat í ríkisstj., fyrir nú utan allt gengissigið sem var nánast daglega, voru framkvæmdar var 30%- reglunni ekki beitt. Ég er hins vegar ekki að dæma um hvort það var rétt eða rangt. Kannske hefði verið skynsamlegra að það hefði verið gert miklu fyrr þegar menn sáu hvernig hlutirnir fóru og þegar þetta mikla gengissig varð. Aldrei nokkurn tíma beitti hv. þm. þá 30%- reglunni.

Íslandsmethafinn í verðbólgu talar hér um verðbólguhraða. Auðvitað er verðbólguhraðinn allt of mikill, en hann er þó ekki í líkingu við það sem hann var þegar hv. þm. hvarf frá völdum. Og hann er að tala um vaxtahækkun. Hvað er meira öfugmæli en að tala um vaxtahækkun þegar menn gera sér grein fyrir því hvert verðbólgustigið verður á næstu vikum.

Þessi hv. þm. stóð að meiri hækkun nafnvaxta en nokkur annar hefur gert. Þegar hann fór frá voru nafnvextir refsivextir, 60%, sem þeir hafa verið hæstir. En þrátt fyrir þá háu vexti tókst ekki að hafa raunvexti á sparifé almennings. Það hefur þó tekist nú og hafa vextirnir verið miklu lægri.

Hann spurði hvort viðskrh. væri að hækka vexti. Honum er fullvel ljóst hver fer með vaxtamálin. Það eru einir vextir sem ríkisstj. samþykkir. Það eru vextir í afurðalánum. Tillaga um vaxtahækkun þar hefur ekki enn verið lögð fyrir ríkisstj. Hugmyndir seðlabankans í sambandi við vaxtabreytingu hafa enn ekki verið lagðar fyrir ríkisstj. Hann sagði 5% vaxtahækkun. Það eru 17% vextir á innistæðum. Nafnvextir á innistæðum í peningastofnunum væru þá 22%, 17 plús 5. Svo tala menn um vaxtahækkun þegar menn sjá að verðbólgan fer yfir 30%. Það er að verða vaxtalækkun. Og menn, sem eru búnir að tala um gamla fólkið og börnin og að fjármagn þess inni í peningastofnunum eigi að vera verðtryggt, hver einasta króna, standa nú hér í ræðustól og segja: Guð minn almáttugur. Ætlið þið að fara að hækka vexti? Ætlið þið ekki að láta þetta fólk hafa peningana sína inni í bönkunum á svo lágum vöxtum að það fær kannske helminginn út aftur eftir eitt ár? Þetta er hugsunarhátturinn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda lengur áfram nú, klukkan er senn orðin fjögur, en til að svara ræðu hv. þm. þarf ég töluvert lengri tíma en svo að við getum lokið ræðunni á þessum fundi. (Forseti: Hæstv. viðskrh. heldur áfram ræðu sinni á síðari fundi.)