05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

188. mál, barnabótaauki

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert farið dult með að ég vildi fara aðra leið í þessum kjarasamningum. Ég tel það mikla ógæfu sem verkalýðshreyfingin og þjóðin öll komst í með því að þurfa að ganga þessa gömlu leið. Ég hef ekki dregið neina dul á það og hef gert grein fyrir máli mínu hér í þinginu áður. En ég minni á það einnig vegna þess að (Gripið fram í.) — það er einn sem talar núna — þær tilraunir okkar að fara aðrar leiðir í kjarasamningum voru eyðilagðar af borgarstjóranum í Reykjavík. Það tækifæri sem við áttum til að fara nýja leið, aðra leið sem hefði tryggt fyllilega kaupmáttinn, sú tilraun okkar fór út um þúfur vegna aðgerða þessa höfuðpostula sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Ég játa það hiklaust að ég tel miður að farin var sú leið sem raun ber vitni. Því verður ekki heldur á móti mælt að enginn átti von á því, þrátt fyrir að þessi leið var farin, að svo harkalega yrði gripið til þess að eyðileggja þessa samninga sem gert var. Ég fullyrði það einnig. En það sem ég var að gagnrýna áðan hjá hv. þm. — (Forseti: Nú vil ég biðja hv. þm. að stytta mál sitt.) Já, ég skal gera það, ég verð mjög stuttorður, — er að það sem miður fer í þessum efnum gagnrýnir hann verkalýðshreyfinguna fyrir en ekki þann sem eyðileggur samningana. Honum dettur aldrei í hug annað en gagnrýna þær fjöldahreyfingar sem að verki standa. Hann færir ábyrgðina af sökudólgnum yfir á einhverja aðra. Hver sem það er. Er það sjálfsagt vegna lífsskoðana hans sem ég lýsti hér áðan.