05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

191. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1985 er gert ráð fyrir að lagt verði á sjúkratryggingagjald með sama hætti og gert var á þessu ári. Af þeirri ástæðu er þetta frv. lagt hér fram, en það er samhljóða lögum frá 1983 um sama efni.

Í áætlun fjmrn. er talið að álagt sjúkratryggingagjald nemi á þessu ári 142 millj. kr. og áætlað að innheimtist af því 125 millj. Skv. þessu frv. er áætlað að gjaldið muni nema 170 millj. kr. og innheimtanlegar verði um 150 millj. kr.

Þá er gengið út frá að skattbyrði vegna sjúkratryggingagjalds skv. þessu frv. verði óbreytt hlutfall af tekjum gjaldenda á greiðsluári á milli þessa árs og næsta.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.