05.12.1984
Efri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

192. mál, málefni aldraðra

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég fæ frv. til skoðunar í n. og ekki skulu höfð mörg orð um málið nú. Fljótt á litið líst mér vel á þessar breytingar þó að sjálfsögðu sé hin hliðin svo eftir sem snertir hjúkrunarheimilin eða hjúkrunarrýmin, þ.e. hvað fjárlögin núna muni segja um framlög til þeirra.

Heimildarákvæði um 30% af ráðstöfunarfénu til framkvæmda á vegum sveitarfélaga eru góðra gjalda verð ef hjúkrunardeildir fá þá sæmilegan skerf af fjárlögum.

Ég tel ákvæði 2. gr. um fulltrúa fjvn. til bóta. Hingað til hefur stjórnin sem séð hefur um úthlutun fjárins eða þessi samstarfsnefnd, sem hún er nú víst kölluð, nánast skilað fjvn. endanlegri tillögugerð og litlu verið breytt þar. Það getur verið að rn. hafi eitthvað skipt sér af því, væntanlega þá áður en frá því hefur verið endanlega gengið.

Ég varpa því fram hvort ekki væri eðlilegt, ef fjvn. Alþingis á að koma hér inn í, að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar í n. ættu að fjalla um þetta í stað þess eina stjórnarliða sem ráð er fyrir gert í 2. gr. Það fer auðvitað ekki milli mála að einn fulltrúi tilnefndur af fjvn. Alþingi verður fortakslaust úr stjórnarliðinu, hvaða stjórn sem hér verður.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um Framkvæmdasjóð aldraðra að öðru leyti en að hann hefur verið heilladrjúg stoð til að skapa öldruðum bætta aðstöðu. Vissulega er rétt að ein framkvæmd hefur tekið til sín megnið af fjármagninu og satt er það að þeim sem að málefnum og framkvæmdum aldraðra hafa unnið vítt um landið af dugnaði og þrótti hefur oft þótt knappt skammtað af þeim sökum. Ég dreg ekkert úr því að ég hef verið einn þeirra sem hefur þótt hlutur landsbyggðarinnar í heild óþarflega rýr, þó ég dragi á hinn bóginn engan veginn úr þörfinni hér á höfuðborgarsvæðinu og stórátökum, svo sem B-álmunni í Borgarspítalanum og Hrafnistu. Enn bíða óleyst verkefni og brýn og önnur eru á framkvæmdastigi. Eystra munu þessi verkefni t.d. vera átta með þeim sem nú er verið að hefjast handa við. Og þörfin kallar alls staðar á viðbótarþörf einnig, þar sem myndarlega hefur verið staðið að uppbyggingu.

Ég veit líka að þessi skattur hefur nokkra sérstöðu í huga gjaldenda. Ég held að óhætt sé að fullyrða að menn greiða þetta framlag með meiri ánægju en flest eða allt annað. Þess vegna mætti þetta gjald vera hærra en áætlun er um og þá skoðun hef ég ævinlega haft. Menn vilja þá að vísu sjá þess merki í nánasta umhverfi sínu að eitthvað sé aðhafst og að framlag þeirra komi þar til góða, en hærri gjaldtaka, þó hart sé nú á dalnum hjá fólki, hjá allt of mörgum, mundi þá með réttlátri skiptingu sjást bæði víðar og betur í framkvæmdum. Ég væri tilbúinn að standa að því þó ég viti að það sé margt til umræðu nú.

Ég gagnrýndi nokkuð í fyrra fljótaskrift á breytingu þá og taldi að ótvíræð túlkun yrði tæpast fengin með þeirri breytingu. Hæstv. ráðh. gat um þá yfirlýsingu sem hann gaf, og árangur sjáum við í þessari endurskoðun. Mér sýnist í fljótu bragði að hér séu tekin af tvímæli, en ítreka aftur að hin aðalspurningin snýr að fjárlagaafgreiðslu nú og framvegis til hjúkrunardeildanna, sem e.t.v. kalla frekar á fjármagn en nokkuð annað.

Að öðru leyti mun ég geyma mér málið til athugunar í n. og seinni umr. Ég vildi þó spyrja hæstv. ráðh. —ekki að það skipti miklu í þessu máli — hver líkleg framlög á fjárlögum muni verða varðandi hjúkrunarrýmin eða hvaða tillögur hans rn. hefur gert um upphæð varðandi hjúkrunardeildirnar beint af fjárlögum nú.