06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

75. mál, fræðslukerfi og atvinnulíf

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mig langar til þess, áður en umr. um þetta mál verður frestað, að leggja örfá orð í belg. Ég vil þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir forgöngu hans um að hreyfa þessu máli. Hér erum við að fjalla um mál sem er meðal þeirra stærstu sem renna stoðum undir uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi á næstu árum.

Ef við ætlum að byggja upp atvinnulíf á Íslandi með árangri og ef við ætlum að efla þær atvinnugreinar sem fyrir eru verðum við um leið að hyggja að fræðsluþættinum. Það kemur að harla litlu haldi að leggja stórfé í nýjar fjárfestingar og nýjar greinar ef þess er ekki jafnframt gætt að hafa á að skipa mannafla sem hefur þekkingu til þess að valda þeim verkefnum, sem hefur líka þekkingu til þess að fylgjast með því sem nýjast gerist og best í heiminum á þeim sviðum. Allar þær þjóðir sem náð hafa lengst í efnahagsuppbyggingu á undanförnum árum hafa gert sér þetta ljóst og þær hafa lagt á þetta atriði höfuðáherslu.

Það er vissulega rétt, sem hv. þm. segir, að tillögugerð um þessa hluti getur tekið langan tíma, en sumt af þeim atriðum þarf ekki að taka langan tíma. Sumt af þeim atriðum þarf fyrst og fremst skilning og fjármagn. Og sum af þeim atriðum eru þess eðlis að við höfum ekki ráð á að láta þau bíða í mörg ár. Þá verðum við einfaldlega of sein til þess að geta sinnt með árangri þeirri samkeppni sem við er að etja í framleiðslu ýmissa verðmæta sem á boðstólum eru á heimsmarkaði.

Í okkar landi, sem er land fárra auðlinda, verðum við að hlynna að þeirri auðlind sem hægt er að auka með mannlegum aðgerðum, en það er einmitt þekking fólksins. Og við þurfum þeim mun meira á því að halda að sú auðlind sé virkjuð sem við erum fámenn þjóð. Við ættum ekki að hafa síðri skilyrði til þess að sinna þeim aðgerðum en aðrar þjóðir þótt fjölmennari séu, nema að því leyti til sem við auðvitað fáum færri menn til starfa en aðrar þjóðir, en þeir ættu ekki að vera síður að sér, enda er það mála sannast að t.d. í Háskóla Íslands höfum við á að skipa, ef ég má svo segja, úrvali þekkingar. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að hafa hljóð á fundinum.) Á það við um ræðumann, hæstv. forseti? Ég þykist vita að svo sé ekki. (Forseti: Ég geri ráð fyrir að hv. ræðumaður geri sér grein fyrir því að það er verið að biðja um hljóð fyrir ræðumann.) g þakka fyrir það, hæstv. forseti. Það er vissulega rétt og oft er rétt að það er þörf á því. Ég verð að segja að oft er ég þakklát fyrir röggsama fundarstjórn hæstv. forseta og svo er nú.

Mig langar til að geta um örfá atriði sérstaklega vegna þeirrar till. sem til umr. er, en í till. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga hvernig unnt er að tengja fræðslukerfið, einkum Háskóla Íslands, við atvinnulíf landsmanna framar því sem nú er.“

Ég vil skýra frá því að unnið hefur verið í menntmrn. frv. um breyt. á l. um Háskóla Íslands sem einmitt er unnið með þetta markmið fyrir augum. Þetta frv. er nú til umfjöllunar í ríkisstj. og ég vonast til þess að frv. um þetta efni liggi fyrir hér á Alþingi nú fyrir jólin. Það miðar einmitt að því að veita Háskóla Íslands heimild til að tengjast atvinnulífinu með beinni hætti en nú er og gera hann þar með að stofnun sem er í enn meira lifandi tengslum við önnur störf í þjóðfélaginu og einnig að nýta þá mikilsverðu og fjölbreyttu þekkingu sem Háskólinn og starfsmenn hans hafa á að skipa, en það eru menn sem hafa numið með mjög góðum árangri í mörgum tugum bestu menntastofnana heimsins. Ég hygg að svo einkennilegt sem það er sé það e.t.v. því að þakka hve fámenn við erum að Háskólinn býr ekki eingöngu að sínu, heldur hafa íslenskir háskólaborgarar þurft að sækja ýmsa sérmenntun til annarra landa, þannig að við höfum þarna mjög verðmæta þekkingu sem við verðum að nýta sem best.

Þetta atriði vildi ég nefna og einnig það, sem hv. frummælandi vék að, þar sem hann minntist á störf nefndar sem vann að tillögugerð um menntun í sjávarútvegsfræðum. Ákvörðun um það liggur fyrir og tengist tveimur deildum Háskólans. Enn fremur eru í uppbyggingu nýjar greinar, sem hafa mikla þýðingu fyrir nútíma atvinnulíf, nýjar greinar í Tækniskólanum.

Að því er iðnfræðsluna varðar og ýmiss konar annað sérnám vil ég sérstaklega taka fram að ég hygg að við verðum að varast að leggja um of áherslu á að sérnám beri að hefjast sem allra fyrst. Ég held einmitt að þróun síðustu ára í tækni og hraðar breytingar á ýmsum tæknibúnaði atvinnuveganna leiði til þess að grunnfræðsla, fræðsla í ýmsum undirstöðugreinum iðnskólanna t.d., þurfi að vera rækilegri en nú er. Á þetta hafa þeir, sem þeim skólum stjórna, og einnig þeir, sem vinna í ýmsum sérgreinum þar sem hraðastar eru breytingarnar, bent. Ég hygg að þetta sé rétt og sérstaklega eigi þetta við um tungumálakunnáttu og nokkra þekkingu á rafeindasviðinu.

Það væri freistandi að fara út í ýmis fleiri einstök atriði, svo sem áætlun um tölvukennslu og notkun á tölvum í fræðslustörfum. Það verður ekki gert að sinni. Hins vegar vil ég leggja á það áherslu að ég er þeirrar skoðunar að við þurfum á viðhorfsbreytingu að halda. Við höfum talað um það í mörg ár að styrkja betri tengsl skóla og atvinnulífs. Mig grunar að í mörgum tilfellum hafi menn þá fyrst og fremst verið að hugsa um að nemendurnir færu sem fyrst út í atvinnulífið, þátttaka í atvinnulífi væri metin til eininga við námslok o.s.frv. Það er vissulega atriði sem hefur þýðingu. En það sem ég held að hafi meginþýðingu og til langrar framtíðar er að gæði menntunar, sem svo eru nefnd, og þá ekki síst á grunnskólastigi, hafi ómetanlega þýðingu sem grundvöllur atvinnulífs í landinu og framfara í efnahagsmálum. Einkum á þetta við um undirstöðugreinar og á undirstöðuþekkingu að þessu leyti hvílir öll verkmenntunin og hæfni til þátttöku í ýmsum greinum atvinnulífsins.

Að því er varðar fræðsluna á framhaldsskólastiginu aftur á móti ég hygg að þar þurfi að gefa miklu meiri gaum að nánári tengslum eins og við segjum og vissulega hefur það verið til meðferðar í þeirri nefnd sem hv. frummælandi gat hér um. Hún hefur gert tillögur um miklu meiri og nánari upplýsingaöflun og upplýsingastreymi á milli þessara aðila, atvinnuveganna annars vegar og fræðslukerfisins, sem fyrst og fremst kæmi að haldi annars vegar við námsval og hins vegar við uppbyggingu námsgreina.

Það sem ég vil nefna hér, sem ég held að hafi ekki komið verulega til athugunar hér á landi og ég hef hug á að staðið verði að í náinni framtíð, er formlegt samstarf milli yfirvalda fræðslumála og launþegasamtakanna og vinnuveitendasamtakanna hins vegar. Ég hef nokkur gögn fyrir mér í þessu sambandi, en alveg nýlega var haldinn í Parísarborg fundur menntmrh. allra OECD-ríkjanna um þessi málefni, nákvæmlega það sem hér er á dagskrá að því er framhaldsskólastigið varðar og svo gæði grunnmenntunar sem óaðskiljanlegs þáttar uppbyggingar og framfara í efnahagslífi þjóðanna. Það var mjög athyglisvert að á þessum fundi lágu fyrir skýrslur sem voru árangur viðræðna þessara aðila við stjórnir alþjóðalaunþegasamtakanna og alþjóðavinnuveitendasambandsins og margt af þeim hugmyndum á vafalaust rétt á sér í mörgum ríkjanna, þar á meðal hér. Ég vil gjarnan, ef hv. þm. eða sú nefnd sem fengi þetta mál til umfjöllunar hafa hug á því, láta þeim þessi gögn í té.

En allt er þetta mál þess eðlis að þarna held ég að allir alþm. verði að vera jafnvel enn betur á verði en verið hefur. Sérstaklega tel ég að við verðum að hafa það í huga, þegar um það er rætt að mikið fé hafi farið til fræðslumála, að skipulag þeirra mála verður að vera þannig að það beri árangur í því sambandi sem við erum að tala hér um og það stuðli að hinni almennu menntun hvers og eins að sjálfsögðu, en uppbygging atvinnulífsins og uppbygging fræðslukerfisins eru óaðskiljanlegir þættir. Ég vonast til þess að sem allra flestir muni taka afstöðu skv. því. Ég geri mér ljóst að í því fjárhagsárferði sem við búum nú við þykir mörgum það áhorfsmál að veita eigi auknu fé í þennan þátt og það er vitanlega ljóst að horfa verður í því sambandi á þá þætti sem eru óaðskiljanlegir hlutar þessarar uppbyggingar, en ég leyfi mér að vona að svo verði og ég held að sú till. sem liggur hér fyrir geti einmitt stuðlað að bættu viðhorfi að þessu leyti.

Ég vil einnig taka fram, herra forseti, að ég hygg að hugmynd hv. 4. þm. Austurl. um að setja á laggirnar mþn. í þessu sambandi sé skynsamleg því að það sem tengir þingið sem allra best uppbyggingu í þessum málum held ég að hljóti að verða til góðs.