06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hafði óskað eftir því við hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. að þeir væru hér viðstaddir við þá umr. utan dagskrár sem ég er hér að hefja. Ég vil hinkra við og sjá hvort báðir ráðh. eru ekki viðstaddir. (Forseti: Það skal tekið fram að hæstv. forsrh. er í húsinu og ég veit ekki betur en hann viti að við erum að byrja. Hér gengur hann í salinn.) Já.

Ástæðan fyrir því að ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár í Sþ. eru þau válegu tíðindi, sem fram hafa komið á síðustu dögum, að forseti Bandaríkjanna og æðstu yfirmenn Bandaríkjahers hafi um árabil veitt til þess formlega heimild að flytja megi kjarnorkuvopn til Íslands á ófriðartímum og miða uppbyggingu herstöðvarinnar í Keflavík við þær fyrirætlanir. Þegar hefur komið fram opinberlega hjá íslenskum ráðherrum að heimildir þessar til að staðsetja ógnarvopn hérlendis hafi verið veittar, ef rétt reynist, án vitundar og vilja íslenskra stjórnvalda og þvert ofan í hátíðlegar yfirlýsingar ekki færri en sjö íslenskra utanrrh. um hið gagnstæða allt frá árinu 1964 að telja. Núv. hæstv. forsrh. kom þannig af fjöllum þegar Ríkisútvarpið innti hann álits á þeim upplýsingum sem Bandaríkjamaðurinn William F. Arkin frá Institute for Policy studies í Washington veitti honum aðgang að í fyrradag, en þær upplýsingar voru einnig afhentar utanrrh. Geir Hallgrímssyni í gær.

Ég fór þess á leit við þessa hæstv. ráðh. við upphaf þingfundar í gær að þeir yrðu viðstaddir umr. um þetta mál hér í Sþ. í dag, ef leyfð yrði, þar sem ég mundi m.a. beina fsp. til hæstv. utanrrh. Urðu þeir þegar við þeim tilmælum. Hæstv. forseti Sþ. varð síðan við þeirri ósk minni að mál þetta kæmi hér til umr. utan dagskrár á fundi þingsins í dag og vil ég þakka þær undirtektir.

Fullyrða má að sjaldan hafi verið ríkara tilefni en nú til umr. hér á Alþingi Íslendinga um öryggismál landsins, þegar fram hafa komið staðhæfingar, byggðar m.a. á ljósrituðum heimildum frá æðstu stjórn Bandaríkjanna, þar sem Bandaríkjaforseti veitir landvarnaráðuneytinu bandaríska fortakslausa heimild til að koma megi fyrir kjarnorkuvopnum á Íslandi á ófriðartímum. Skv. þessum heimildum var á árinu 1975 um skjalfest leyfi þáv. forseta Bandaríkjanna að ræða um að flytja mætti 48 kjarnorkudjúpsprengjur til Íslands á ófriðartímum til nota gegn kafbátum. William Arkin staðhæfir þessu til viðbótar að slík heimild hafi verið veitt á tímabilinu 1951-1983 árlega og hafði hann séð það skjalfest hjá embættismanni Bandaríkjastjórnar að því er varðar síðasta ár.

Ísland er þarna í hópi landa eins og Bermuda, Azoreyja, Kanada og Puerto Rico auk þeirra ríkja, níu talsins, sem fallist hafa opinberlega á að taka við kjarnorkuvopnum á friðartímum. Ísland er eina fullvalda ríkið sem tekið er inn í þessa heimildaskrá, þar sem ekki liggur fyrir skýr stefna eða formlegt leyfi viðkomandi stjórnvalda um hugsanlega staðsetningu kjarnorkuvopna.

Varðandi Bermuda er m.a. tilgreint í nefndu skjali frá árinu 1975 að fá þyrfti leyfi breskra stjórnvalda til að flytja kjarnorkuvopn til eyjarinnar á ófriðartímum. Enginn slíkur fyrirvari er tilgreindur að því er Ísland varðar, þótt hér hafi því þrásinnis verið lýst yfir af íslenskum ráðherrum að staðsetning kjarnorkuvopna á Íslandi komi ekki til greina. Skv. upplýsingum Williams Arkins hefur forseti Bandaríkjanna þannig um árabil staðfest áætlanir fyrir bandarísk hernaðaryfirvöld sem brjóta þvert gegn þessari yfirlýstu stefnu íslenskra stjórnvalda og varnarsamningnum svonefnda milli Íslands og Bandaríkjanna frá 1951. Lengra er vart hægt að ganga gegn stjórnvöldum og öryggishagsmunum fullvalda ríkis en að draga það inn í áætlanir um kjarnorkuvígbúnað að stjórnvöldum sama ríkis forspurðum og gefa jafnframt út hátíðlegar yfirlýsingar um hið gagnstæða. Hæstv. utanrrh. minntist á það í Ríkisútvarpinu í gærkvöld að bandarísk yfirvöld hafi fyrir fjórum árum gefið út yfirlýsingu um það, eins og hann orðaði það, að þau færu í einu og öllu eftir yfirlýsingu þjóðarleiðtoga Atlantshafsbandalagsríkjanna, sem gefin var út 1957, þess efnis að kjarnorkuvopn væru ekki geymd og þau mundu ekki verða notuð frá neinu ríki Atlantshafsbandalagsins án samþykkis viðkomandi ríkis.

Geir Hallgrímsson hæstv. utanrrh. minntist einnig á það í sama viðtali að skv. varnarsamningnum svonefnda frá 1951 eigi Íslendingar að hafa, eins og hann orðar það, fyrsta og síðasta orðið varðandi hvaða vopn eða hvaða aðstöðu við látum varnarliðinu í té. Lengra verður ekki gengið í að sýna stjórnvöldum í fullvalda ríki lítilsvirðingu en með því að ganga þannig gegn skýrum fyrirvörum og samningsákvörðun eins og hér virðist hafa verið gert. Það á ekki síður við þegar um er að ræða stjórnvöld og ráðamenn sem hafa verið leiðitamir gagnvart óskum bandarískra stjórnvalda um hernaðaraðstöðu eins og dvöl og umsvif herliðsins á Miðnesheiði bera vott um.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð að ríki og svæði, sem koma við sögu í kjarnorkuvopnaáætlunum risaveldanna, eru í sérflokki ef til styrjaldarátaka kemur. Háskinn, sem íbúum þessara landa er búinn, er margfaldur á við það sem er um lönd sem hafa heri eða herstöðvar án kjarnorkuvopna. Er þá raunar vægt til orða tekið.

Það vekur athygli að í umræddri heimild Bandaríkjaforseta til hernaðaryfirvalda um kjarnorkuvígbúnað er hvergi minnst á NATO-ríkin Noreg og Danmörku sem ekki hafa léð máls á að taka við bandarískum herstöðvum eða að veita viðtöku kjarnorkuvopnum. Þetta sýnir m.a. hversu fjarri lagi það er að leggja að jöfnu annars vegar stöðu Íslands og hins vegar Noregs og Danmerkur innan Atlantshafsbandalagsins og gagnvart Bandaríkjum Norður-Ameríku sérstaklega. Í ljósi þeirra upplýsinga, sem hér liggja fyrir um kjarnorkuvígbúnaðaráætlanir Bandaríkjanna að því er Ísland snertir, verður skiljanlegri afstaða þeirra stjórnmálamanna á öðrum Norðurlöndum sem kunnugastir eru hnútum innan NATO og sem halda vilja Íslandi utan við umræður um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Líklega hafa þeir hinir sömu stjórnmálamenn haft skýrari mynd af áætlunum bandarískra hernaðaryfirvalda í tengslum við Keflavíkurherstöðina en íslenskir starfsbræður þeirra.

Í þessu sambandi er einnig vert að hafa í huga þá túlkun á ákvæðum varnarsamningsins frá 1951 að Keflavíkurflugvöllur sé nánast bandarískt yfirráðasvæði en ekki íslenskt. Er hugsanlegt að bandarísk stjórnvöld líti svo á rétt sinn og yfirráð á þessu svæði að þau þurfi af þeim sökum ekki að leita heimildar íslenskra stjórnvalda vegna áætlana um að flytja kjarnorkusprengjur inn á vallarsvæðið á ófriðartímum og komist þar af leiðandi af með minna en t.d. gagnvart Bermuda og breskum stjórnvöldum?

Ekki er ólíklegt að bandarísk stjórnvöld vefengi eða reyni að gera sem minnst úr þeim upplýsingum sem William Arkin hefur nú komið á framfæri við íslenska ráðherra. E.t.v. eigum við eftir að heyra að aldrei hafi staðið til að sniðganga íslensku ríkisstjórnina ef til kastanna kæmi um flutning kjarnorkuvopna til landsins. Það hafi aðeins gleymst að segja þeim Geir Hallgrímssyni, Ólafi Jóhannessyni, Benedikt Gröndal og Einar Ágústssyni, sem var utanrrh. Íslands árið 1975, frá heimild Bandaríkjaforseta um að flytja megi kjarnorkuvopn til Keflavíkur á ófriðartímum, 48 kjarnorkusprengjur á árinu 1975, svo ekki sé minnst á forsætisráðherra Íslands á sama tíma, þ. á m. samtal þeirra Steingríms Hermannssonar hæstv. forsrh. og George Bush varaforseti Bandaríkjanna fyrir ekki löngu síðan sem hæstv. forsrh. gerði að umtalsefni í Ríkisútvarpinu í gær.

Sú staða, sem nú blasir við, kallar ekki aðeins á einörð viðbrögð af Íslands hálfu, vegna þess að svo virðist sem farið hafi verið gróflega á bak við íslensk stjórnvöld í lífshagsmunamáli í bókstaflegri merkingu. Verði framkomnum upplýsingum ekki hnekkt á afdráttarlausan hátt hljóta Íslendingar að verða að endurskoða frá grunni afstöðu sína til þeirrar hernaðaraðstöðu sem Bandaríkjunum var veitt hér með samningi árið 1951, þeirra framkvæmda sem heimilaðar hafa verið á undanförnum árum og ráðgerðar eru, svo sem um nýja stjórnstöð hersins í Keflavík, olíubirgðastöð og herskipalægi í Helguvík og nýjar ratsjárstöðvar á öllum landshornum, svo fáein dæmi séu nefnd. Ekki getur það heldur orkað tvímælis að þessar framkvæmdir og áætlanir um hernaðaraðstöðu hér blasa við í allt öðru ljósi ef þær eru skoðaðar í tengslum við áætlanir um að nota herstöðina í Keflavík í tengslum við kjarnorkustríðsátök, eða á ófriðartímum.

Hæstv. utanrrh. hefur þegar bent á það í viðtölum á síðasta sólarhring, bæði við Ríkisútvarpið og dagblöð, að áætlanir í þessa átt, samþykktar á bak við íslensk stjórnvöld, væru að hans mati brot gegn hátíðlegum yfirlýsingum og samningsbundnum skuldbindingum Bandaríkjanna gagnvart Íslandi. Það tel ég eðlileg og ótvíræð viðbrögð í miklu alvörumáli sem hlýtur að vera hafið yfir alþekktar deilur og ólíka afstöðu til herstöðvar Bandaríkjanna hérlendis á meðan kjarnorkuvopn voru ekki talin koma þar neitt við sögu. Ég tel hins vegar skrif eins og þau sem lesa má í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í dag vera dæmi um hið gagnstæða við viðbrögð hæstv. utanrrh. og sýni hvernig þar er brugðist við í örlagaríku máli með lágkúru og skætingi. Ég spara mér, herra forseti, að styðja þau orð mín með tilvitnunum í Morgunblaðið að þessu sinni.

Uppljóstranir Williams Arkins um áform bandarískra hernaðaryfirvalda, sem staðfest voru, að hans sögn, um árabil af forseta Bandaríkjanna, gera það að mínu mati óhjákvæmilegt að Alþingi Íslendinga taki af öll tvímæli um afstöðu til kjarnorkuvopna á Íslandi og lýsi því afdráttarlaust yfir og lögfesti að hér skuli aldrei vera staðsett kjarnorkuvopn eða aðstaða þeim tengd, jafnt á friðar- sem ófriðartímum. Það er með öllu óviðunandi að í slíku máli ríkti einhver óvissa og að það geti verið talið á valdi ríkisstj. á hverjum tíma og jafnvel utanrrh. eins hvort slík heimild verði veitt.

Ég óskaði eftir því að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þessa umr. í dag eins og ég hef þegar um getið og ég vænti þess að hann tjái sig um viðhorf til framkominna upplýsinga og staðhæfinga. Sérstaklega vil ég inna hann eftir afstöðu hans til þess að Alþingi taki af tvímæli um að ekki geti til þess komið að kjarnorkuvopn verði staðsett hérlendis, hvort sem um er að ræða friðar- eða ófriðartíma að einhverra mati. Einnig vil ég spyrja hann hver fari með það vald að hans dómi að bregðast við hugsanlegri beiðni af hálfu NATO eða Bandaríkjastjórnar að flytja hingað kjarnorkuvopn á meðan Alþingi hefur ekki afdráttarlaust markað stefnu um þetta með löggjöf eða ótvíræðri yfirlýsingu. Er það utanrrh. landsins einn eða ríkisstjórn Íslands í heild?

En sérstaklega beini ég hér fsp. til hæstv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar, sem hann hefur lýst sig fúsan til að svara hér við þessa umr., og þær eru eftirfarandi:

1. Hver eru viðbrögð utanrrn. við framkomnum upplýsingum Williams Arkins þess efnis að Bandaríkjaforseti hafi um árabil staðfest heimildir til bandarískra hernaðaryfirvalda um að flytja megi kjarnorkusprengjur til Íslands á ófriðartímum?

2. Telur hæstv. utanrrh. ekki þörf á að endurmeta afstöðu íslenskra stjórnvalda til herstöðvarinnar á Miðnesheiði, nýlegra framkvæmda þar og framkvæmdaáforma, m.a. um nýjar ratsjárstöðvar, í ljósi framkominna upplýsinga?

3. Hver er afstaða utanrrh. til þess að tekin verði af tvímæli um það af Alþingi, t.d. með löggjöf, að ekki komi til greina að hér verði heimilað að staðsetja kjarnorkuvopn hvort sem um er að ræða friðar- eða ófriðartíma?

Ég vænti þess, herra forseti, að ég fái skýr svör við þessum fsp. í ljósi þeirrar stöðu, sem mál þetta er í nú, og ég vænti þess að þessar umr. hér, sem ég taldi óhjákvæmilegt að hefja, verði til þess að á þessum málum verði tekið af Alþingi og íslenskum stjórnvöldum í ljósi þess um hve afdrifaríkt mál er hér að ræða.