06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Til mín hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beint þrem fsp. Fyrsta fsp. var um það hver viðhorf utanrrh. og rn. væru til fram kominna upplýsinga Arkins um það að forseti Bandaríkjanna hefði heimilað flutning á kjarnorkuvopnum til Íslands á ófriðartímum. Eins og hv. þm. gat um í ræðu sinni afhenti Arkin þessi forsrh. og mér ljósrit af fjórum blaðsíðum úr stærra skjali og tjáði skjalið hafa inni að halda það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat um, heimildir forseta Bandaríkjanna varðandi geymslu og notkun kjarnorkuvopna.

Ég tók þá afstöðu strax að rétt væri að fá fram skýringar Bandaríkjastjórnar á tilvist þessa skjals og innihaldi áður en ályktanir eru dregnar af því sem á þessum fjórum blaðsíðum má sjá. Ég tel það allsendis ófullnægjandi umræðugrundvöll að þessar fjórar blaðsíður einar séu forsenda umr. um svo alvarleg mál sem geymsla og notkun kjarnorkuvopna er. Þess vegna tel ég ekki tímabært að fara langt út í efnisatriði málsins og tel að það verði að bíða þess að frekari upplýsinga sé aflað, sem ég hef þegar gert ráðstafanir til að komi sem allra fyrst.

Ég vil ítreka það að ef út úr þessu skjali má lesa að Bandaríkjastjórn eða forseti Bandaríkjanna hafi veitt heimild til flutnings á kjarnorkuvopnum til Íslands án heimildar íslenskra yfirvalda, þá er hér um að ræða brot á varnarsamningnum, þá er hér um að ræða brot á yfirlýsingu leiðtoga Atlantshafsbandalagsins frá 1957, sem hefur gilt um meðferð og geymslu kjarnorkuvopna meðal bandalagsþjóða, og þá er, að því er ég best veit, um að ræða brot gegn bandarískum lögum sem fjalla um vörslu kjarnorkuvopna.

Önnur fsp. var sú, hvort ekki væri þörf á að endurskoða, í ljósi fram kominna upplýsinga, þær framkvæmdir sem unnið er að á Keflavíkurflugvelli eða farið hefur verið fram á að hafnar yrðu af varnarliðinu á Íslandi.

Ég tel enga ástæðu til þess að byggja á framkomnum upplýsingum Arkins að svo stöddu og geymi mér þess vegna að draga ályktanir af því skjali, eins og ég gat um í svari mínu við fyrstu fsp.

Í þriðja lagi var spurt hvort það væri ekki mín skoðun að nauðsynlegt væri að Alþingi gerði með formlegum hætti samþykkt er varðaði geymslu kjarnorkuvopna hér á landi, eða réttara sagt bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna hér á landi.

Mitt svar við þeirri spurningu er að ég tel stefnu íslenskra stjórnvalda og stefnu Íslendinga, hvað snertir geymslu og vörslu kjarnorkuvopna, vera svo skýra og afdráttarlausa að þess gerist í raun ekki þörf. Það er öllum ljóst að Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafa lýst því margsinnis yfir að hér væru ekki geymd kjarnorkuvopn og hér ætti ekki að geyma kjarnorkuvopn. Í þeim efnum er því út af fyrir sig ekki frekari aðgerða þörf. Og undir engum kringumstæðum er ástæða til að rjúka til þess vegna þessara upplýsinga Arkins, sem hv. þm. vitnaði til, því að Bandaríkjamenn — ef þær upplýsingar skyldu vera á einhverjum rökum byggðar — hafa enga afsökun að vita ekki hver stefna og afstaða íslenskra stjórnvalda er.

Ég get rakið það hér, til þess að upplýsa málið frekar, að út af fyrir sig eru upplýsingar Arkins nú ekki nein ný bóla. Arkin þessi kom af stað sögusögnum fyrir fjórum árum um að hér væru geymd kjarnorkuvopn á friðartímum. Það fyrsta sem hann sagði við mig, þegar hann hitti mig að máli í gær, var að hann hefði haft á röngu að standa. Út frá þessum röngu upplýsingum fyrir fjórum árum voru boðaðir og haldnir a.m.k. þrír ef ekki fjórir fundir í utanrmn. þar sem menn sátu klukkutímum saman til að fjalla um þessar röngu upplýsingar. Ég held að þessi reynsla sýni okkur að okkur ber að leita betri upplýsinga og skýringa áður en við hefjum málefnalegar umr. á grundvelli þess sem nú er fram komið.

Forveri minn, Ólafur Jóhannesson heitinn, tók þeim fréttum fyrir fjórum árum alvarlega, alveg eins og ég tek mjög alvarlega við þessum fréttum sem Arkin telur sig flytja nú. Ég held að rétt sé að rifja upp þá yfirlýsingu sem þáverandi utanrrh. Ólafur Jóhannesson gaf 11. ágúst 1980 og byggð var á yfirlýsingu sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi þann sama dag, en sú yfirlýsing var gefin í umboði bandarískra stjórnvalda. Yfirlýsing þáverandi utanrrh. Ólafs Jóhannessonar var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirlýsing sendiherra Bandaríkjanna, sem hann gefur fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar, vísar til tveggja skuldbindinga, sem leiða til þess að bandarísk kjarnavopn verða ekki flutt til Íslands nema fyrir liggi samkomulag Íslands og Bandaríkjanna þar að lútandi, og áréttar að þetta sé í samræmi við stefnu Bandaríkjanna.

Hin fyrri er samþykkt leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsríkjanna frá des. 1957 um staðsetningu kjarnavopna og flugskeyta í Evrópu til mótvægis við vaxandi vígbúnað sovétríkjanna. Þessi samþykkt kveður skýrt á um að slíkum vopnum verði ekki komið fyrir í neinu Evrópuríki nema með fullu samkomulagi þeirra ríkja sem málið snertir beint, þ.e. þess ríkis sem vopnin eru flutt til og þess ríkis sem þau koma frá.

Síðari skuldbindingin felst í 3. gr. varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 5. maí 1951. Skv. henni er það háð samþykki Íslands með hverjum hætti varnarliðið hagnýti þá aðstöðu á Íslandi sem veitt er með varnarsamningnum. Og er þá m.a. átt við fjölda varnarliðsmanna, vopnabúnað og framkvæmdir á varnarsvæðinu.

Af hálfu Bandaríkjamanna hafa ekki verið settar fram óskir um staðsetningu neinna tegunda kjarnavopna á Íslandi og ekki hafa heldur af hálfu neinna annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins eða herstjórna þess verið gerðar athugasemdir við þá stefnu Íslands að hér skuli ekki vera kjarnavopn.

Stefna íslenskra stjórnvalda í þessu efni hefur alla tíð verið skýr og ótvíræð. Hafa ekki færri en fimm íslenskir utanrrh. gefið opinberar yfirlýsingar um þessa stefnu, auk þess sem hún hefur hvað eftir annað verið áréttuð á ráðherrafundum Atlantshafsbandalagsins, t.d. á fundi Atlantshafsráðsins í Brüssel í des. 1979 og nú síðast á fundinum í Ankara í júnílok s.l. Ummæli mín þar voru á þessa leið:

„Ég vil við þetta tækifæri ítreka þær yfirlýsingar, sem fyrirrennarar mínir hafa gefið hér í ráðinu, þess efnis að það er og hefur ætíð verið eitt af grundvallaratriðum íslenskrar varnarmálstefnu að engin kjarnavopn skuli vera í landinu. Og ég er þess fullviss að engin íslensk ríkisstjórn getur samþykkt að falla frá þeirri stefnu.“

Við þessa yfirlýsingu var engin athugasemd gerð. Ég fagna því að Bandaríkjastjórn hefur orðið við þeim tilmælum sem ég setti fram og ræddi síðan við utanrrh. Bandaríkjanna á Ankara-fundinum, að hún staðfesti afstöðu sína í málinu með opinberri yfirlýsingu. Þar með liggja óvefengjanlega fyrir yfirlýsingar beggja aðila.“

Þetta var yfirlýsing þáv, utanrrh. Ólafs Jóhannessonar 11. ágúst 1980. Ég vil bæta við þá yfirlýsingu að á fyrsta fundi Atlantshafsráðsins, sem ég sat í París vorið 1983, tók ég fram og ítrekaði og staðfesti þessa sömu stefnu Íslendinga varðandi kjarnavopn. Það hefur heldur engin athugasemd verið gerð við þennan fyrirvara Íslendinga varðandi kjarnavopn. Þess vegna er full ástæða til að ætla að þessi ákvörðun og stefna okkar sé virt, hvort heldur er á friðar- eða ófriðartímum, þ.e. að það sé á valdi íslenskra stjórnvalda hvort hér séu geymd kjarnavopn eða ekki.

Ég hlýt í þessu sambandi að mótmæla þeim stórhættulega skilningi, sem á sér raunar enga stoð í orðalagi varnarsamningsins eða í framkvæmd hans, að Keflavík sé bandarískt svæði en ekki íslenskt, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat um hér í ræðu sinni, og það kunni að vera skýring þess að Bandaríkin telji sig ekki þurfa að spyrja okkur Íslendinga um leyfi. Þetta er staðhæfing sem nálgast það að flokkast undir landráð í þeim skilningi að réttindi landsins séu dregin í efa. Skv. varnarsamningnum er það einmitt skýrt að Íslendingar ráði yfir öllu sínu landi og þar á meðal varnarsvæðunum. Og það er ekkert sem fram fer á varnarsvæðunum sem á þar að eiga sér stað nema Íslendingar hafi gefið til þess leyfi sitt.

Ég hef lagt á það áherslu sem utanrrh. að Íslendingar fylgdust betur með en þeir hafa gert varðandi áætlanir Atlantshafsbandalagsins til varnar og öryggis Íslandi og til varnar og öryggis öðrum bandalagsþjóðum. Ég hef talið það nauðsynlegt til að Íslendingar sjálfir tækju ákvarðanir um þær framkvæmdir, sem hér á landi eiga sér stað í þágu lands og þjóðar og í þágu allra bandalagsþjóðanna, vegna þess að auðvitað er það, sem er gert til öryggis einu meðlimaríkjanna, þeim öllum til varnar um leið. Þess vegna erum við í varnarbandalagi að við einir megnum ekki að tryggja öryggi landsins. Það er engin minnkun vegna þess að stærri þjóðir en við eru í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna alveg af sömu ástæðu. Það er samstaða frjálsra lýðræðisríkja Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku sem tryggir frið og frelsi í okkar heimshluta og hefur nú gert það í meira en 35 ár.

Ég get nú í raun og veru látið lokið máli mínu. En ég vil taka það fram að ég er fylgjandi því að Alþingi feli nefnd manna að kanna öll þau mál er lúta að öryggi og vörnum Íslands og þátttöku Íslands í afvopnunarmálum. Fordæmi þessa eru mörg, frá þjóðþingum Norðurlanda m.a. Við sjáum það líka á yfirstandandi þingi svo og hinu síðasta að tillögur eru hér fluttar um þessi efni og það er ekkert nema gott um það að segja. En ég hygg að hér sé um svo flókin mál að ræða og íhugunarverð að ástæða sé til að gefa sér tíma t.d. fram að næsta Alþingi til að fjalla ítarlega um allar hliðar þessara mála, bæði stöðu Íslands og afvopnunarmál í heiminum almennt, svo að réttmætt sé að slík nefnd manna starfi og sé ætlaður sá tími til starfa sem ég gat um. Enda gæti slík nefnd notið góðs af slíkum upplýsingum sem fyrir hendi eru í utanrrn. og hjá öryggismálanefnd sem ég hygg að hafi unnið mjög þarft og gott starf.

Ég ítreka svo aðeins að lokum að ég mun ganga ríkt eftir því að fyllstu upplýsinga sé aflað varðandi þau skjöl sem Arkin afhenti mér og forsrh. í gær og í fyrradag. En á meðan málið er ekki upplýst og forsendur málsins ekki betur kunnar tel ég að tíma okkar sé betur varið í annað en að ræða um það sem ekki liggur ljóst fyrir.