06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skil það mætavel að meintar upplýsingar um heimild til þess að staðsetja kjarnorkuvopn hér á landi á ófriðartímum veki menn til alvarlegrar umhugsunar um þetta kjarnorkuvopnakapphlaup í heiminum, og stöðu okkar Íslendinga í því sambandi. Mér finnst eðlilegt að því máli sé hreyft hér á hinu háa Alþingi.

Hv. fyrirspyrjandi hefur lagt fyrir mig tvær spurningar. Í fyrsta lagi spyr hann hvort ég telji rétt að Alþingi taki af skarið og lýsi því yfir að á Íslandi skuli ekki staðsett kjarnorkuvopn án heimildar íslenskra stjórnvalda. Ég tel að slíkt geti vissulega komið til greina. Þó legg ég á það mikla áherslu, sem kom fram mjög glöggt í máli hæstv. utanrrh., að íslensk stjórnvöld hafa lýst þessu yfir ítrekað, aftur og aftur, allt frá því að Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu og íslensk stjórnvöld hafa ríka ástæðu til að álykta að þetta sé móttekið og þessu ekki andmælt á nokkurn máta af Bandaríkjunum eða öðrum meðlimaríkjum Atlantshafsbandalagsins.

Hér hefur verið nefnt það, sem ég gat um í Ríkisútvarpi, að ég nefndi þetta atriði í viðtali við varaforseta Bandaríkjanna. Af hans hálfu kom fram að á þessu hefðu Bandaríkjamenn fullan skilning. Ég tel mikilvægast nú að gengið sé eftir svörum við því skjali sem fram hefur verið lagt til okkar utanrrh. og mín og skýringar á því fengnar og síðan taki ríkisstj. t.d. í samráði við utanrmn. Alþingis afstöðu til þess hvort nauðsynlegt er á einn máta eða annan að ítreka þessa afstöðu íslenskra stjórnvalda.

Hv. þm. spyr einnig hvort utanrrh. einn fari með valdið ef leitað verður heimildar til að staðsetja kjarnorkuvopn hér á landi eða hvort ríkisstj. í heild hljóti að fjalla um það. Tvímælalaust hlyti ríkisstj. í heild að fjalla um slíkt. Það væri vægast sagt mjög róttæk breyting á yfirlýstri stefnu Íslands í þessum málum og stefnu allra stjórnmálaflokka og hlyti að koma til kasta þeirra flokka sem stæðu að ríkisstj. þegar og reyndar ef slík tilmæli kæmu. Ég tel því engum tvímælum undirorpið að ríkisstj. öll hlyti að fjalla um slíkt.

Hv. þm. varpaði fram spurningu um annað, sem ég veit ekki hvort beint var til mín eða hæstv. utanrrh., m.a. um hugmyndir um nýjar ratsjárstöðvar sem ég hygg að ekki hafi verið svarað í ræðu hæstv. utanrrh. Ég vil þess vegna geta þess að ég notaði tímann og spurði þennan ameríska sérfræðing um álit hans á slíkum hlutum. Hann orðaði það svo að þessar hugmyndir um ratsjárstöðvar teldi hann mikið smámál og gæti ekki séð að þær stofnuðu til aukinnar hættu fyrir Íslendinga. Hann gat þess að þetta væru litlar stöðvar og ekki af þeirri gerð sem sér yfir sjóndeildarhringinn t.d. Hér væri fyrst og fremst um viðleitni ameríska flotans að ræða til að spara í rekstri mjög kostnaðarsamra flugvéla, svo kallaðra AWACS-flugvéla sem halda yrði á lofti stöðugt og flotanum hefði ekki tekist að fá heimild til að fjölga í sinni þjónustu. Þær væru bæði mjög kostnaðarsamar og dýrar í rekstri. Hann nefndi að hann teldi nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að fullvissa okkur um það að við gætum haft þau afnot af svona ratsjárstöðvum sem um væri talað, þær væru ekki eingöngu í hernaðarskyni. Mér þykir rétt að þetta komi fram af því að þetta bar á góma á þeim fundi sem ég átti með umræddum sérfræðingi.

Ég vil svo leggja á það áherslu að brugðið var strax við þegar þessar upplýsingar komu fram á þann máta sem ég tel rétt. Utanrrh. hæstv. kvaddi á sinn fund þann mann sem gegnir störfum ameríska sendiherrans hér í fjarveru hans, og hefur krafið hann um skýringar á þessum skjölum.

Það kom fram hjá hæstv. utanrrh. að hér er um fylgiskjöl að ræða við augsýnilega miklu stærra skjal. Þó að ég hafi enga ástæðu til að vefengja þetta skjal er að sjálfsögðu ekki hægt að staðfesta það á nokkurn máta fyrr en á því hafa fengist haldgóðar skýringar frá amerískum stjórnvöldum og þessu ber að hraða. Þegar þær liggja fyrir mun ríkisstj. taka afstöðu til málsins að nýju og þá mun um það verða haft samráð utanrmn.