06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er kannske eðlilegra að aðrir en ég fari að leggja mat á þau ummæli sem féllu hjá hæstv. utanrrh. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega svör hans, en mun gera það síðar við umr.

Ég tel rétt að fram komi hér þau orð sem ég viðhafði og leyfi mér að endurtaka þau vegna þess sem fram kom. Þau voru þannig, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi er einnig vert að hafa í huga þá túlkun á ákvæðum varnarsamningsins frá 1951 að Keflavíkurflugvöllur sé nánast bandarískt yfirráðasvæði en ekki íslenskt. Er hugsanlegt að bandarísk stjórnvöld líti svo á rétt sinn og yfirráð á þessu svæði að þeir þurfi af þeim sökum ekki að leita heimildar íslenskra stjórnvalda vegna áætlana um að flytja kjarnorkusprengjur inn á vallarsvæðið á ófriðartímum og komist þar af með minna en t.d. gagnvart Bermuda og breskum stjórnvöldum?“

(Gripið fram í: Hvaðan er sú túlkun komin sem ræðumaður vitnar til?) Þessi túlkun hefur oft heyrst í sambandi við umr. um þessi mál. (Gripið fram í: Frá hverjum?) Ég er ekki að staðhæfa frá hverjum hún er komin né heldur er ég hér með tilvitnanir, en hún er þekkt og hv. alþm. þekkja hana væntanlega frá umr. um þessi efni.