06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mér hefur oft dottið í hug á undanförnum misserum þegar fjallað er um varnarmál, NATO og þess háttar, að viðbrögð íslenskra stjórnvalda eru um margt lík því þegar börn spyrja foreldra sína fyrstu spurninganna um kynlíf. Það sem heyrist gjarnan er: Þetta er nú svo flókið, væna mín, hafðu engar áhyggjur af þessu, þetta kemur í ljós, við skulum nú ekki flana að neinu. Ég minnist þess að þegar ég var ungur fann ég í kofforti heima hjá mér bók sem hét „Hverju á ég að svara barninu mínu?“ og fjallaði um þau mál.

Ég held að það sé kominn tími til þess að íslensk stjórnvöld komi sér upp bók um varnarmál og hermál sem gæti heitið „Hverju á ég að svara þjóðinni minni?“ eða „Hverju á ég að svara þinginu mínu?“ Ég held að þessi þögn verði að fara að rofna. Ég held að við verðum að fara að gera það ljóst að það sé til einhver kunnátta, að það sé til einhver stefna, íslensk stefna í varnar- og öryggismálum.

Það er afar lærdómsríkt að líta á viðbrögð stjórnvalda núna við upplýsingum Williams Arkins. Það eru í raun sáralitlar upplýsingar lagðar fram af hálfu stjórnvalda. Það eru ítrekaðar yfirlýsingar íslenskra forráðamanna á undanförnum árum um hvernig Íslendingar vilji hafa þessi mál en menn hafa í raun afar fátt til málanna að leggja. Hæstv. ráðh. og reyndar málgagn hans og ýmsir tengdir virðast jafnvel í öðru orðinu leggja á það mesta áherslu að gera lítið úr þessu máli. Það er talað um mann að nafni William Arkin og sagt þessi William Arkin, William Arkin þessi. Maður á helst von á því að næst komi yfirlýsing frá utanrrn. um að þetta sé kannske bara bróðir skopleikarans Allans Arkin og það sé kannske látið fylgja að þessi Allan Arkin hafi leikið í myndinni „Rússarnir koma“ og þessi familía sé ekki til að treysta á í hernaðarmálum.

Þegar rn. svarar engu um svona mál þá verða menn náttúrlega að spyrja sig: Hvers vegna koma ekki upplýsingar frá íslenskum stjórnvöldum um varnar- og öryggismál? Er það vegna þess að stjórnvöld vilja ekki eða er það vegna þess að stjórnvöld vita ekki? Ef við athugum fyrri möguleikann, að stjórnvöld vilji ekki ræða varnar- og öryggismál, þá er illt að trúa því, en hins vegar er því ekki að neita að það er raunar stefna ríkisstjórna á Vesturlöndum mjög víða. Það er haft við orð að varnar- og öryggismál séu of flókin fyrir fólk að skilja þau. Það er talað um að þetta séu hernaðarleyndarmál og þess vegna sé eðlilega ekki hægt að ræða þau af því að Rússarnir mega ekkert vita. Það eru líka höfð á orði þriðju rökin, að fólk geti orðið hrætt ef því er sagt frá því sem geti gerst í styrjöldum. Engin þessi rök eru gild vegna þess að ef við tökum þau fyrstu, að málin séu flókin, þá er það bara þannig að lífið er flókið. Varnar- og öryggismál eru ekkert flóknari en efnahags- og atvinnumál og yfirleitt allur þessi vefnaður eins samfélags sem við gerum þó kröfur til að fólk skilji og m.a.s. kjósi um á fjögurra ára fresti. Fólk getur og vill skilja þessa hluti. Það er reyndar hluti af upplýsingaskyldu stjórnvalda að halda þegnum sínum þannig upplýstum í þessum málum að þeir geti gert sér grein fyrir valkostum og geti metið aðgerðir stjórnvalda í varnar- og öryggismálum eins og öllum öðrum málum.

Raunar er varla við því að búast að þessi ríkisstj. gegni upplýsingaskyldu sinni vandlega á þessu sviði. Við höfum séð hvernig hún metur þetta hlutverk á því að gefinn var út í fyrrahaust fjórblöðungur sem rúmaði alla efnahagsstefnu ríkisstj. eins og hún taldi að þyrfti að birta hana almenningi og meiri hlutinn á þessum fjórblöðungi var skrípamyndir. Þessi rök um að varnar- og öryggismál séu flókin og vandmeðfarin eru rétt að því leyti að þetta eru erfið mál. Þetta er ekkert erfiðara og ekkert flóknara, hvorki fyrir þm. né almenning, en önnur mál sem menn verða að fjalla um í þessu samfélagi okkar.

Síðan koma þau rök að þarna séu hernaðarleyndarmál og um þau megi helst ekki ræða.

Ég held að það sé engin hætta á því að íslenska þjóðin yrði svo upplýst um varnar- og öryggismál, þó opnaðar væru hirslur, að hún mundi vita meira en Rússarnir vita þegar um þessi mál. Ég held að njósnakerfi stórveldanna hljóti að sjá sínum mönnum fyrir því sem þeir þurfa að vita. Ég held að það sé engin hætta á því að við færum fram úr Rússunum þó að við fréttum svolítið af því hvað er að gerast á Norður-Atlantshafi, hvaða stefnu þessi mál eru að taka, í hvaða skipulagi Ísland er varðandi hernaðarmál umheimsins. Öll stjórnkerfi hafa tilhneigingu til að pukrast, að fara með leynd með mál sem þau telja að varði sig meira en fólkið. Gegn þessari pukurtilhneigingu ber okkur skylda til að berjast. Erlendis hafa ýmis samtök fólks tekið upp baráttu gegn leyndinni. Fjölmiðlar hafa gegnt mjög öflugu hlutverki í þessu sama skyni, háð öfluga baráttu til að öðlast vitneskju um þessi mál. Við verðum að taka upp slíka baráttu sömuleiðis.

Í þriðja lagi er sagt að þögnin og fáfræðin séu nauðsynlegar vegna þess að fólk yrði hrætt fengi það að vita meira. Þá er því til að svara að ekkert vekur fólki meiri hræðslu en fáfræði. Íslendingar hafa aldrei verið fælnari og hræddari við tröll og alls kyns ókynjur en þegar þeir voru sem fáfróðastir. Það er með upplýsingunni og vitneskjunni sem við getum útrýmt hræðslunni.

Þetta eru sem sagt þrenns konar rök, þ.e. að málin séu allt of flókin, að þau séu allt of mikið leyndarmál og fólk verði allt of hrætt ef það ræðir þessi mál. Ég hafna þessum rökum öllum.

Ég veit raunar ekki hvort hér ríkir svona mikil þögn um þessi mál vegna þess að íslenska ríkisstjórnin vilji ekki eða að hún viti ekki. Það hvarflar stundum að manni sá ótti að á þessu landi séu menn í raun mjög fákunnugir um hernaðar- og öryggismál. Það virðist vera að allt traust í þessum málum sé sett á NATO og Bandaríkin. Það eru algeng viðbrögð fólks að segja: Varnarmálin koma okkur ekki við. NATO sér um þetta. Menn ræða um þessi mál þangað til þeir koma að, — eigum við að segja — girðingunni á Miðnesheiði og segja: Hingað og ekki lengra. Mér kemur ekkert við hvað þeir eru að gera þarna fyrir innan. — Málið er að okkur kemur þetta við. Ég kann ekki að leggja mat á hvort þessi þögn er vegna þess að við ekki vitum eða stjórnvöld vita ekki eða vilja ekki, en það er hvort tveggja jafnslæmt.

Ef við athugum hvernig þessi þögn hefur birst okkur á undanförnum misserum í utanríkismálum, þá hefur þetta gerst þannig að hingað hefur rekið á fjörur ýmis einstök og einangruð mál. Menn hafa fjallað um AWACS-ratsjárvélar og sagt: Þetta eru bara stækkaðir sjónaukar til þess að horfa norður og þetta er í varnarskyni Menn hafa fjallað einangrað um olíutanka og sagt: Þetta er eldsneyti handa flugvélum og handa þessum könnunarflugvélum og svo er þetta eldsneyti handa orrustuflugvélunum sem fara og hitta rússnesku flugvélarnar þegar könnunarflugvélarnar eru búnar að finna þær. Þær þurfa eldsneyti og við þurfum stærri tanka af því að það eru alltaf að koma fleiri sovéskar flugvélar. Hins vegar höfum við ekki fengið svar við spurningunni: Hvað eru þessar sovésku flugvélar að gera? sumir segja að þær séu að koma til þess að vita hvort hinar flugvélarnar komi á móti þeim, en við höfum ekki fengið neina hernaðarlega skýringu á því í hvaða leik þeir séu, þessir herramenn.

Það hefur líka verið fjallað um neðanjarðarstjórnstöð og aftur erum við að tala um að efla varnir landsins. Við getum talið upp miklu fleiri dæmi sem hafa verið tekin ein og sér. Við virðumst kyngja þessum bitum einum og einum án þess að athuga hver aðalrétturinn er. Við lítum á trén eitt og eitt, en virðumst ekki huga að hvernig skógurinn lítur út.

Spurningin er, ekki bara af því að William Arkin kom frá útlöndum í vikunni, heldur vegna ýmissa annarra ástæðna: Hver er heildarstefna í varnar- og hernaðarmálum á Norður-Atlantshafi? Og við verðum líka að spyrja nánar út í hina einstöku þætti. Við verðum að spyrja: Hvað gera AWACS-vélarnar? Eru þær bara til þess að horfa þarna norður í sortann eða eru þær líka árásartól? Sumir segja að þær séu miklu frekar árásartól en nokkurn tíma varnartól. Og hvað með olíutankana? Hvað með neðanjarðarstjórnstöðina? Af hverju þarf að byggja neðanjarðarstjórnstöð þannig að hún standist sjö daga gereyðingarstríð? Hverjir eiga að ganga út úr þeirri stjórnstöð eftir sjö daga gereyðingarstríð og til hvers þurfa þeir að komast af? Og hvaða starfsemi er svo mikilvæg að það þurfi að verja hana á þennan hátt?

Það er með því að spyrja þessara spurninga og fá undanbragðalaus svör við þeim sem við verðum að reyna að mynda okkur skoðun á því hvort Ísland hafi breyst úr sjónauka í stálhnefa, eins og ýmsir vilja halda fram.

S.l. mánudag óskaði ég þess á fundi utanrmn. að utanrrn. tæki saman skýrslu um flugstöðina. Ég tilgreindi að ég teldi að þessi skýrsla ætti að innihalda upplýsingar um núverandi starfsemi stöðvarinnar, þ.e. hvað fer þar fram nákvæmlega, og sömuleiðis hvert hlutverk stöðvarinnar væri í áætlunum Bandaríkjanna og NATO um varnar- og hernaðarstörf á norður-Atlantshafi nú, hvaða hugmyndir væru uppi um þróun hernaðar- og varnarmála á Norður-Atlantshafi og annað sem gæti varpað ljósi á þýðingu þessarar stöðvar í herbúnaði NATO og Bandaríkjanna. Tilefni mitt á mánudaginn var skýrsla sem kom um ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi — enn einn litli bitinn og enn eitt tréð sem við höfum fengið um þessi mál án þess að skoða heildarmyndina. Í þessari skýrslu — hún var út af fyrir sig nokkuð dæmigerð — komu fram ýmis atriði sem voru dæmigerð fyrir það sem ég lýsti hérna á undan. Það var lýst þarna ýmsum almennum atriðum, hugsanlegum notum sem Íslendingar gætu haft af þessum ratsjárstöðvum í sínum innanlandsmálum, en hernaðarþættinum, sem þó er aðalatriðið, voru sáralítil skil gerð. Það er talað um að aukist hafi eða tvöfaldast fjöldi rússneskra flugvéla sem kæmu sunnan úr sortanum eða norðan úr sortanum og talað var um að það væri geil í ratsjárkerfinu núverandi. Síðan fylgir ekkert mat á því hvers vegna endilega og hvers vegna nákvæmlega þurfi þessar endurbætur sem menn ráðgera á þessu sama radarkerfi. Þetta minnir mig á skuggamynd sem ég sá einu sinni í herstöðinni. Ég var í hópi nemenda sem var þarna í kynnisferð og við vorum dregin inn í bragga og okkur gefinn bjór. Voru okkur sýndar skuggamyndir um þýðingu varnarliðsins og mér er minnisstæðust mynd sem sýndi Norður-Atlantshafið og svera keðju yfir Norður-Atlantshafið og Ísland. Okkur var sagt: Þetta er keðjan sem ver Ísland og ríkin í NATO. Svo kom næsta mynd, og þá var sýndur stór hvellur og keðjan slitnaði beint yfir Íslandi og það var sagt: Þetta gerist ef Ísland fer úr NATO. Engar útskýringar, en hins vegar var greinilegt hvaða tilfinningu menn áttu að hafa af því að horfa á þetta. Tilefni mitt til að biðja um þessa skýrslu var umr. um ratsjárstöðvar. En tilefni voru einnig fleiri, eins og þau að í blöðum sem liggja hér á borðum eins og Guardian og Politiken getum við lesið greinar eftir almenna dálkahöfunda í útlöndum sem virðast fjalla af miklu meiri þekkingu um varnarmál en nokkur aðili í íslenska stjórnkerfinu. Maður spyr sig hvort sú þögn og hvort sú vankunnátta sé ekki yfirgengileg.

Síðan vill svo til að síðar í þessari viku kemur eitt tilefni enn til að fara fram á svona úttekt og svona skýrslu. Hingað kemur fræðimaður sem Morgunblaðið taldi trúverðugan í þessum efnum í Reykjavíkurbréfi s.l. sunnudag. Hann flutti upplýsingar um að stjórn Bandaríkjanna og forseti hafi veitt flotanum heimild til að flytja hingað kjarnorkuvopn á stríðstímum og það sé ekkert tiltekið um að leyfi Íslendinga þurfi til. Þetta er, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, brot á öllum samningum um þessi mál.

Þetta leiðir aftur hugann til þess að við skulum ekki standa betur að vígi sjálf í þessum efnum, að geta af trausti og trú borið svona sögusagnir til baka, ef þær eru rangar. Menn spyrja sig: Er það ekki æskilegt, ef til væru á Íslandi þær upplýsingar um þessi mál, að Íslendingar gætu haft það sjálfstraust að játa eða neita í þessum efnum en þurfa ekki að fara hálfpartinn undan í flæmingi? Það er spurning hvort ekki sé ástæða til að við fylgjumst betur með vopnabúnaði sem þarna er, svo við lendum ekki í því að Arkin þessi — svo notuð séu orð hæstv. ráðh. — komi einu sinni enn og setji ráðh. eða rn. út af laginu. Það er spurning, eftir svona uppákomu hvort ekki sé ástæða til að styrkja íslenska sjálfstæða rannsókn og upplýsingasöfnun um utanríkismál og hvort ekki sé ástæða til að Alþingi taki upp umr. um varnarmál og endurmeti stöðu þeirra og marki þeim einhverja stefnu. Þegar til kemur virðist Alþingi hafa afskaplega lítið um utanríkismál að gera. Það virðist í besta falli hafa umsagnarrétt um það sem ráðh. og rn. fjalla um. Það kemur örugglega einhver Arkin eftir þennan Arkin. Við verðum að læra á þessu að láta ekki grípa okkur í bólunum og láta taka okkur á taugum út af einhverjum plöggum sem kunna að finnast einhvers staðar. Við eigum að hafa eigin vitneskju um þetta og hafa það sjálfstraust til að taka svona málum að við þurfum ekki að stofna til stórræða.

Út um allan heim eru þing og þjóðir að velta þessum málum mikið fyrir sér. Ég held það sé ekki að ósekju. skv. nokkuð nýlegum upplýsingum sem ég hef fengið eru til núna 50 þús. kjarnorkusprengjur í heiminum og hver og ein þeirra er jafnvel upp í það að vera þúsund sinnum sterkari en sprengjan sem sprengd var í Hiroshima. Og sprengjumagnið sem til er í kjarnorkusprengjum í heiminum jafngildir 13 þús. millj. tonnum af TNT. Það jafngildir nokkurn veginn því að til séu um 3 tonn af dýnamiti fyrir hvert einasta mannsbarn á þessari jörð. Þetta er nokkuð hart þegar líklega fjórðungur, jafnvel helmingur þessara sömu mannabarna þjáist af hungri. Þrisvar sinnum á minna en ári hafa flugvélar með kjarnorkuvopn verið búnar til árásarflugs, áhafnir verið komnar af stað vegna mistaka í búnaði. Og fjármunir til hernaðarmála á árinu 1982 námu 650 þús. millj. dollara. Ég held það sé komið að okkur að fara að velta þessu fyrir okkur, afla okkur upplýsinga og upplýsa okkar þjóð um öll þessi mál, um þessar sprengjur. Við verðum að vita um þessar sprengjur vegna þess að við gætum lent í því einhvern tíma að verða fórnarlömb þeirra. Ég held að öðru hverju, alla vega á Alþingi, sé tímanum ekki betur varið.