06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

Umræður utan dagskrár

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með þá hugmynd — eða eigum við að kalla það till.utanrrh. að skipuð verði nefnd til að fjalla um öll afvopnunarmál og öryggismál sem snerta Ísland. Það er ákaflega mikilvægt að í þessum málum náist víðtæk samstaða milli flokka og ég held að þessi hugmynd utanrrh. komi á mjög réttum tíma. Ég endurtek að ég fagna henni og af máli þeirra, sem hér hafa talað, sýnist mér að allir flokkar séu í rauninni sammála um að meginatriði þessa máls sé að afla nánari o betri upplýsinga og marka skýrar en verið hefur stöðu Íslands í hernaðarkerfum, öryggiskerfi þess og afstöðu þess til afvopnunarmála og friðarmála í heiminum.

En það mál, sem hér er til umr. og er tilefni þessara umr., er í sjálfu sér hafið yfir allar flokkadeilur. Það er svo mikilvægt að það getur í sjálfu sér aldrei orðið að flokkspólitísku deilumáli. Hver og einn einasti Íslendingur hlýtur að sameinast og vera með einum hug þegar um grundvallaratriði þess er að ræða. Þetta mál snýst ekki fyrst og fremst um það hvort William Arkin hafi rétt fyrir sér eða ekki. Það er ekkert aðalatriði hvort honum skjátlast nú eins og 1980 eða ekki. Hafi hann í höndum skjöl, sem sýna að forseti Bandaríkjanna hafi fyrirskipað að kjarnorkuvopn skuli flutt til Íslands á stríðstímum, þá er um að ræða mjög alvarlegt mál. Trúnaður hefur verið rofinn, samningar gerðir að engu. Þar við bætist að mat á ófriðartímum hefur verið harla mismunandi og það væri á valdi Bandaríkjamanna einna að ákveða hvenær aðstæður væru þær að þeir teldu nauðsynlegt að flytja kjarnorkudjúpsprengjur til Íslands. Hafi Arkin rangt fyrir sér, þá er það einungis af hinu góða. Það væri okkur léttir að frétta að engar fyrirskipanir hefðu verið gefnar um að flytja kjarnorkuvopn til Íslands, hvorki á tímum friðar né ófriðar.

En þótt Arkin hefði skjátlast, þá er samt sem áður ósvarað þeim þýðingarmiklu spurningum sem raunverulega skipta öllu máli um framtíðarstefnu Íslendinga og örlög íslenskrar þjóðar geta verið komin undir að svarað sé af hellindum og þekkingu. Þær spurningar, sem þessa dagana brenna á vörum Íslendinga, eru þessar: Hvaða áætlanir eru uppi um Ísland í hernaðar- og varnaráætlunum Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins? Hvaða hlutverki gegnir herstöðin á Íslandi á friðartímum annars vegar og hvaða hlutverki er henni ætlað á ófriðartímum hins vegar? Og þriðja spurningin og kannske ekki hin veigaminnsta er þessi: Er í raun til öryggisstefna Íslands? Er það reyndar svo að við höfum sett niður og mótað ákveðna stefnu í þeim málum, hvernig frelsi og sjálfstæði og öryggi þessarar þjóðar skuli háttað?

Þetta eru þær spurningar sem svara verður áður en hægt er að taka afstöðu til margra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á Keflavíkurflugvelli, í grennd við hann og annars staðar á landinu. Afstaða Framsfl. í varnar- og öryggismálum var þannig orðuð í samþykktum 18. flokksþingsins í nóv. 1982, með leyfi hæstv. forseta:

„Íslendingar noti hvert tækifæri sem gefst til að vara við auknum kjarnorkuvopnabúnaði og vaxandi hernaðarumsvifum á Norður-Atlantshafi.“ Og á öðrum stað segir: „Framsfl. vill taka þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða en vill jafnframt að erlendur her hverfi héðan jafnskjótt og aðstæður leyfa. Það er stefna Framsfl. að staðið skuli við skuldbindingar Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu þannig að það þjóni fyrst og fremst öryggishagsmunum íslensku þjóðarinnar. Unnið verði að því að skilja enn frekar á milli herliðs og þjóðar en nú er og umsvif varnarliðsins gerð sem minnst.“

Á grundvelli þessarar samþykktar hljóta framsóknarmenn að meta mjög gaumgæfilega allar breytingar á skipan varnarmála og aukningu umsvifa bandaríska varnarliðsins, bæði í Keflavík og annars staðar á landinu. Við hljótum að kanna hvað er að gerast og hvert er eðli þeirra breytinga og aukningar sem nú er í undirbúningi. Ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi, stóraukið olíubirgðarými í Helguvík, neðanjarðarstjórnstöð, varnir gegn efnavopnum, nýr flugvélakostur — hvað þýðir þetta allt í heild?

Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. sagði áðan og hafði eftir Arkin. Hann ræddi það einnig á fundi með okkur þm.: Radarstöðvarnar sem slíkar eru smámál. Hvert af þessum málum út af fyrir sig er ekki neitt stórmál. En þegar það safnast saman hlýtur maður að spyrja: Er eðli varnarstöðvarinnar í Keflavík á einhvern hátt að breytast? Er staða Íslands á einhvern hátt að breytast? Er því ætlað annað hlutverk nú en fyrir 10 árum, fyrir 20 árum eða 30 árum? Þessum spurningum verður að svara. Það er nauðsynlegt að svara þeim til að geta metið framtíð Íslands, til að geta metið hvaða möguleika við höfum, bæði á friðartímum og ófriðartímum. Það er nauðsynlegt að Íslendingar geri sér ljóst hvernig öryggi þeirra verður best tryggt og endurmeti stöðu sína í ljósi hugsanlegra breytinga á hernaðarstefnu stórveldanna og nágrannaríkjanna.

Ég held að ég láti þetta nægja. Það, hvort gefin hefur verið út skipun um kjarnorkuvopn eða ekki í Keflavík, er alvarlegt mál og ég tel að hæstv. utanrrh. hafi tekið þar mjög fast á málum og mjög rétt. En þegar það mál er upplýst hljótum við að meta stöðu okkar í ljósi þeirrar niðurstöðu. Þangað til er málið það alvarlegt að við hljótum að bíða átekta og sjá hverju fram vindur.

Það er þess vegna till. mín að farið verði mjög náið ofan í þessi mál og ég veit að það verður gert. Við fáum skýr svör og metum stöðu Íslands í ljósi þeirrar niðurstöðu sem væntanleg öryggisnefnd þingsins, sem ég vona innilega að komist á laggirnar, kemst að í rannsóknum sínum.