06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

Umræður utan dagskrár

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Ég les sjaldan Þjóðviljann og ég get ekki blandað mér í þá umr. sem hv. 5. landsk. þm. hóf áðan. Ég tel hins vegar að það sé ekkert undrunarefni að þjóð sem felur annarri þjóð að fara með fjöregg sitt fái stundum af því undarlegar fregnir.

Hornsteinar frjáls ríkis eru margir. Sjálfstæði og ábyrgð í öryggis- og varnarmálum er vafalaust einn sá mikilvægasti. Þennan hornstein vantar íslenska lýðveldið. Hann er í Washington. Mest svíður undan því að Íslendingar skuli hafa afsalað sér þessum mikilvæga þætti utanríkismála, að því er virðist í sparnaðarskyni.

Afleiðingar þeirrar grunnhyggni eru án efa margar. Kontór í Washington með útibú á Keflavíkurflugvelli ráðskast með fjöregg íslensku þjóðarinnar. Íslensk stjórnvöld skortir aðstöðu til að fá yfirsýn og möguleika til að meta öryggismál þjóðarinnar í því heildarsamhengi sem nauðsynlegt er. Íslensk stjórnvöld eru háð bandarískum um upplýsingar og ekki grunlaust að upplýsingarnar, þegar þær fást, taki frekar mið af bandarískum hagsmunum en íslenskum. Aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu er að mestu fyrir milligöngu Bandaríkjamanna, a.m.k. hvað snertir hernað og varnir.

Herra forseti. Það fyrirkomulag sem er á öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar er með öllu óviðunandi. Vilji Íslendingar á annað borð gera samninga við önnur ríki um hervarnir og öryggi á að vera um skilgreinda þjónustu að ræða, eins konar verktakastarfsemi. Sá sem kaupir þjónustuna á að hafa allt um það að segja hvernig hún er. Það verður ekki á það fallist að Bandaríkjamenn eða yfirleitt nokkur þjóð sé að blanda Íslendingum og Íslandi inn í stríðsleiki sína, a.m.k. ekki að þeim forspurðum. Vilji Bandaríkjamenn reka hérlendis einhver erindi vegna eigin hagsmuna er verðugt og rétt að þeir sæki um það til íslenskra stjórnvalda, ríkisstj. og Alþingis í hverju tilviki.

Herra forseti. Að mínu mati er langmikilvægasta atriðið að Íslendingar sjálfir taki frumkvæðið í varnar- og öryggismálum sínum og að ekkert verði aðhafst og engin stefna mörkuð án þess að til komi frumkvæði og samþykki Íslendinga sjálfra. Þá fyrst verður hægt að ábyrgjast að dauðinn sé ekki geymdur í hattaöskjum hérlendis. Herra forseti. Það sem er langhryggilegast við þær umr. sem hér fara fram er sú staðreynd að á hinu háa Alþingi, þessari öldnu og virðulegu stofnun, skuli yfir höfuð gefast tilefni til þess að ræða möguleikana á því að einhverjir útlendingar séu með eða hugsi sér að vera með dauðasprengjur á íslenskri grund.