06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þau svör sem hæstv. ráðherrar veittu við mínum fsp. þó að í því felist ekki það mat að þau hafi verið fullnægjandi eða með þeim hætti sem ég hefði talið eðlileg við þessar aðstæður, a.m.k. á það ekki við um alla þætti. Ég tel að í þessari umr. hafi margt gagnlegt komið fram af hálfu þeirra sem í henni hafa tekið þátt, en ég mun tímans vegna aðeins koma að örfáum atriðum.

Ég lýsti í máli mínu upphaflega yfir ánægju með þau ákveðnu viðbrögð sem komið höfðu fram hjá hæstv. utanrrh. vegna þeirra upplýsinga sem hann hefði fengið í hendur, og hann ítrekaði í sínu svari þá skoðun sína að væru þessar upplýsingar réttar væri þarna um þrefalt brot að ræða á samningum og yfirlýsingum Íslendinga. Hann bætti þar við það sem áður hafði fram komið um brot á varnarsamningi og brot gegn yfirlýsingu NATO frá 1957 að hér væri þá einnig um brot að ræða gegn amerískum lögum. Það fer því ekki milli mála að hæstv. utanrrh. lítur þessar upplýsingar og það sem fram hefur komið mjög alvarlegum augum og ég skil vel að hann sé uggandi þeirra vegna og einnig sár ef svo væri að þessar upplýsingar yrðu staðfestar sem réttar við nánari skoðun máls. Fáir hafa stutt jafndyggilega við þá stefnu í samskiptamálum við Bandaríkin á undanförnum 15 árum og sennilega lengur en hæstv. núv. utanrrh. og það hlýtur auðvitað að vera honum sérstakt og mikið áfall ef þannig er unnið á bak við hann í stórmáli sem þessu, eins og fram komnar upplýsingar eru vísbending um.

Hæstv. ráðh. er á þessu stigi ekki reiðubúinn til þess að tjá sig um hvort ástæða sé til að endurmeta samskiptin við Bandaríkin í sambandi við herstöðina hér og svokallað varnarsamstarf, og út af fyrir sig skil ég að hann vilji fá nánari vitneskju um atriði sem tengjast þeim upplýsingum sem hann hefur fengið í hendur. En það hefur komið fram í máli ýmissa annarra ræðumanna að það sé rík ástæða til að fara ofan í þessi mál og það ekki eingöngu í því formi að svara sé leitað og skýringa frá bandarískum stjórnvöldum, heldur með sjálfstæðri athugun af hálfu Íslendinga sjálfra. Ég tek undir þau ummæli sem fallið hafa þar að lútandi, m.a. frá hv. 11. þm. Reykv., frá hv. 3. þm. Reykn. og ekki síst frá hv. 9. þm. Reykv. sem mælti hér að mínu mati mjög athyglisverð og gild aðvörunarorð í sambandi við öryggismál landsins. Í þessum hópi var raunar einnig hv. 4. landsk. þm. sem gerði þessi atriði að sérstöku umtalsefni.

Ég spurði hæstv. ráðh. um afstöðu þeirra til þess að Alþingi tæki af öll tvímæli í sambandi við staðsetningu kjarnorkuvopna á íslenskri grund eða flutning á þeim til landsins á friðartímum sem ófriðartímum að einhverra mati. Hæstv. forsrh. tók jákvætt undir þetta efni, taldi að það kæmi mjög til greina að Alþingi tæki þannig af tvímæli, en eins og ég skildi hæstv. utanrrh. tók hann ekki af skarið um þetta og taldi, ef ég hef skilið hann rétt, að afstaða og viðhorf Íslendinga að þessu leyti ættu að liggja nægilega skýr fyrir, þannig að bandarísk yfirvöld ættu ekki að velkjast í neinum vafa um afstöðu Íslendinga. Ég ítreka það hér sem mitt sjónarmið að ekki megi dragast og ekki eigi að dragast að Alþingi marki þarna skýra og ótvíræða afstöðu.

Hæstv. forsrh. lýsti þeirri skoðun sinni að heimild til að flytja kjarnorkuvopn til Íslands væri ekki mál eins ráðh., væri ekki málefni utanrrh. eins. Ef eftir væri leitað væri það málefni allrar ríkisstj. Þetta er að mínu mati eðlilegur skilningur, en að auki bæti ég því við að slíkt mál hlyti að leggjast fyrir Alþingi og leitað væri eftir afstöðu Alþingis í því efni. Væntanlega verður þess ekki langt að bíða að Alþingi taki formlega af skarið um viðhorf sem ég trúi ekki öðru en eigi einróma stuðning í sölum Alþingis þegar á reynir.

Ég heyrði það á máli hv. 3. þm. Reykn., Kjartans Jóhannssonar, að hann teldi að ég hefði verið með staðhæfingar varðandi þær upplýsingar sem fram hafa komið og fylgt síðan á eftir með stóryrðum. Ég undrast að hv. þm. skuli ekki hafa lagt betur við hlustir þegar ég flutti mitt mál. Ég lagði að sjálfsögðu ekkert mat á réttmæti eða sannleiksgildi framkominna upplýsinga og ég byggði heldur engin stóryrði á þeim efnum, en ég hvatti mjög eindregið til þess að menn stöldruðu við og athuguðu sinn gang í sambandi við þessar upplýsingar og drægju af því ályktanir, ef þær yrðu staðfestar, og lagði á það ríka áherslu að ofan í saumana yrði farið í þessum efnum.

Það vill verða svo að umræðan um öryggismál hér á Alþingi vill fara út á brautir sem mér finnast ekki vera farsælar. Ræða hv. þm. Eiðs Guðnasonar, hv. 5. landsk. þm., var dæmigerð um hvernig menn á stundum hrökkva í baklás og hlaupa upp með nánast óskiljanlegum hætti. Mér finnst óskiljanlegt að mál af þessu tagi, og það mál sem ættu að vera hafin yfir flokkadrætti, eins og spurningin um hvort komi til greina að staðsetja kjarnorkuvopn á Íslandi, þurfi að verða til þess að menn fari að kyrja hér söng, sem ég hélt að heyrði fortíðinni til, með Rússagrýlu og áburð á þingflokk Alþb. um að ganga erinda annars risaveldisins. Ég harma málflutning af þessu tagi og ég hvet hv. þm. til að lesa sér betur til, bæði í Þjóðviljanum, ræðum, ritum og samþykktum Alþb. um þessi efni þannig að hann velkist ekkert í vafa.

Ég hefði ástæðu til að gera þær staðhæfingar hæstv. utanrrh. að umtalsefni að ábending mín í sambandi við réttarstöðu Keflavíkurflugvallar og svokallaðra varnarsvæða jaðraði við landráð. Ég undrast að heyra slíkan málflutning af vörum hæstv. utanrrh., byggt á þeim ummælum sem frá mér komu um þetta efni og ég endurtók hér áðan í umr. um þingsköp. Ég met það svo að hæstv. ráðh. sé með málflutningi af þessu tagi að reyna að finna eitthvert skálkaskjól til þess að hlaupa í í sambandi við umr. um þetta mál. Það er hins vegar þess eðlis að menn ættu ekki að þurfa að vera að grípa til slíkra ráða, eins og hæstv. ráðh. gerði áðan.

Það hefur oft komið fyrir að ágreiningur hefur risið um hver hafi völdin á Keflavíkurflugvelli og hægt er að finna þess mörg dæmi, þó að ég hafi þau ekki hér til að hafa yfir, sem minna okkur á að t.d. völd lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli hafa verið talin orka tvímælis þegar til ágreinings og árekstra hefur komið vegna einstakra tilefna þar á hinum svokölluðu varnarsvæðum. Ég var ekki að gera það að mínum orðum í því máli sem ég flutti hér áðan að þessi svæði lægju utan íslenskrar lögsögu. Það gerði ég ekki og hæstv. ráðh. getur gengið úr skugga um það með því að lesa afrit af minni ræðu.

Ég hlýddi af athygli á hugmynd hæstv. ráðh. um að Alþingi, eins og ég tók eftir að hann sagði, fæli nefnd manna að kanna öll þau mál sem tengjast öryggi Íslands og ég hygg að hann hafi sagt aðgerðum í varnarmálum eða eitthvað á þá leið. Ég tel þessa hugmynd mjög góðra gjalda verða og sjálfsagt sé að taka undir hana. En ég vildi þó, vegna þess að ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. tali hér á eftir, að hann útskýrði með ákveðnari hætti hvernig hann hyggur að að þessu sé staðið og hvort sá skilningur sé réttur að ef til slíkrar nefndar sé stofnað sé tryggt að þar eigi sæti fulltrúar allra þingflokka sem eru starfandi á Alþingi nú eða framvegis. Ég bendi einnig á að hér er starfandi svokölluð öryggismálanefnd, sem hefur verið allvirk á undanförnum árum þó að meira hefði mátt fara fyrir hennar störfum að mínu mati, og utanrmn. sem er kosin af Alþingi og fjallar m.a. um öryggismál að vissu marki. En það mætti vera meira og það þarf að sjálfsögðu að tryggja, ef til nýrrar nefndar er stofnað með þessum hætti, að eðlilegt samhengi og samstarf sé milli þeirra sem fjalla um utanríkis- og öryggismál landsins.

Mér þótti gott að hlýða á mál hv. 9. þm. Reykv. Haralds Ólafssonar í sambandi við viðhorf til íslenskra öryggismála og ég vildi óska þess að þau viðhorf, sem hann túlkaði þar, ættu sér traustan stuðning í röðum Framsfl. Hv. þm. taldi raunar að hann hefði flokksþingssamþykki þar að baki. Af máli hans mátti ráða að hann teldi að algerlega væri í rauninni óljóst hver væri öryggisstefna Íslands. Það væri ógert að móta slíka skilmerkilega stefnu. Hann taldi að það mál, sem hér hefði verið til umr. í dag, fjallaði um grundvallaratriði sem ætti að vera hafið yfir flokkadeilur. Ég tek undir það með hv. þm. að hér er ekki um mál að ræða sem má falla í einhvern karpfarveg og það er mun víðtækara en sá ágreiningur sem hefur verið uppi og er uppi varðandi herstöðina í Keflavík og aðra hernaðaraðstöðu Bandaríkjamanna hérlendis. Spurningin um kjarnorkuvopn í því samhengi, áætlun um kjarnorkuvopn, sem þessu tengjast, er allt annars eðlis í rauninni og alvarlegri en sá ágreiningur sem uppi er að öðru leyti í þessum efnum.

Hv. 9. þm. Reykv. benti á það, og undir það var tekið og undirstrikað af hv. þm. Steingrími Sigfússyni áðan, að hver og einn þáttur í þróun herstöðva hér á landi, þ. á m. varðandi radarstöðvarnar, væri hluti af heild og þeirri spurningu væri ósvarað, m.a. af Alþingi, inn í hvaða samhengi þessir hlutar féllu og það væri það sem máli skiptir. Hæstv. forsrh. sá ástæðu til þess í máli sínu áðan að taka undir það sem hann taldi vera sjónarmið Williams Arkins í sambandi við radarstöðvarnar, að þar væri smámál á ferðinni. Ég taldi að skilningur hv. 9. þm. Reykv. væri mun skarpari á því máli og því samhengi, sem þar er um að ræða, og ég vona að hans sjónarmið fái öflugan stuðning í hans flokki þegar þau mál verða til frekari umræðu og ákvörðunar.

Ég vildi svo, herra forseti, vegna þess að hér hefur verið óskað eftir því að fundi megi ljúka, aðeins að endingu segja að ég tel að þessi umr., sem hér hefur farið fram í dag, hafi leitt fram svör og viðbrögð bæði hæstv. ráðh. og einstakra alþm. sem gagnleg megi vera við framhaldsskoðun þessa þýðingarmikla og alvarlega máls. Málið er ekki um það eitt hvort upplýsingar umrædds Bandaríkjamanns séu réttar í öllum greinum eða ekki, heldur snúast þær einnig um það hvert við erum að fara, hvert okkur Íslendinga er að bera í sambandi við svokölluð öryggismál og þá aðstöðu sem við höfum veitt Bandaríkjamönnum hérlendis fyrst og fremst, þó að að sumu leyti sé það rekið í nafni Atlantshafsbandalagsins. Það er ofan í saumana á því samhengi öllu saman sem Alþingi Íslendinga þarf að fara nú á næstunni því að þennan vef er verið að vefa fastar með hverjum deginum sem líður, með hverju skrefi sem tekið er. Þar er umræðan um radarstöðvar, sem nú er hafin, hvað nærtækust.