06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður og leitast mun ég við að ýfa ekki upp umr. að nýju þar sem forseti hefur af frjálslyndi sínu og góðvild leyft þessar utandagskrárumr. með það fyrir augum að unnt væri að nýta það sem eftir er dagsins í önnur skyldustörf Alþingis. Ég vil þess vegna sem mest reyna að halda mig við að svara fsp. sem fram hafa komið, en mun þó víkja að örfáum öðrum atriðum.

Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir spurði mig nokkurra spurninga sem ég óskaði eftir að fá skriflegar og hef fengið þær og ég þakka það.

Það er í fyrsta lagi: Hversu ítarlegar og haldgóðar upplýsingar er í reynd að hafa um hlutverk Íslands í vígbúnaðar- og varnaráætlunum Atlantshafsbandalagsins? Ég tel að það sé hægt að fá bæði ítarlegar og haldgóðar upplýsingar um þessi efni ef Íslendingar leita eftir þeim og fylgjast vel með. Þann tíma sem ég hef verið utanrrh. hef ég lagt aukna áherslu á þessi efni og tekið það fram m.a. að til þess að við fylgdumst nægilega vel með þyrftum við og að fylgjast með störfum hermálanefndarinnar, bæði til þess að gera okkur grein fyrir hlutverki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, varnarbandalagi vestrænna þjóða og einnig til þess að við getum beitt áhrifum okkar að svo miklu leyti sem unnt er og raunsætt að því að vinna að afvopnun í heiminum.

Spurningar Sigríðar Dúnu eru allar byggðar á því skilyrði að upplýsingar Williams Arkins séu réttar. Ég hef ekki talið rétt að fara í efnislegar umr. eða svara spurningum sem annaðhvort byggjast á því að upplýsingar Arkins séu réttar eða rangar. Ég kveð ekki upp dóm um það fyrr en það mál er upplýst. Þess vegna er ekki efni til þess að svara spurningum eins og hvers vegna íslensk stjórnvöld viti ekki um efni þessara upplýsinga, hvers virði yfirlýsingar Bandaríkjamanna séu o.s.frv.

Fimmta fsp. Sigríðar Dúnu er um það hvernig ráðh. hafi hugsað sér að sannreyna þær upplýsingar sem hann kann að hafa eða muni fá um þessi mál. Ég tel nauðsynlegt í hverju máli að leita upplýsinga alls staðar þar sem hugsanlegt er að upplýsingar sé að fá. M.a. er unnt með samanburði við aðrar bandalagsþjóðir að sannreyna hvort upplýsingar frá einni þeirra eru réttar, svo ég nefni eitt dæmi.

Þá hefur hér í umr. verið rætt um hvort hlutverk varnarstöðvarinnar væri að breytast. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon vitnaði í þeim efnum í skýrslu mína um utanríkismál þar sem ég sagði að eðli varnarstöðvarinnar væri fyrst og fremst varnar- og eftirlitshlutverk. Ég tel engan þeirra þátta sem hann nefndi sem dæmi um að varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli væri að breyta um eðli hafa við rök að styðjast, en hef ekki tíma til að fara yfir þessa þætti hvern fyrir sig þó að ég hefði ánægju af því að gera það við annað og betra tækifæri. Almennt vil ég um þetta segja að þær ráðstafanir og framkvæmdir sem verið er að vinna að á Keflavíkurflugvelli og við varnarstöðina eru endurnýjanir og endurbætur sem leiða af því að tækniframfarir eiga sér stað í heiminum. Það er ósköp eðlilegt að 20–30 ára gömul tæki eða aðstaða þurfi endurnýjunar við.

Ég skal svo víkja að þeim orðum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér síðast.

Sú skoðun, sem hann tilgreindi ekki annað en að hann tæki þátt í að hafa, að Keflavíkurflugvöllur væri bandarískt svæði en ekki íslenski, er auðvitað algerlega út í hött og skaðar hagsmuni Íslands. Hann nefndi sem stuðning við þessa skoðun að ágreiningur ætti sér stað um löggæslu á Keflavíkurflugvelli. Nú hef ég ekki annað í huga en að um löggæslu á Keflavíkurflugvelli og á varnarsvæðinu séu mjög skýr og skítmerkileg ákvæði í varnarsamningum. Ég man ekki eftir neinu því ágreiningsmáli í þessum efnum sem styður skoðun hv. þm. að þessu leyti.

Þá spurði þm. hvað vekti fyrir mér með ummælum um nefndarskipun er fjallaði um öryggismál Íslands og ekki síður, eins og ég undirstrikaði í minni fyrstu ræðu, að slík nefnd ætti að fjalla um stöðu og þátttöku Íslands almennt í viðleitni til afvopnunar og útrýmingar kjarnorkuvopna. Ég tel alveg sjálfsagt að slík nefnd væri skipuð fulltrúum frá öllum þingflokkum. Það væri efni sem utanrmn. gæti fjallað nánar um með hvaða hætti nefndin skyldi skipuð og hvert yrði verksvið hennar, en ég gekk út frá því að nefndin fjallaði um þær till. sem hér hafa séð dagsins ljós og snerta þessi efni.

Ég fagna því að áhugi á varnar- og öryggismálum sýnist fara vaxandi. Það hefur stundum á því bryddað að þetta væru álitin nokkurs konar feimnismál. Að sumu leyti er eðlilegt að þessi mál séu sjaldnar og síður til umr. hér á Íslandi og Alþingi en á þjóðþingum annarra landa. Það stafar af því að aðrar þjóðir þurfa árlega að fjalla um það hve mikill hluti af skattheimtu fari til verndar sjálfstæði og öryggi þjóðanna. Þá gefst um leið mjög eðlilegt tækifæri til að fjalla um hvað þessar þjóðir vilja á sig leggja til að treysta varnir sínar, öryggi og sjálfstæði. En þess er engu síður þörf hér á Íslandi að við gerum okkur vel grein fyrir hvers er þörf í þeim efnum þótt við þurfum ekki að veita fjármunum, sem teknir eru með sköttum af þjóðinni, til þessara mála.

Ég hef sagt frá því í utanrmn. að ég vonaðist til þess að skýrsla um utanríkismál yrði fyrr á ferðinni á þessu þingi en var í fyrra til þess að nægilegur og góður tími gæfist til umr. um þessi mál þ. á m. um varnarmál og ýmislegt það sem menn hafa rætt um í þessum umr.