06.12.1984
Sameinað þing: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að gera hér athugasemd vegna síðustu ummæla hæstv. utanrrh. Hann er enn við það heygarðshorn að nudda mér upp úr því að ég hafi verið hér með ummæli sem jaðri við landráð. Hann endurtók það í sinni síðustu ræðu þó að hann hafi staðhæft í upphafi að hann ætlaði sér ekki að gefa tilefni til frekari umr. Hæstv. ráðh. virðist ekki leggja vel við hlustir. Hann virðist hvorki hafa hlustað á mín upphaflegu ummæli né heldur ræðu mína hér áðan þar sem ég taldi mig hafa leiðrétt misskilning ráðh. um að ég væri þeirrar skoðunar að vallarsvæðin eða verndarsvæðin svokölluðu lægju utan íslenskrar lögsögu. Það er ekki mitt viðhorf. (Gripið fram í: Gott að heyra það. Gott að það kom fram. ) Það kom fram í ræðu minni áðan. (Gripið fram í: Ja, það var nú ekki alveg ljóst. Það var með aths.)