10.12.1984
Efri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þar sem mér var ekki fært að vera viðstödd afgreiðslu þessa máls í n. vil ég nota tækifærið hér og lýsa því yfir að ég er fylgjandi því að þetta frv. verði samþykkt, með þeim fyrirvara þó að ég tel að óhætt hefði verið að hafa þá skattprósentu, sem hér um ræðir, heldur hærri. Við vitum mætavel að verslun stendur nú með miklum blóma í landinu. Allir útreikningar sýna okkur það og sanna. Þeir aðilar sem hér um ræðir ættu því að vera nokkuð aflögufærir fyrir okkar þrautpínda og galtóma ríkissjóð. Ég hefði t.d. talið eðlilegra að afla ríkissjóði tekna með sköttum af því tagi sem hér um ræðir, sköttum á þá sem þá geta greitt, frekar en með auknum neyslusköttum sem koma niður á öllum almenningi og reyndar versluninni líka þótt í minna mæli sé.

En með þeim fyrirvörum, sem ég hef hér til tekið, lýsi ég mig samþykka þessu frv.