10.12.1984
Efri deild: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 97/1979. Skv. gildandi ákvæðum eiga eftirlaunagreiðslur skv. lögunum að falla niður nú í árslok, en í frv. er gert ráð fyrir að lögin verði framlengd um fimm ára skeið og á þeim gerðar nokkrar breytingar.

Þar sem ég hef ekki talið koma til greina að eftirlaunagreiðslur þessar falli niður án frekari ráðstafana af hálfu rn. fól ég snemma á s.l. sumri þeim Guðjóni Hansen formanni umsjónarnefndar eftirlauna og Hallgrími Snorrasyni formanni lífeyrisnefndar Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna að gera tillögur um fyrirkomulag þessara mála þegar lög þessi eiga að falla úr gildi. Hafa þeir samið þetta frv. og haft við það samráð við lífeyrisnefndina. Nefndin er samþykk þeim tillögum sem gerðar eru með þessu frv.

Lögin um eftirlaun til aldraðra leystu af hólmi lög um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum nr. 63/1971, en upphafleg lög um þetta efni, nr. 18/1970, voru sett í framhaldi af kjarasamningum 1969 og stofnun hinna svonefndu almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélaga í ársbyrjun 1970. Tilgangurinn með lögunum var sá að veita eldri félögum verkalýðsfélaganna réttindi umfram það sem iðgjaldagreiðslutími gat veitt tilefni til, þar sem lítið var eftir af starfsævi þeirra eða henni jafnvel lokið. skv. fyrirheiti ríkisstj. við samningana 1969 skyldu útgjöld vegna þessara viðbótarréttinda næstu 15 árin borin af Atvinnuleysistryggingasjóði að 3/4 og ríkissjóði að 1/4, en síðan tæki hlutaðeigandi lífeyrissjóður við, enda yrði þá farið að draga verulega úr útgjöldum vegna þessara ráðstafana. Réttindi skv. lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum voru takmörkuð við verkalýðsfélög í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Árið 1970 voru sett lög um Lífeyrissjóð bænda. Í II. kafla þeirra laga voru ákvæði um lífeyrisréttindi til handa öldruðum bændum, svipuð og réttindi skv. lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Útgjöld voru borin að hluta af Stofnlánadeild landbúnaðarins og að hluta af ríkissjóði.

Skv. ákvæðum laganna frá 1971 breyttust lífeyrisgreiðslur árlega sem nam breytingu á meðallaunum næstliðinna fimm ára. Lífeyrisgreiðslurnar voru því aðeins verðtryggðar að mjög takmörkuðu leyti. Eftir því sem verðbólga færðist í aukana fyrir miðjan síðasta áratug fór því hlutfall lífeyris skv. lögunum og launa hríðlækkandi. Úr þessu var bætt til bráðabirgða með samkomulagi samtaka launþega og vinnuveitenda í febrúar 1976, þess efnis að lífeyririnn yrði verðtryggður skv. lögunum þannig að lífeyrissjóðir á samningssviði þessara aðila kostuðu sameiginlega þá hækkun lífeyris sem af því hlytist að lífeyririnn breyttist jafnaðarlega til samræmis við launahækkanir. Jafnframt þessu tók Lífeyrissjóður bænda frá árinu 1976 á sig útgjöld vegna sérstakrar verðtryggingar hliðstæðrar þeirri sem kveðið var á um í áðurnefndu samkomulagi launþega og vinnuveitenda frá í febr. það ár.

Verðtryggingarreglurnar frá 1976 hafa haft í för með sér aukna verðtryggingu greiðslna úr lífeyrissjóðum langt út fyrir þann hóp sem rétt á skv. lögum um eftirlaun til aldraðra eða II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda. Munu nú langflestir þeir lífeyrissjóðir, sem ekki er beinlínis skylt að láta lífeyrisfjárhæðir fylgja breytingum á launum eða kauptöxtum, greiða uppbætur í samræmi við nefnt samkomulag með þeim breytingum sem síðar hafa verið á því gerðar.

Í tengslum við gerð kjarasamninga og við endurnýjun lífeyrissamkomulags aðila vinnumarkaðarins í júní 1977 gaf ríkisstj. m.a. fyrirheit um að samdar skyldu tillögur sem tryggðu öllum landsmönnum svipaðan rétt og lögin um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum ákveða félögum í stéttarfélögum, fram til þess að nýskipun lífeyriskerfis tæki gildi. Á grundvelli þessarar yfirlýsingar var undirbúið frv. til laga um eftirlaun til aldraðra sem síðan varð að lögum nr. 97/1979.

Lögin um eftirlaun til aldraðra skiptast í sex kafla. Í I. kafla eru ákvæði um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum sem eru efnislega hin sömu og voru í lögunum frá 1971. Í II. kafla er kveðið á um almenn eftirlaun til aldraðra, þ.e. um réttindi sem hvorki falla undir I. kafla laganna né II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda. Að undanteknu ákvæði um stéttarfélagsaðild í l. kafla eru þau skilyrði, sem menn þurfa að uppfylla til að öðlast eftirlaun skv. lögunum, hin sömu í II. kafla og 1. kafla, eða sem hér segir:

a. Að vera fæddir árið 1914 eða fyrr.

b. Hafa náð 70 ára aldri og látið af störfum. Maður sem náð hefur 75 ára aldri á þó rétt til eftirlauna án tillits til hvort hann hefur látið af störfum eða ekki.

c. Eiga að baki a.m.k. 10 ára réttindatíma og hafa hvert þessara ára áunnið sér a.m.k. 1/25 úr stigi. Til réttindatíma telst sá tími frá og með árinu 1955 og eftir 55 ára aldur sem hlutaðeigandi hefur haft atvinnutekjur að því lágmarki sem lögin ákveða.

Með ákvæðum II. kafla voru þeim mönnum, sem ekki hafa verið félagar í stéttarfélögum sem talin eru til verkalýðsfélaga í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, tryggð nokkurn veginn sömu réttindi og félögum í stéttarfélögum, og eftirlaunarétturinn þannig gerður almennur.

Í III. kafla eru svo ýmis sameiginleg ákvæði um bótafjárhæðir, tengsl milli I. og II. kafla laganna og II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda svo og um framkvæmd.

Í IV. kafla laganna eru ákvæði um uppbót á lífeyri, þ.e. þá verðtryggingu lífeyris, sem fyrst var ákveðin með lífeyrissamkomulagi aðila vinnumarkaðarins í febr. 1976. Nær verðtryggingin jafnt til lífeyris skv. I. og II. kafla laganna.

Í V. kafla eru fjárhagsákvæði sem eru nokkuð margbrotin, en kostnaður af eftirlaununum skiptist þannig:

1. Grunnlífeyrir, þ.e. eftirlaun án uppbótar, skv. 1. kafla greiðist að 3/4 af Atvinnuleysistryggingasjóði og 1/4 af ríkissjóði.

2. Uppbót á grunnlífeyri skv. 1. kafla greiðist að hluta af sameiginlegu framlagi þeirra lífeyrissjóða, sem eru aðilar að samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um lífeyrismál frá 1976 og síðar, en að hluta af hverjum lífeyrissjóði fyrir sig. Framlagið nemur 5% af iðgjaldatekjum sjóðanna, sem í hlut eiga, en það sem á vantar að hið sameiginlega framlag hrökkvi til greiðslu uppbótarinnar greiðir hver sjóður vegna sinna félaga.

3. Eftirlaun skv. II. kafla laganna að uppbót meðtalinni svo og uppbót skv. II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda greiðist sem hér segir:

a. Allir lífeyrissjóðir, sem standa utan lífeyrissamkomulags aðila vinnumarkaðarins, leggja fram í þessu skyni 5% af iðgjaldatekjum sínum.

b. Af því sem á vantar að framlag lífeyrissjóðanna hrökkvi til greiðir ríkissjóður 40% en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóður 30% hvor.

4. Kostnaður af greiðslu þriggja stiga viðbótarréttinda við eftirlaun skv. 1. kafla greiðist af Atvinnuleysistryggingasjóði.

Í september 1984 fengu 3972 einstaklingar ellilífeyri skv. l. kafla laganna, 26 fengu örorkulífeyri og 1067 makalífeyri. Skv. II. kafla fengu 949 manns ellilífeyri, enginn örorkulífeyri en 197 makalífeyri. Um 100 manns fá lífeyri bæði skv. 1. og II. kafla og samtals er því fjöldi lífeyrisþega sem nýtur eftirlauna skv. lögunum um 6100 talsins. Að auki njóta 1450 manns lífeyris skv. II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda. Að meðtöldum mökum má ætla að um 10 000 manns njóti með beinum eða óbeinum hætti þess lífeyris sem hér er um að ræða.

Ekki er unnt að segja nákvæmlega fyrir um hvaða afleiðingar það hefur ef lögin verða látin ganga úr gildi í árslok 1984 án frekari ráðstafana af hálfu löggjafans, en eftirfarandi má þó nefna:

1. Eftirlaun til félaga í stéttarfélögum skv. l. kafla hljóta í flestum tilvikum að leggjast á þá lífeyrissjóði sem hlut eiga að máli. Í reglugerðum mjög margra þessara sjóða eru ákvæði um að greiðslum skuli haldið áfram þegar lögin falla úr gildi, og aðrir sjóðir munu væntanlega telja rétt að gera það með skírskotun til samkomulagsins 1969. Hins vegar má búast við að nokkur hópur lífeyrisþega I. kafla yrði utanveltu og óvissa gæti orðið um réttindi manna sem uppfylla skilyrði laganna fyrir rétti til lífeyris að öðru leyti en því að þeir hafa ekki en látið af störfum. Greiðsla uppbótar á grunnlífeyri þeirra manna, sem sjóðirnir tækju við, færi væntanlega eftir sömu reglum og uppbótargreiðslur til annarra lífeyrisþega hlutaðeigandi sjóða og gæti orðið nokkuð mismunandi eftir sjóðum. Á hinn bóginn má ætla að lífeyrissjóðirnir teldu sér yfirleitt óskylt að taka á sig þau þriggja stiga viðbótarréttindi sem kostuð hafa verið af Atvinnuleysistryggingasjóði og féllu þau þá alveg niður.

2. Eftirlaun skv. II. kafla falla alveg niður.

3. Kostnaður af greiðslu uppbótar á lífeyri skv. II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda falla á sjóðinn sjálfan eða falla niður ef sjóðurinn verður ekki talinn hafa bolmagn til að standa undir þeim greiðslum.

Ljóst er að stórlækkun lífeyrisgreiðslna og uppbótar skv. I. kafla og niðurfelling greiðslna skv. II. kafla er ekki viðunandi. Telja verður að greiðslur skv. I. kafla og uppbót á þann lífeyri yrðu þá, eins og til málanna er stofnað, á ábyrgð viðkomandi lífeyrissjóða, en eftirlaun skv. II. kafla yrðu væntanlega að teljast viðfangsefni hins opinbera.

Við athugun og umr. um mál þetta hefur komið í ljós að viðhorf þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, eru mjög mismunandi. M.a. hefur verið hreyft hugmyndum um að lögin verði framlengd en um leið víkkuð út, þannig að þau tækju til yngri manna en þeirra, sem fæddir eru 1914 og fyrr, og allur kostnaður af lögunum látinn falla á ríkissjóð frá 1. jan. 1985. Þá hafa sumir af þeim lífeyrissjóðum, sem lagt hafa fram fé til lífeyris skv. II. kafla verið andsnúnir þeim framlögum og komið hafa fram kröfur um að kostnaðarhlutdeild sjóðanna yrði afnumin. Jafnframt er óvíst hvort allir þeir lífeyrissjóðir, sem eru aðilar að lífeyrissjóðasamkomulaginu, sem er undirstaða greiðslu uppbótar á lífeyri skv. I. kafla, eru reiðubúnir til áframhaldandi framlaga til hins sameiginlega sjóðs sem stendur undir miklum hluta af þessum greiðslum.

Við þessar aðstæður eru eftirfarandi tillögur gerðar um fyrirkomulag þessara mála frá 1. jan. 1985:

a) að gildistími laganna verði framlengdur um fimm ár til ársloka 1989,

b) að skilyrði til töku eftirlauna verði óbreytt frá því sem nú er,

c) að kostnaður verði borinn af sömu aðilum og nú, d) að framlag lífeyrissjóða til greiðslu uppbótar á lífeyri skv. I. kafla og til greiðslu lífeyris skv. II. kafla lækki úr 5% í 4% 1985 og í 3% 1986–1989,

e) að lífeyrisréttur miðist við grundvallarlaun eins og þau eru skv. kauptaxta í byrjun hvers mánaðar, en skv. gildandi lögum geta lífeyrisgreiðslur aðeins breyst fjórum sinnum á ári, þ.e. þá daga sem verðbótahækkun launa tók áður gildi.

Loks eru í frv. gerðar tillögur um nokkrar minni háttar breytingar, einkum um tilvísanir í lok sem breytt hefur verið frá því að lögin nr. 97/1979 voru samþykkt.

Ástæðan fyrir tillögu um fimm ára framlengingu er sú, að enda þótt eftirlaunaþegar skv. lögunum hafi allir náð lágmarksaldri til töku lífeyris á árinu 1984, fái þeir því aðeins notið réttar síns að þeir hafi látið af starfi, en þeir hefja í síðasta lagi töku lífeyris er 75 ára aldri er náð árið 1989. Með framlengingu um fimm ár er því komið í veg fyrir óvissu um réttindi slíkra manna. Talið er að fjöldi eftirlaunþega skv. lögunum verði í hámarki árin 1984 og 1985 en síðan fækki þeim þar sem þá falli frá á ári hverju stærri hópur en sá sem við bætist. Eftir árið 1989 verða allir eftirlaunaþegar, sem réttindi geta eignast skv. lögunum, farnir að taka eftirlaun. Því mun lífeyrisþegahópurinn minnka ört eftir það. Lífeyrissjóðum verður þá mun minni vandi á höndum en nú er að taka við kostnaði af greiðslu þeirra eftirlauna sem á þá falla, þ.e. skv. 1. kafla laganna.

Athugun og framreikningur á kostnaði við greiðslu uppbótar skv. 1. kafla laganna sýnir að hlutfall uppbótar af heildarlífeyri hefur lækkað að mun frá árinu 1984 og mun fara lækkandi áfram ef verðlag og kauplag hækkar ekki ört á ný. Árið 1983 voru uppbótargreiðslur um 56% af heildargreiðslum, en eru taldar verða um 48% á árinu 1984. Sé miðað við að hið sameiginlega framlag lífeyrissjóða til uppbótargreiðslna skv. I. kafla haldist svipað og verið hefur í hlutfalli við heildargreiðslur uppbótar, virðist óhætt að leggja til að framlagið lækki í 4% árið 1985 og í 3% 1986 og síðar.

Í núgildandi lögum er kveðið á um að lífeyrisréttur miðist við grundvallarlaun eins og þau voru hinn 1. mars, 1. júní, 1. sept. og 1. des. Þessar dagsetningar voru miðaðar við þá daga sem verðbótahækkun launa tók áður gildi skv. lögum og kjarasamningum. Forsendur fyrir þessum dagsetningum eru ekki lengur fyrir hendi og því er lagt til að lífeyrisréttur miðist við grundvallarlaun í byrjun hvers mánaðar. Í þessu fellst að lífeyrisgreiðslur geta breyst sem næst jafnskjótt og laun breytast í stað þess að geta breyst fjórum sinnum á ári eins og nú er. Þetta hefur í för með sér að komið er í veg fyrir tafir á breytingum lífeyrisgreiðslna til samræmis við þær launabreytingar, sem um kann að vera samið, og færir lífeyrisþegum því nokkra kjarabót.

Erfitt er að ætla á um fjárhagsleg áhrif fyrir ríkissjóð af þeim tillögum sem gerðar eru með þessu frv. Ýmis atriði má þó nefna í þessu sambandi. Í fyrsta lagi þarf vart að nefna að falli lögin úr gildi fellur niður kostnaður ríkissjóðs af lífeyrisgreiðslum skv. þeim, alls um 24 millj. kr. skv. áætlun fyrir árið 1984, en kostnaðarhluti Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem félli niður, er 53 millj. 1984 og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 6 millj. kr. Á hitt má benda að á móti mundu útgjöld ríkissjóðs til greiðslu tekjutryggingar og annarra tengdra bóta lífeyristrygginga vafalaust aukast.

Í öðru lagi má nefna að verði lögin framlengd fer kostnaðarskipting mjög eftir launabreytingum næstu árin. Þeim mun minna sem laun hækka að krónutölu, þeim mun þyngri verður kostnaður ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs af lífeyri skv. l. kafla laganna, en kostnaður af lífeyri skv. II. kafla lækkar. Hið gagnstæða á sér stað verði um miklar launabreytingar í krónum að ræða á næstunni. Að lokum má nefna að lækkun á framlagi lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris skv. II. kafla laganna og uppbótar á hann hefur í för með sér kostnaðarauka fyrir þá aðila sem greiða það sem á vantar að framlag ríkissjóðs nægi til þessara útgjalda, þ.e. fyrir ríkissjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Til dæmis um áhrif þessa má nefna að hefði framlagið 1984 verið 3% í stað núgildandi 5% af iðgjaldatekjum sjóðanna hefði það aukið útgjöld ríkissjóðs um 5.4 millj. kr. og Atvinnuleysistryggingasjóðs og Jöfnunarsjóðs um 4 millj. kr. á hvorn sjóð, miðað við þá áætlun um greiðslur og kostnaðarskiptingu sem hér hefur verið sett fram.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.