10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

191. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég vil út af orðum hv. síðasta ræðumanns, 6. landsk. þm., óska eindregið eftir að þm. kynni sér reglugerðir um þau gjöld sem einstaklingar eiga að greiða og þau mörk sem sett eru á, en haldi ekki áfram þessu tali um gegndarlausar álögur á þetta fólk. Það eru komin inn í reglugerð ný ákvæði um gjaldskyldu þeirra sem þurfa að fara til læknis eða í rannsókn á göngudeild. Þó að rannsóknin sé margföld, t.d. röntgengreining, blóðrannsókn o.fl. þá er aðeins um eitt gjald að ræða. Ef við bærum þetta saman t.d. við iðgjöld til almannatrygginga árið 1971 og færðum til verðgildis í dag þá eru þetta smámunir á við það. Breytingar hafa orðið verulegar til hækkunar allra bóta, en engar á þessu nema til lækkunar. Ef við höldum okkur við hámarksfjöldann sem er kominn á, að það má ekki taka gjald nema 12 sinnum á ári, þá er það lækkun frá því sem var áður. En alltaf er einblínt á ákveðinn hluta til hækkunar en ekki hvað breytt er að öðru leyti. Það hefur t.d. aldrei verið farið lægra með hlutdeild ellilífeyrisþega og öryrkja en nú með breyttri reglugerð. Það hefur verið helmingur, nú er það komið niður fyrir helming. Nú er það 150 kr., 100 kr. og svo 50 kr. Þetta er lægra hlutfali en nokkru sinni fyrr. Ég vildi því í fullri vinsemd óska eftir því að hv. þm. kynnti sér þetta áður en hann skrifaði undir svipuð frumvörp með fyrirvara. Ég er viss um að ef hann vill kynna sér þetta og skilja það mun hann lýsa yfir ánægju sinni með þær breytingar.