10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur rætt þetta mál allmikið og reynt að komast til botns í því hverjar afleiðingar þess kynnu að verða og hvert samræmi væri í þessari löggjöf við ýmiss konar önnur vafaatriði og ýmiss konar misræmi í skattalögum, sem alltaf hlýtur að verða en kannske þó mest á umbrota- og verðbólgutímum eins og við höfum lifað. Þess vegna er málið kannske ekki alveg eins einfalt og það lítur út við fyrstu sýn.

Engu að síður erum við sammála um að mæla með samþykkt þess og það sé réttlætismál í flestum tilfellum að þeir, sem láti af störfum, verði skattfrjálsir árið eftir að þeir ljúki sinni meginatvinnu jafnvel þó þeir starfi eitthvað lítils háttar áfram. En þetta gildi þó ekki nema í eitt skipti eins og frv. gerir ráð fyrir.

Við komumst þó að þeirri niðurstöðu að það væri óeðlilegt að hafa þessa lagaskyldu alveg ótvíræða og algilda því að það getur vel verið að einhver einstaklingur hafi mjög háar tekjur eitthvert einstakt ár og kannske árum saman. Við getum hugsað okkur mann sem rekur atvinnurekstur í eigin nafni. Hann kann að hafa mjög háar tekjur, jafnvel svo mörgum milljónum eða jafnvel milljónatugum skipti, og þá er ekki eðlilegt að hann verði alveg skattfrjáls þegar hann lætur af störfum. Af ýmsum öðrum ástæðum geta menn haft mjög miklar tekjur einstök ár þótt þær séu minni önnur. Þess vegna leggjum við til að sett verði þak á þessa upphæð, ef svo má að orði komast, og að miðað yrði við 1 millj. kr. í hreinar launatekjur en mundi síðan breytast með breyttu verðlagi eins og aðrar upphæðir í skattalögum verði frv. þetta samþykkt. Jafnvel þótt það verði nú einungis afgreitt úr þessari hv. deild mundi verða flutt brtt. við annað frv. um tekju- og eignarskatt, sem einmitt er hér til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. og verður væntanlega afgreitt út úr henni á morgun, um lögfræðilega tæknilegar brtt. til þess að sama gilti um þessa upphæð og aðrar að þær breyttust með verðlagi.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frv. en einungis víkja lítillega að brtt. sem fram hefur komið frá hv. þm. Ragnari Arnalds o.fl. um að láta lög þessi verða gild að því er einstaklinginn varðar þegar hann hefur náð 55 ára aldri. Ég er mjög eindregið andvígur þessari till. og ber þar margt til. En við höfum einnig rætt þetta mjög ítarlega í nefndinni og raunar á nefndarfundum hér í hornunum líka. Við þekkjum hvers annars sjónarmið og ekkert er sjálfsagðara en að þessi brtt. gangi hér undir atkv. hv. þm. Ég býst ekki við að neinn sé bundinn af flokksfyrirmælum í því efni.

Mín afstaða byggist á því að lægstu mörk, sem þekkt eru að því er varðar lífeyrisgreiðslur hér á landi, eru einmitt 60 ár að því er sjómenn varðar. Ég mundi einmitt halda að þetta lækkaða mark gæti leitt til þess að menn færu að hugsa hvort það ætti nú að verða almenn regla í þjóðfélaginu að hættu kannske vinnu 55 ára gamlir, hversu mikið starfsþrek sem þeir hefðu. Menn segja kannske að þetta sé útúrsnúningur og víst má segja að það er ekki það sem verið er hér að ákveða, heldur að menn geti valið þetta skattfrjálsa ár þegar eftir 55 ára aldur þegar flestir eru sem betur fer í fullu fjöri og margir kannske með meira starfsþrek en oft áður, eða a.m.k. meiri reynslu og því kannske meiri möguleika á að afla sér hárra tekna eða láta eitthvað gott af sér leiða og fá þá borgað fyrir það eins og venja er eða á að vera í atvinnulífinu. Ég tel sem sagt að menn eigi ekki að fá þessi réttindi fyrr en sextugir. Það er miklu frekar að það þurfi að hjálpa fólki sjúkleika vegna og ég tala nú ekki um þegar fyrirvinna kannske fellur frá. Þá er sjálfsagt mál að skattar falli niður af tekjum fyrirvinnunnar, sem kannske hefur unnið fyrir stóru heimili, miklu frekar en að hver og einn geti þegar hann hefur náð 55 ára aldri kannske þrælað eitt ár, kannske líka hagrætt sínum tekjum, kannske líka samið við sinn vinnuveitanda eitthvað um það að fá mjög mikla aukavinnu þetta ár o.s.frv. og náð sér þar í skattfrjálsar tekjur í gusuþjóðfélagi þar sem vel árar stundum og verr aftur annað árið. Allt er það nú mannlegt að reyna að borga ríkinu ekki meiri skatta en þörf er á. Þetta opnar áreiðanlega ýmsar leiðir og ekki verður það til að bæta siðferðið að fara að lækka þessa upphæð.

Ég sagði áðan að mál þetta væri ekki eins einfalt í heild sinni burtséð frá aldursmarkinu og menn kannske héldu við fyrstu sýn. Auðvitað gildir það sem ég var að segja núna rétt áðan líka þegar maðurinn hefur náð 60 ára aldrinum, en þó er það ólíklegra að menn geti hagrætt tekjum sínum eins þá og þegar þeir eru yngri og þróttmeiri.

Gagnrökin þekki ég og virði þau líka. Það er sjálfsagt að hlýða á rök og við fáum vafalaust að hlýða á þau hér frá hv. tillögumönnum sem brtt. flytja. Hver og einn metur það svo fyrir sig hvað hann gerir í því. En ég held að það sé mjög óheillavænlegt að lækka þetta aldursmark og það boði ekkert gott. Ég mun, eins og ég sagði áðan, greiða atkv. á móti brtt.