10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. n. er full samstaða í n. um að afgreiða þetta mál sem allir nm. töldu mjög til bóta. Eins var það sameiginlegt álit manna að nauðsynlegt væri að setja ákveðna takmörkun á þessa heimild eins og fram kemur í brtt. sem nefndin flytur öll.

Hins vegar kemur það fram í nál. að einstakir nm. áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt. og það hafa sem sagt þrír nm. gert á þskj. 247 ásamt nokkrum öðrum þm. deildarinnar. Flm. þessarar till. eru auk mín fulltrúi Bandalags jafnaðarmanna á fundum nefndarinnar, en hann á ekki kjörið sæti í nefndinni, einnig fulltrúi Alþfl. í nefndinni, hv. þm. Eiður Guðnason, og fulltrúi Samtaka um kvennalista, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. En auk okkar eru hv. þm. Davíð Aðalsteinsson og Haraldur Ólafsson flytjendur till.

Eins og hér kemur fram er till. flutt af þm. allra flokka annarra en Sjálfstfl. En þó hygg ég að ekki sé nein flokksleg afstaða hjá Sjálfstfl. að vera á móti þessari till. þó að það hafi nú farið svo að enginn þm. Sjálfstfl. gerðist meðflytjandi till. Ég vil í því sambandi sérstaklega láta þess getið að hæstv. fjmrh. sem eins og kunnugt er er einn af forustumönnum sjálfstfl. og flytur þetta frv., var mjög eindregið hlynntur þessu máli þegar ég ræddi það við hann og sagðist hiklaust mundu styðja till. af þessu tagi. En hann taldi eðlilegra að till. kæmi annaðhvort frá nefndinni eða einstökum nm. eða einstökum þm. úr því sem komið væri. Hann sem sagt var því mjög hlynntur að frv. væri breytt í það horf sem hér er gerð till. um.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega taka það fram að ég tel ekki að þessi heimild, sem hér er gerð till. um, tengist endilega lífeyrisaldri. Það er miklu eðlilegra að líta svo á að hér sé um að ræða að verið sé að losa menn undan þeirri kvöð að greiða skatt af tekjum þegar verulegur tekjustallur myndast einu sinni á ævinni og það niður á við. Það er aðeins í eitt skipti sem menn fá að njóta þessarar heimildar og það er þegar verulegur tekjustallur myndast hjá þeim frá því að hafa haft miklar tekjur og yfir í það að hafa litlar tekjur. Þetta getur verið þegar menn hætta störfum. Það getur verið þegar menn komast á lífeyrisaldur, en það getur líka vel verið að þetta sé áður en menn komast í lífeyrisaldur og tengist ekki lífeyrisaldri að einu eða neinu leyti.

Ég vil bara nefna hér nokkur dæmi svo að menn átti sig á kjarna þessa máls. Við skulum hugsa okkur bónda sem er kennari eða skólastjóri og er þar af leiðandi í tvöföldu starfi. Hann er með verulegar launatekjur og tekjur af búi sínu, en getur að sjálfsögðu ekki til langframa stundað svo mikla vinnu sem þessu hvoru tveggja fylgir. Hann ákveður því, þegar hann er farinn að reskjast, að hætta kennarastarfinu, hætta því starfi sem hann gegnir við hliðina á búskapnum. Ef ekki er gerð sú breyting, sem hér er gerð till. um, er í raun og veru verið að segja við þessa menn: Þið verðið að gegna kennarastarfinu eða skólastjórastarfinu þangað til þið eruð orðnir 60 ára gamlir. Þá fyrst getið þið notið ávinningsins af efni þessa frv.

Við, sem flytjum till. leggjum til að hér sé slakað eilítið á, að efni frv. sé gert sveigjanlegra með því að menn geti notið þessa frá 55 ára aldri. Okkur finnst það meiri sanngirni og að það geti vel komið upp þau tilvik að menn þurfi á því að halda að sleppa við skatt vegna tekjustalls af þessu tagi jafnvel áður en þeir hafa náð 60 ára aldri. Auk þess sem það virðist ekki sérlega skynsamlegt í þjóðfélaginu að ýta á eftir mönnum með að gegna mjög miklum ábyrgðarstöðum sem vel eru launuð eða tvöföldu starfi ef þeir sjálfir hafa tilfinningu fyrir því að kraftarnir séu farnir að þverra og ástæða sé fyrir þá að draga eitthvað saman seglin, því að auðvitað er þá ákjósanlegra að yngri menn komist að, að yngri kynslóðin fái að taka til hendinni.

Við getum tekið annað dæmi. Við getum hugsað okkur iðnaðarmann hér á Reykjavíkursvæðinu sem er farinn að reskjast. Hann er í tvöföldu starfi, vinnur 80 tíma á viku hverri og hefur meginþorra tekna sinna af eftirvinnu og næturvinnu. En hann er í þessum sama vítahring og allir aðrir, sem í þessu lenda, að hann getur ekki hugsað sér að hætta að vinna svona mikið vegna þess að þá lendir hann í vandræðum með að borga skattinn. Ef frv. er samþykkt óbreytt er verið að segja við þennan mann: Ja, þú verður að hanga í allri þessari eftirvinnu eða næturvinnu alveg þangað til þú ert sextugur. En með því að gefa hér slaka er mönnum gert kleift að láta þennan tekjustall niður á við koma aðeins fyrr, t.d. á aldrinum 55–60 ára. Hann þarf þá ekki endilega, þegar hann er sextugur, að hætta algerlega að vinna. Þetta bið ég menn að athuga gaumgæfilega, að það er ekkert sem segir í frv., eins og það er nú, að menn hætti almennt að vinna þegar þeir hafa notað þessa heimild. Það gera þeir ekki endilega. Þeir halda sjálfsagt áfram að sinna ýmsum störfum. Og ef við lítum t.d. á iðnaðarmanninn, þá mundi hann hugsanlega vera í hálfu starfi, jafnvel heilu starfi með 40 tíma, en hann hefði hins vegar minnkað það verulega við sig tekjurnar að hann væri sennilega ekki lengur tekjuskattsskyldur. Þess vegna hefði hann fyrst og fremst haft not og gagn af þessari breytingu þegar tekjustallurinn stóri kom, þegar hann hætti algerlega að sinna eftirvinnu og næturvinnu.

Ég held að það hafi verið skynsamlegt að nefndin gerði brtt. um það að setja á þetta hámark, 1 millj. kr. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt að setja slíka takmörkun. En ég verð að viðurkenna að auðvitað hefði getað komið til greina að hafa á þessu einhverjar frekari takmarkanir, t.d. þær að það væru aðeins tekjurnar sem raunverulega féllu niður, sem væru skattlausar, en ekki allar tekjur mannsins á árinu. Svo að ég útskýri þetta betur getum við t.d. tekið bóndann og kennarann sem ég var að nefna áðan. Hann ætlar að hætta kennarastöðunni en halda áfram sem bóndi. Samkvæmt frv. sleppur hann við skatt af öllum tekjunum, bæði kennarastarfinu og tekjum sínum af búskapnum, jafnvel þótt hann haldi búskapnum áfram. Það má þess vegna velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að menn sleppi fyrst og fremst við skatt af þeim tekjum sem falla niður. Hann gæti sem sagt hugsanlega verið með meiri skattskyldar tekjur árið eftir að þessi heimild er notuð. En ég tel nú að þetta sé minni háttar atriði sem skipti ekki kannske öllu mál.

Þegar verið er að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum, þá er greinilegt að hér er fyrst og fremst um það að ræða að verið er að losa menn úr þeim vítahring, sem menn lenda í með sínar topptekjur, með kúfinn af sínum tekjum, að menn geti sem sagt minnkað verulega við sig tekjurnar án þess að fá á sig verulegan tekjuskatt sem menn geta ekki staðið undir. Með þessari brtt. er verið að skapa vissan sveigjanleika, sem ekki er fyrir hendi í frv., en um leið viðurkenni ég að það kynni að hafa verið eðlilegt að hafa vissar takmörkunarreglur eins og ég hef nú gert grein fyrir varðandi tekjurnar sem ekki falla niður. Eins hefði verið hugsanlegt að áskilja að þær tekjur, sem menn væru skattlausir af, hefðu verið hjá viðkomandi skattþegn undangengin ár, t.d. seinustu 5 ár áður en heimildin er notuð, þannig að ekki komi til þess að menn geti notið þessarar ívilnunar vegna einhverra skynditekna á einu ári, sem aldrei hafa verið hjá viðkomandi skattþegn fyrr en á þessu einstaka ári. Það hefði getað komið til greina að setja undir leka af þessu tagi. En eins og ég sagði hér áðan, þá tel ég að þetta skipti minna máli þegar haft er í huga að verið er að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum.

Hv. formaður fjh.- og viðskn. taldi það helsta ókostinn á brtt. sem við flytjum við frv. að menn gætu notað þetta í sviksamlegum tilgangi, t.d. með því að gera einhvern samning við atvinnurekandann um að hagræða framtalinu þannig að tekjurnar lentu fyrst og fremst á því ári sem um væri að ræða. En ég vil benda á að eins og frv. er almennt úr garði gert verður ekki komið í veg fyrir þetta. Það getur þá alveg eins gerst við 60 ára aldur eins og 55 ára aldur eða 57 ára aldur. Þetta eru ekki nein rök gegn till. sem við flytjum hér. Þetta getur alltaf gerst. Það má velta fyrir sér hvort ástæða væri til að reyna að setja undir leka af þessu tagi, eins og hv. þm. var að gera grein fyrir hér, en það verður ekki gert með því að fella brtt., því að hún kemur þessu atriði ekkert við.

Ég læt þá rökstuðningi fyrir þessari till. lokið. Vegna þess að hæstv. ráðh. er ekki hér nærstaddur vek ég athygli á því að hann lýsti yfir stuðningi sínum við þessa till. að okkur mörgum áheyrandi þegar málið var rætt við hann ekki alls fyrir löngu. Ég tel að þetta sé ekki neitt flokkspólitískt mál, eins og hv. formaður fjh.- og viðskn. tók reyndar réttilega fram, og ég vænti þess mjög eindregið að allra flokka menn treysti sér til að standa að samþykkt þessarar till.