10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

155. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég skal nú ekki blanda mér mjög mikið í þessa umr. Þó er nú e.t.v. ástæða til þess vegna þess að ég er meðflm. að þeirri brtt. sem hv. þm. Ragnar Arnalds hefur kynnt hér. Ég skal viðurkenna að þetta frv., sem flutt er af fjmrh. á fyrst og fremst við um það þegar maður telur sig láta af störfum. Ég vil þó minna á í þessu sambandi, og er ég þá að hluta til á öndverðum meiði við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, að ekki eru nú allir þeir sem láta af störfum alþm. og þar með á góðum biðlaunum. Það færist hygg ég æ meira í vöxt að menn vilja skipta um störf og stundum hefur það nú verið haft við orð að það væru síðustu forvöð á þessu aldursskeiði sem við tilgreinum í okkar brtt. Ég vil halda því fram að einmitt í þann mund sem menn eru að skipta um starf, leita fyrir sér um annað starf, geti tekjur þeirra dregist allverulega saman. Og þá getur verið, eins og ég vil halda fram, mjög notalegt að fá ekki skatt á tekjum síðasta árs. (EKJ: Það er afskaplega notalegt.) Já, en hér er nú aðeins um áfanga að ræða í því sambandi að leggja alfarið niður tekjuskattinn og hefðu þau skref mátt vera stærri að mínum dómi.

En ég vil færa fram þetta sem ég hef sagt sem rök fyrir því fyrst og fremst að ég er meðflm. að þessari till. Ég skal viðurkenna að þau tekjumörk sem fjh.- og viðskn. setur þykja mér nokkuð há. Ég mun hins vegar ekki gera um það ágreining en mér finnst tekjumörkin nokkuð há.

Ég ætla ekki að tala um þetta langt mál. Það er rétt sem fram hefur komið að e.t.v. hefði verið eðlilegast að þegar aðili telur sig láta af ákveðnu starfi og tilgreinir það, þá eigi frádrátturinn aðeins við um tekjur vegna þess starfs sem tilgreint er. Hitt er rétt, að það er ekkert sem segir fyrir um það í frv. að menn megi ekki út af fyrir sig starfa áfram. Og að því leyti rekst brtt. sem við flytjum í engu á við frv. eins og það var upphaflega flutt og eins og það liggur fyrir. (Gripið fram í.) Já, það eru allar tekjur skv. frv. Já, það hefur komið skýrt fram.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar. Ég geri fremur ráð fyrir því að brtt. verði samþykkt með vísan til þeirra raka sem komið hafa fram í þessu máli.