10.12.1984
Efri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

192. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég hef þegar óskað eftir því við formann stjórnarinnar að hann hefði samráð við aðra stjórnarmenn í Framkvæmdasjóði aldraðra og þeir kæmu sér saman um till. til fjvn. því að fjvn. óskaði eftir viðræðum við formann stjórnarinnar í gær. Í samtali mínu við hann í morgun óskaði ég eftir því að varðandi þau fimm verkefni sem væru núna fram undan á þessum lið — tvö held ég að séu búin að vera — yrði ekki um frekari framkvæmdir að ræða og þeir tækju það upp í sína till. Ég lagði áherslu á að þeirra till. yrði um 30 millj., en vildi ekki skipta mér af því hvernig það fé skiptist innbyrðis, heldur taldi ég rétt að sjóðstjórnin fjallaði um málið, en við tækjum enga ábyrgð á ráðstöfun á gjaldinu þó að þetta frv. yrði að lögum.

Ég vil til viðbótar þessu segja að frá því að þessi ákvæði komu inn í lögin um málefni aldraðra og voru þar með felld úr lögum um heilbrigðisþjónustu, þá hefur ekki verið staðið við þessi ákvæði frá hendi ríkisins. Ég legg áherslu á að það verði gert. Hér er aðallega um að ræða Borgarspítalann í Reykjavík og fjórar aðrar stofnanir á Austfjörðum, Suðurlandi og Norðurlandi. Meira get ég ekki sagt um þetta. Ég hef ekki nema eitt atkv. í Alþingi, en ég hef lagt áherslu á þetta við formann fjvn.