10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

138. mál, löggiltir endurskoðendur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 67 frá 1976 um löggilta endurskoðendur. Frv. þetta hefur fengið eðlilega meðferð í hv. Ed. Alþingis og kemur til l. umr. hér í þessari virðulegu deild. Með frv. þessu er lagt til að ákvæði laga er takmarka heimild til að endurtaka verkleg próf til löggildingar í endurskoðun verði rýmkuð, en samkv. núgildandi ákvæðum er engum heimilt að endurtaka próf þessi nema einu sinni.

Reynslan hefur sýnt að erfitt er að standast þessi próf og komið hefur fyrir að prófmenn hafa fallið tvívegis og þar með endanlega fyrirgert rétti sínum til að taka prófið. Samkv. núgildandi reglu þurfa menn að hafa löggilt próf frá viðskiptadeild Háskóla Íslands með endurskoðun sem kjörsvið, auk þess að hafa starfað í þrjú ár að endurskoðun undir stjórn löggilts endurskoðanda til að mega þreyta prófin. Það er því viðurhlutamikið að koma í veg fyrir að mönnum gefist tækifæri til að sanna þekkingu sína með endurtekningu prófs þar sem þeir hafa þá þegar tíu ár að baki í námi til að öðlast réttindi sem löggiltir endurskoðendur.

Einnig er á það að benda að skilyrði til endurtöku prófa í Háskóla Íslands eru rýmri en til umræddra endurtöku verklegs prófs í endurskoðun samkv. núgildandi ákvæðum. g tel þessa breytingu sjálfsagða réttlætiskröfu og sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um hana. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. og legg áherslu á að afgreiðslu þessari verði hraðað sem kostur er, þar eð löggildingarpróf eru fyrirhuguð í desembermánuði.