10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Þessar umr. hafa nú farið svolítið út fyrir það sem frv. það sem hér er á dagskrá gefur tilefni til.

En þegar menn vaða svona vítt og breitt þá vilja þeir kannske taka dýpra í árinni en þeir sjálfir hugsa sér þegar þeir standa upp og hefja sitt mál. Ég vil t.d. leiðrétta það sem kom fram áðan hjá hv. 5. þm. Reykv. Þegar hans ágæta flokkssystir, virðulegur þm. Jóhanna Sigurðardóttir, kom með þá till. að auka eftirlit með skattsvikum og reyna að finna þá sem þar gerast brotlegir þá var ég einn þeirra sem tóku undir þá till. Það hefði gjarnan mátt koma fram að það var ekki bara sá virðulegi þm. sem flutti till. og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sem þetta studdu, það voru fleiri. Og þess vegna var sú till. samþykkt.

Ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni skoðanir manna úti í bæ, hversu vel lærðir og lesnir sem þeir kunna að vera í sínum fræðum, en virðulegur 5. þm. Reykv. vitnaði hér til orða hagfræðings Vinnuveitendasambandsins. Það vill nefnilega oft verða svo með sprenglærða unga menn að þegar þeir koma inn á vinnumarkaðinn í fyrsta sinn eru þeir stútfullir af alls konar meiningum og fullyrðingum. Sumir þeirra hafa jafnvel gengið svo langt að þeir hafa sagt: Lært hagfræði til hvers? Til þess eins að verða forsrh. En lífið gengur bara ekki svona fyrir sig. Það er álíka langt frá því að þessir menn geti haft rétt fyrir sér í öllum efnum eins og það hlýtur að vera rangt að sumir hagfræðingar, sem sérstaklega hafa lagt það fyrir sig að læra til að verða forsrh., verði nokkurn tíma forsrh.

Leið mín til fjármálaráðherrastarfa hefur ekki verið í gegnum menntakerfi þjóðarinnar. Hún hefur verið grýttari en það og alls ekki á námslánum, langt frá því. Við skulum tala saman á því tungumáli ef virðulegur þm. kann það tungumál almennings. En að leyfa sér að halda því fram hér á hv. Alþingi að færustu skattasérfræðingar þjóðarinnar séu í þjónustu skattsvikara og þar af leiðandi verði kannske erfitt að ná til þeirra, það er stóralvarlegt mál. Ég hef allt aðra skoðun. Og ég er furðu lostinn að maður, sem ætlar sér og hefur lært til þess að leiða þjóðina sérstaklega, sá eini sem ég veit til að hefur sérstaklega lagt fyrir sig háskólanám til þess að leiða þjóðina frá því böli sem þessi ríkisstj. og allar aðrar hafa leitt hana í, hann skuli leyfa sér að taka sín fyrstu skref á þennan hátt. Það er vont að misstíga sig áður en menn leggja af stað í langferðina, meðan þeir eru að hita sig upp. Það verður ekkert úr ferðalaginu þegar slík endaleysa er viðhöfð.

Ég hef mikla samúð með öllum þeim sem eru í sporum þessa Vestmannaeyings. (JBH: Fólk er ekki að biðja um samúð.) Ég hef mikla samúð með þeim sem eiga bágt. (JBH: Fólk er að biðja um réttlæti, ekki samúð.) Og ég vil gjarnan fá frekari upplýsingar en hér komu fram í ræðustól ef hv. þm. ætlast til þess að ég sem fjmrh. reyni að grípa eitthvað þarna inn í. Mér er það ljúft. En til þess þarf ég að fá upplýsingarnar allar en ekki fullyrðingar í ræðustól. Þá skulum við sjá hvort við getum tekið höndum saman og lagfært það sem aflaga hefur farið, nema það sé eðlileg skýring á því að þessi maður hafi lágar tekjur.

Virðulegur þm. er forustumaður eins af þjóðflokkunum. Hann hefur fengið að fylgjast með á þriggja mánaða fresti gangi mála hjá ríkissjóði. Það hefur aldrei verið gert áður. Hann hefur fengið að fylgjast með niðurskurði við gerð fjárlaga fyrir árið 1984. Hann hefur fengið að fylgjast með endurskoðun sem vakti alþjóðarathygli og allir voru orðnir löngu leiðir á. En þegar upp var staðið sýndi það sig að sú aðgerð var réttlætanleg og þar átti sér stað niðurskurður sambærilegur við það sem varð þegar fjárlög voru gerð fyrir árið 1984. Hann hefur fengið að fylgjast með uppgjöri ríkissjóðs á þriggja mánaða fresti eins og ég gat um og hefur fylgst þar með niðurskurðinum. Það er nefnilega alveg rétt sem virðulegur formaður Alþfl. sagði hér að Alþfl. hefur gefið svar. Alþfl. er að gefa svar við öllu mögulegu. Á hverjum einasta þingfundi. Fólkið verður bara ekki satt af orðum. Alþfl. gerir ekkert annað en tala. Þess vegna er Alþfl. brotabrot af því sem hann var og stefnir í að verða ekki neitt þegar loftbólan springur.

Ég er með sjálfum mér viss um að huldumaðurinn sem virðulegur formaður Alþfl. vitnaði til og skrifað var um og það hlýtur að hafa verið í fjölbreyttasta blaði landsins vegna þess, eins og hann tók fram, að það var málgagn 1. þm. Suðurl. (JBH: Nei, málgagn forsrh.) Málgagn forsrh. Það er ekki fjölbreyttasta blað landsins, það skal ég viðurkenna. En mér er næst að halda og taktu nú eftir, virðulegur formaður Alþfl. að huldumaðurinn sé flokksbundinn Alþfl.-maður. Ég get ekki ímyndað mér hann í neinum öðrum flokki. Þetta er mín skoðun, svo líttu þér nær, kæri vinur, þegar þú leitar að vandamálinu ef þú vilt leysa það á annað borð.