10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að þegar við erum að ræða þessi mál, sem hæstv. fjmrh. vill greinilega helst ekki ræða, eru borin á borð þm. tvö frv. Annað þeirra er 214. mál Nd., frv. til l. um breytingu á lögum nr. 10 22. mars 1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Það frv. gerir ráð fyrir að hækka söluskattinn um 1/2 prósentustig. Þar með er skattalækkunin, sem hæstv. ríkisstj. er núna að beita sér fyrir uppi í Ed., í raun og veru ekki skattalækkun, heldur skattaskipti vegna þess að á móti skattbreytingunni kemur söluskattshækkun og auk þess aðrar hækkanir á gjöldum til ríkissjóðs eins og hækkanir á tekjum af áfengi og tóbaki. Á sama tíma er svo borið á borð þm. frv. til l. um virðisaukaskatt.

Vegna þess að þetta hefur í rauninni hvort tveggja verið hér til nokkurrar umr. og vegna ummæla hv. 5. þm. Reykv. um söluskattinn og spurninguna um hvort á að leggja hann á matvöru eða ekki vil ég endurtaka þá skoðun mína að ég er andvígur því að leggja söluskatt á matvöru og ég er ekki þeirrar skoðunar að virðisaukaskattur leysi allan vanda. Ég hef fyrirvara við virðisaukaskatt og hef alltaf haft af tveimur ástæðum. Sú fyrri er að virðisaukaskattur hækkar verð á matvörum, eins og gert er ráð fyrir í frv. hæstv. ríkisstj., um 18–19%. Meðan verð á öllum öðrum vöruflokkum lækkar lítillega hækka matvörurnar um 18–19%. Hérna er ekki spurning um hvort verið er að beina neyslu fólks að einhverjum ákveðnum vöruflokki frekar en öðrum. Hér er einfaldlega um að ræða þann vöruflokk sem fólk neyðist til að kaupa hvort sem því líkar betur eða verr, matvörur. Þess vegna held ég að virðisaukaskattur sé ekki með þeim hætti að eðlilegt sé að taka undir það að hann verði lagður á og ég hef verið andvígur því að hann yrði lagður á af því að hann hækkaði matvörur um 1/5.

Á hinn bóginn væri fróðlegt að velta því fyrir sér hvað þetta virðisaukaskattskerfi kostar í skriffinnsku. Ég sé það ekki í frv. ríkisstj., og verður það vonandi rætt seinna þegar það kemur frekar til meðferðar, að áætlað sé hvað þetta kerfi kostar. Þetta kerfi er rándýrt. Það er gífurleg skriffinnska sem fylgir virðisaukaskattskerfinu. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að full ástæða sé til að setja spurningarmerki við þetta kerfi þó að embættismenn telji þetta kerfi endilega betra en söluskattskerfið. Það er vegna þess að það er, eins og það heitir á embættismáli, skilvirkara, greiðara og gagnsærra. En það er dýrt í framkvæmd. Það er mjög dýrt í framkvæmd.

Ég held þess vegna að það sé enginn sjálfgefinn hlutur að virðisaukaskattur leysi hér allan vanda og það vildi ég láta koma fram sem mitt sjónarmið. Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn, af þessum tveimur ástæðum sem ég rakti og þó ekki síst og sérstaklega þeirri að með þessu móti yrði stórkostlega hækkað verð á matvörum.

Hæstv. fjmrh. sagði í fyrri ræðu sinni hér í dag: Það á að gefa mönnum kost á að standa við kosningaloforðin sín. Það er kjarni málsins. Þessar skattahækkunartill., sem hann er hér með, eru mjög sérkennilegar efndir á þeim kosningaloforðum sem hann gaf. Það verður vafalaust tími til þess á þeim dögum sem eftir lifa fram að þinghléi að rifja upp kosningaloforð hæstv. fjmrh. um skattalækkanir og rifja það svo upp hvernig hann hefur lækkað skatta á fyrirtækjum og stóreignaaðilum í þjóðfélaginu, en hækkað skatta á hinum almennu launamönnum og hækkað skatta á neyslu stórkostlega eins og hann er hér að gera tillögu um. Það verður tími til að rifja þau kosningaloforð upp og fara yfir það með honum hvernig hann bregst þeim loforðum með því að knýja sjálfstfl., að því er mér skilst hálfnauðugan, til þess að samþykkja þetta hálfa prósent í söluskatti.

Hann vildi fyrst ekki kannast við að hann hefði gert till., samkvæmt blaðafréttum, um 1/2% söluskattshækkun og benti á að það væru aðrir sem hefðu aðallega komið fram með þá till. Framsfl. samþykkti auðvitað till. strax. Hv. 1. þm. Suðurl. lét það koma fram í blaðavíðtali þegar rætt var um þetta. Það er ekki mitt mál, sagði hv. þm. orðrétt. Það er ekki hans mál hvernig ríkissjóður stendur. Hann segir sig frá ríkissjóði. Það er kannske út af stólasportinu. En af hverju sem það nú stafar er niðurstaðan sú að hæstv. fjmrh. hefur keyrt í gegnum sinn flokk skattahækkun þvert á þau fyrirheit sem hann gaf kjósendum fyrir síðustu kosningar. Það er kjarni málsins sem hér liggur fyrir.

Ég endurtek þá þær fsp. sem ég bar fram áðan um skattfrelsi peninga sem lagðir eru í fyrirtæki. Hæstv. ráðh. sagði að ekki væri hægt að svara spurningunum fyrir áramót. Það er í rauninni allt í lagi. Frv. sem hér er verið að breyta var afgreitt í apríl í vetur. Það liggur því ekkert á að afgreiða þetta mál fyrir áramót og þess vegna eðlilegt að bíða eftir því þangað til upplýsingar liggja fyrir að frv. verði afgreitt þó það verði ekki fyrr en í febr. eða mars, en þá ætti fjmrn. að hafa þessar upplýsingar sem bent var á á síðasta þingi að það yrði krafið um.