10.12.1984
Neðri deild: 21. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 245 sem er álit frá 2. minni hl. sjútvn, um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 23. júlí 1974, um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Ég vil leyfa mér að lesa þetta álit, með leyfi forseta:

„Í frv. þessu er tvennt á ferðinni. Annars vegar er lagt til að nýtt fiskverð verði ákveðið frá 21. nóv. 1984 þótt yfirstandandi verðlagstímabili sé ekki lokið. Hins vegar er ákveðið að nýtt fiskverð skuli gilda til 31. ágúst 1985 í stað 1. júní 1985 eins og orðið hefði ef venjuleg vinnubrögð við fiskverðsákvörðun hefðu verið viðhöfð.

Fyrra atriðið, þ.e. að opna fiskverð nú þegar, er góðra gjalda vert með tilliti til mikilla kauphækkana í landi. Hins vegar er ljóst að þessi aðgerð út af fyrir sig breytir kjörum sjómanna óverulega því að þeir eiga einungis örfáa hundraðshluta óveidda af ársafla sínum. Einnig má telja líklegt að talsverður hluti þessa afla verði seldur erlendis á verði sem er alls óháð Verðlagsráði.

Um síðara atriðið, þ.e. lengingu gildistíma, er ýmislegt að segja.

Í fyrsta lagi er það ekki í samræmi við starfsreglur Verðlagsráðs sem mundi vafalaust hafa ákveðið nýtt fiskverð til 1. júní n.k. skv. venju.

Í öðru lagi bindur ákvæðið kjör sjómanna mörgum mánuðum lengur en verið hefði með gildistíma til 1. júní n.k. og möguleika á uppsögn í mars eða apríl.

Loks er þetta ákvæði lýsandi dæmi um afskiptasemi löggjafans af kjarasamningum. Sjálfstfl. rifjar upp öðru hvoru að þessi afskipti séu röng og við sérstök tækifæri telur hann þau jafnvel af hinu illa. Núv. ríkisstj. hefur lýst þessu sama viðhorfi. Engu að síður eru með þessu frv. lögð til aukin afskipti löggjafans af atvinnugrein sem þegar hefur lítið olnbogarými til eigin frumkvæðis.

Bandalag jafnaðarmanna hefur fyrir löngu lýst sig andvígt þessum vinnubrögðum. Fiskverðsákvörðun af þessu tagi gerir ráð fyrir meðaltalsafkomu í greininni í heild, afkomu sem ekki er til staðar hjá einstökum rekstarareiningum. Fiskverðsákvörðun af þessu tagi ákveður lágmarksverð sem notað er til að reikna laun sjómanna, en yfirborganir á fiskverðið, sem eru taldar mjög algengar, skila sér sjaldnast til þeirra.

Bandalag jafnaðarmanna hafnar þessum vinnubrögðum en telur að ákvörðun fiskverðs og launa eigi að vera án afskipta ríkisvalds og á ábyrgð samningsaðila sjálfra.

Undirritaður er því andvígur þeirri afskiptasemi löggjafans sem þetta frv. er hluti af og mun því ekki greiða því atkv. Hins vegar má telja að við núverandi kerfi verði endurskoðun fiskverðs frá 21. nóv. s.l. einhverjum hluta sjómanna til hagsbóta. Undirritaður vill ekki standa gegn því að launafólk njóti þeirra kjara sem því er unnt og mun því sitja hjá við atkvgr.“

Í þessu nál. koma raunar fram flest þau atriði sem ég vildi gera að umtalsefni í sambandi við þessa afgreiðslu. Það sem er þarna á ferðinni er það sem einkennir á vissan hátt okkar efnahagslíf og efnahagsstjórn.

Það er í fyrsta lagi þátttaka ríkisins í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þar með verður ríkið ábyrgðaraðili að þessum samningum. Um þetta höfum við séð fjöldamörg dæmi.

Í öðru lagi er samið um þessa hluti í stórum samflotum þar sem ekki er tekið tillit til afkomu einstakra rekstrareininga og þannig fara launþegar jafnvel á mis við að geta notið hagstæðrar útkomu hjá einstökum fyrirtækjum og rekstrareiningum.

Í þriðja lagi eru allar þessar stóru heildarákvarðanir um verðlag og laun teknar út frá meðaltölum um afkomu heilla greina. Eins og oft hefur verið gert hér að umtalsefni eru þessi meðaltöl einskis nýt. Þau eru ágæt til að gefa ákveðnar hugmyndir um afkomu og almennar hugmyndir um stöðu. En þau eru algerlega einskis nýt til að vera ákvörðunartæki um launasamninga eða verðlag. Þetta er svipað því og á Landspítalanum í Reykjavík væri tekið meðalhitastig sjúklinga á öllum spítalanum á hverjum morgni og það síðan notað til að ákvarða sjúkdómsmeðferð hjá hverjum og einum sjúklingi. Þess vegna lýsi ég mig andvígan því að svona verðlagsfyrirkomulag sé viðhaft. Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli. Þetta hefur áhrif á hvernig allt okkar efnahagslíf vinnur.

Þetta eru þau atriði sem skipta máli, einn lítill angi af þessari aðferðafræði, af þessu kerfi. Ég vil ekki láta það fara fram hjá mér án þess að lýsa hinum almennu efasemdum og hinni almennu andstöðu sem við höfum við afgreiðslur af þessu tagi.

Eins og ég lýsi í minnihlutaálitinu vill þannig til að það má ætla að upptaka fiskverðs frá 21. nóv. s. l gæti orðið einhverjum hluta sjómanna til hagsbóta. Ég vil þess vegna ekki standa á móti því að svo verði. Það kom fram á fundi í nefndinni, þar sem voru mættir fulltrúar sjómanna, að þeir töldu þetta hafa óveruleg áhrif á afkomu vegna þess að einungis örfá prósent af ársafla væru óveidd og að talsverður hluti þessa afla yrði seldur erlendis og þá skipti engu máli hvaða ákvarðanir verðlagsráð á Íslandi hefði tekið þar um. Mér finnst hins vegar skjóta skökku við að nota þetta tilefni, sem menn vilja kannske kalla að sumu leyti lítilfjörlegt, til þess að lengja verðtímabil svo verulega sem gert er í þessu frv. og mér finnst þess vegna farið rangt að. Að því leyti get ég lýst mig samþykkan þeim anda, sem er í brtt. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og Karvels Pálmasonar, að óþarfi sé að nota þetta tilefni, þ.e. að taka fiskverðið upp núna, til þess að lengja verðlagstímabil svo mánuðum skiptir.