10.12.1984
Neðri deild: 22. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég skal fúslega hafa í huga aðvörunarorð forseta um hvað tímanum líður og þau óþægindi sem menn kunna að hljóta af því að þurfa að brjóta þetta mál til mergjar.

Það er býsna margt sem hefur lag á því að koma á óvart á hv. Alþingi. Ég hélt raunar að hv. þm. Sjálfstfl. leiddist að þurfa að samþykkja það frv. sem hér er til umr. Ég hélt að það þyrfti að teyma þá hingað trega vegna þess að auðvitað er þetta frv., eins og ég lýsti við 2. umr., bara hluti af þeirri spennitreyju ríkisvaldsins sem sjávarútveginum er haldið í og í þessu frv. er enn einu sinni strekkt ofurlítið á einu beltinu í treyjunni, þ.e. að lengdur er gildistími fiskverðs sem ákveðið er af ríkisvaldinu. Ég hélt að hv. þm. Sjálfstfl. væri tregt tungu að hræra um þetta mál, en það kemur annað í ljós. Við fyrsta tækifæri kemur hér upp að því er virðist harðánægður þm. Sjálfstfl. og veitist næstum að mönnum sem hafa leyft sér að efast um þann vott sem hér birtist um blinda forsjárhyggju ríkisvaldsins og ítök í atvinnumálum.

Ef við lítum á sjávarútveginn í nokkrum einföldum pensildráttum er augljóst hvernig til er stofnað hvað varðar grundvallaratvinnutæki sem þar eru, þ.e. skip og fiskverkunarhús. Þar er skammtað og sumum þykir skammtað naumt af ríkisvaldinu og einstaklingar og frjáls samtök þeirra hafa þar lítið olnbogarými og framtak þeirra hefur þótt eiga við ramman reip að draga, a.m.k. að mati sumra sjálfstæðismanna. Þannig er hvað snertir atvinnutækin heldur stirðlega haldið á fjármunum og ekki beinlínis ýtt undir framtak einstaklinganna á því sviði.

Ef menn á annað borð komast á sjó er það ríkisvaldið sem metur það sem upp úr skipunum kemur og sama ríkisvald metur það sem út úr fiskverkunarhúsunum kemur. Þar eru ríkisstarfsmenn sem fylgja eftir hverjum fiski. Þetta er næstum því eins og gjörgæsludeild á sjúkrahúsi. Ekki er treyst hinum dugmiklu hetjum einkaframtaksins, heldur er ríkivaldið með smásjána opna og fylgist þar með hverju handbragði. Þessi smásjárskoðun á öllu því sem upp úr skipum og út úr fiskverkunarhúsum manna kemur kostar líklega í fjárlögum núna um 50 millj. kr.

Það er ekki nóg að ríkisvaldið hlutist á þennan hátt til um afhafnafrelsi manna og efist um heiðarleik þeirra, heldur heldur það áfram og skammtar þeim hvað þeir mega veiða mikið. Þeim er skammtað nákvæmlega með kvóta hvað þeir mega veiða, hvaða tegundir og hversu mikið af hverri. Um það gilda strangar reglur og það er stýft úr hnefa af hálfu ríkisvaldsins eina ferðina enn hvað skipið sem ríkisvaldið lét í té fær að veiða mikið.

Ef mönnum tekst nú á þessu ríkisrekna skipi og í þessu ríkisrekna húsi og frammi fyrir þessu ríkisrekna gæðamati að koma einhverjum afurðum í verð er það sama ríkisvaldið sem ræður því hversu mikið þeir fá fyrir þær. Það stendur að því á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi leggur þetta ríkisvald fram ýmiss konar meðaltalsútreikninga þar sem tekið er meðaltal af afkomu allra skipa og allra fiskverkunarhúsa í landinu og síðan eru búnar til einhverjar almennar forsendur sem menn eiga að reka húsin sín eftir. Í öðru lagi ákveður þetta sama ríkisvald gengið og hefur þar með áhrif á hversu mikið kemur inn fyrir afurðir og í öðru lagi áhrif á skuldastöðu frjálsræðishetjanna góðu. Með þessi vopn, meðaltalsútreikningana og gengið, ákveður ríkisvaldið verðið á afurðunum upp úr skipi og út úr húsi. Hvað skyldu nú hinar heilögu pergamentsrúllur Sjálfstfl. segja um það olnbogarými sem þessum atvinnurekstri er búið á þennan hátt? Hvað er þm. Sjálfstfl. efst í huga þegar þeir ganga til atkvgr. um frv. sem ef eitthvað er herðir á þessari spennitreyju með því að lengja gildistíma lagaíhlutunar um einn þáttinn, þ.e. fiskverðið? Og hvað skyldu sjálfstæðismenn, ungir og gamlir, núverandi og aðrir sem eru gengnir, segja um svona frelsi og svona framtak?

Í ljósi þessara staðreynda, til að gera langt mál stutt, undraðist ég mjög að hv. þm. Halldór Blöndal skyldi koma hér upp í ræðustól og hafa þau orð sem hann hafði vegna þess að einhverjir þm. — kannske af ólíkum hvötum en þó talsvert margir — höfðu um það verulegar efasemdir að hér væri rétt á haldið og að menn væru hér á réttri braut.

Ég gæti haldið áfram að reifa það lengi hvernig ríkisvaldið skammtar mönnum þarna. Hér hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson farið yfir olíuverðið og skattheimtu í sambandi við það. Það má nefna dæmi sem liggja svolítið fjær. Það má t.d. nefna dæmi um hvernig staðið hefur verið að rannsóknum og útfærslu nýrra möguleika af hálfu ríkisvaldsins í sambandi við sjávarútveg. Það er t.d. spurning um það hvernig menn muni bregðast við hugsanlegri hnignun frystiiðnaðarins á næstu árum af markaðslegum forsendum. Allt þetta væri vert að tala um í þessari umr., en ég mun ekki gera það til að lengja hana ekki um of. Það væri líka hægt að fara nánar út í hin einstöku atriði sem ég taldi upp áðan, fara t.d. nánar út í kvótann. Okkur gefst þó til þess tækifæri síðar.

Mín heildarniðurstaða af því að skoða þetta í fljótu bragði er sú að öll þessi umsvif og Allir þessir fjötrar á sjávarútveginum séu ekki beinlínis í samræmi við pergamentsrúllu Sjálfstfl. Þess vegna undrar mig mjög að þm. Sjálfstfl. skuli ekki vera teymdir tregir til þessarar atkvgr., heldur komi til hennar glaðklakkalegir.