11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að fyrir síðustu alþingiskosningar lýsti Kvennalistinn því yfir að hann styddi það að til stóriðjurekstrar yrði stofnað á Húsavík, stóriðjuvers sem að flestra mati skapar meiri mengun en álver. Á ég þá við trjákvoðuverksmiðju á Húsavík. Það er því í miklu ósamræmi við það sem fyrirspyrjandi sagði hér áðan. Hins vegar hefur það komið fram í þessu máli nú sem oftar að fulltrúar Kvennalistans líta atvinnumálin í Eyjafirði öðrum augum heldur en víða annars staðar á landinu. Er kannske ekki annars að vænta af fulltrúum hans hér, sem eru fulltrúar Stór-Reykjavíkursvæðisins, en mikill þrýstingur er á það einmitt frá þessu svæði að gera uppbyggingu álvers við Eyjafjörð tortryggilega.

Ég vil líka segja það út af ummælum hv. fyrirspyrjanda hér áðan að það er síður en svo að fulltrúar Kvennalistans í bæjarstjórn Akureyrar hafi verið þess hvetjandi eða reynt að greiða fyrir því að iðnfyrirtæki fengju að rísa þar upp. Þvert á móti hafa fyrirtæki, sem beðið hafa um lóðir hjá Akureyrarbæ, orðið að bíða mánuðum og misserum saman eftir afgreiðslu. Þess eru jafnvel dæmi að fyrirtæki hafi orðið að flýja úr bænum vegna þeirrar fjandsamlegu stefnu sem einkaframtakið hefur sætt hjá þeirri bæjarstjórn sem nú er á Akureyri. Ekki þó öllum bæjarstjórnarmönnum, ég tek það skýrt fram. Ýmsir einstakir menn úr Framsfl. eiga þar aðra sögu, en þeim hefur ekki gengið sem skyldi að koma þeim málum fram þar sem snerta atvinnuvegina þótt þeir hefðu vissulega viljað.

Ég vil einnig taka það fram varðandi ræðu síðasta hv. ræðumanns að fyrir liggur að Alþb. er þess fýsandi að til stóriðjurekstrar verði stofnað við Húsavík og gefur það nokkra mynd af þessu máli. Ég vil á hinn bóginn leggja áherslu á að Akureyrarsvæðið er þýðingarmesta iðnaðarsvæði utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Þeir menn sem mest hafa hugleitt hvernig unnt sé að efla byggðirnar á því svæði með jákvæðum hætti geta ekki hugsað sér að setja fyrir fram mínusmerki við einhverja eina eða aðra grein atvinnurekstrar. Þvert á móti segja allir ábyrgir menn norður þar að huga verði að öllum kostum sem í boði eru, að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að sá atvinnurekstur sem upp rís skaði ekki náttúrufar í Eyjafirði.