11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar að þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið við fsp. á þskj. 74 varðandi álver við Eyjafjörð. Það kom fram í máli hans að allnokkuð hefur verið unnið þarna að rannsóknum. Það er auðvitað þýðingarmikill undanfari þess sem hægt er að gera varðandi atvinnuuppbyggingu á þessu svæði.

Við þm. Norðurlandskjördæmis eystra vitum að alloft hefur verið.haft samband við okkur, ekki síst einmitt frá Akureyri og nágrenni, og við beðnir um liðsinni í ýmiss konar erfiðleikum varðandi atvinnumálin þar á undanförnum árum. Þar hefur verið nokkur brestur, eins og því miður víðar á landsbyggðinni og fólksflutningar hafa átt sér stað frá þessu svæði hingað suður á Stór-Reykjavíkursvæðið og suðvesturhornið. Það er auðvitað alvarlegt ástand sem við ættum að hyggja að betur en okkur hefur því miður tekist að undanförnu. Ég ræddi það lítils háttar í ræðu minni um fjárlagafrv. á dögunum og ætla ekki að fara fleiri orðum um það að sinni.

Ég vildi hins vegar taka undir það, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh., að auðvitað er nauðsynlegt að huga mjög vel að öllum umhverfismálum varðandi slíkt iðjuver, sem hér er til umr., og gæta þess að spilla ekki dýrmætum náttúruauðlindum eða fórna óbætanlegum verðmætum. Við verðum hins vegar, eins og ástandið er, að skoða alla kosti sem kunna að vera mögulegir. Ég held að það sé algerlega óábyrgt að gefa sér ekki tíma, tóm og tækifæri til þess.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa hér örstutt upp úr ályktun kjördæmisþings framsóknarmanna á Norðurl. e. sem haldið var að Hrafnagili í Eyjafirði haustið 1983. Eins og segir í fundargerðinni var borin upp og samþykkt einróma svohljóðandi ályktun um orkufrekan iðnað:

„Samhliða annarri atvinnuuppbyggingu verður að stefna markvisst að hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins. Ljóst er að staðarval orkuiðnaðar mun hafa afgerandi áhrif á byggðajafnvægi. Þingið skorar á stjórnvöld að hraða svo sem kostur er nauðsynlegum rannsóknum vegna hugsanlegrar byggingar álvers við Eyjafjörð. Verði talið öruggt að lífríki Eyjafjarðar verði ekki hætta búin og takist að tryggja hagkvæmt orkuverð styður þingið byggingu slíks álvers við Eyjafjörð. Þá leggur þingið áherslu á uppbyggingu smærri iðnaðar víðar í kjördæminu og minnir sérstaklega á Húsavík í því sambandi.“

Í lokin er aðeins nefnt annað svæði á Norðurl. e., þ.e. Húsavík og umhverfið þar. Í því sambandi langar mig líka að minna á það, og ef ég mætti við þetta tækifæri biðja hæstv. iðnrh. að segja nokkur orð um það, að bæjarstjórn Húsavíkur hefur nýlega skrifað iðnrn. þar sem óskað hefur verið eftir því að sérstök athugun verði látin fara fram á möguleikum Húsavíkur og Húsavíkursvæðisins varðandi orkufrekan iðnað. Það var allnokkuð rannsakað meðan uppi voru hugmyndir um, ef unnt væri fjárhagslega og talið hagkvæmt, að reisa þar trjákvoðuverksmiðju. Nú hafa Húsvíkingar óskað eftir því að þessi mál verði athuguð nánar og þá jafnframt hvort kæmi til greina á því svæði, í nágrenni Húsavíkur, að reist yrði iðjuver sem e.t.v. hefði á að skipa möguleikum fyrir fleiri vinnandi hendur en þó var hugsað með trjákvoðuverksmiðjunni sem hefur verið mikið athuguð á undanförnum árum.

Ef ég mætti biðja hæstv. iðnrh. að segja nokkur orð um þetta, ef hann hefur það á takteinum, hefði mig langað til að heyra þau, en vil að lokum aðeins ítreka það sjónarmið mitt að ég tel að nauðsynlegt sé að hyggja að öllum kostum til atvinnuuppbyggingar eins og ástandið er úti um land, skoða þá án hleypidóma og gefa sér tíma til að gera það á raunhæfan hátt. Okkur veitir sannarlega ekki af til þess að treysta byggð sem víðast. Þetta álít ég að sé liður í því.