11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér hafði borist til eyrna að hv. þm. Eiður Guðnason hafi oftar en einu sinni í Ed., þar sem ég á ekki sæti, vitnað til umr. sem fram fór í Sþ. á síðasta þingi um fríiðnaðarsvæði í Keflavík og fullyrt að orð mín í þeim umr. staðfestu að við kvennalistakonur værum yfirleitt á móti öllum iðnaði. Ég mótmælti þessum skilningi þá, í þeim umr., og ég mótmæli honum aftur hér og nú. Ég vil í fullri vinsemd biðja hv. þm. að lesa þær umr. aftur og athuga hvort hann getur ekki metið orð mín upp á nýtt. Geti það ekki skýrt fyrir honum málið sé ég ekki að neitt fái breytt áliti hans á framgöngu okkar kvennalistakvenna og því sem við höfum yfirleitt fram að færa, sem því miður virðist af einhverjum ástæðum alloft koma hv. þm. úr jafnvægi.

Um atvinnustefnu Kvennalistans mætti margt segja sem tveggja mínútna ræðutími leyfir reyndar ekki. En ég vil þó minna á þá skoðun okkar, sem oft og víða hefur komið fram, að undirstaða atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar í atvinnulífinu sé efling menntunar og rannsóknarstarfsemi. Ég hef ástæðu til að ætla að hv. þm. Eiður Guðnason, og raunar miklu fleiri, sé okkur sammála í því.