16.10.1984
Sameinað þing: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur ekki verið um annað meira rætt bæði hér í sölum hins háa Alþingis og víðar í þjóðfélaginu en að grípa þurfi til aðgerða til að fyrirbyggja, koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu sem hefur vaxið mjög mikið hér á landi eins og í okkar nágrannalöndum á undanförnum árum.

Vegna þeirrar till. sem hér liggur fyrir tel ég eðlilegt að það komi fram að við Dalbraut í Reykjavík starfar barnageðdeild sem hefur eftir megni reynt að sinna útköllum sem verða vegna ungra fíkniefnaneytenda. Því miður er starfslið þar fáskipað og hvergi nærri nógu mikið til að koma til móts við þær þarfir sem uppi eru varðandi fíkniefnaneyslu unglinga, sérstaklega þess hóps sem hvergi á höfði sínu að halla, hins stóra hóps útilegufólks sem fer vaxandi meðal yngri kynslóðarinnar.

Ég kemst þó ekki hjá því að segja það hér að ákveðið hefur verið af stjórnarnefnd ríkisspítalanna — og er ekki ný ákvörðun — að stefna að því að koma upp geðdeild fyrir unglinga, unglingageðdeild. Eftir að geðdeildir ríkisspítala lögðu niður rekstur að Úlfarsá í Mosfellssveit hafa verið teknar upp viðræður við borgaryfirvöld um makaskipti á Úlfarsá og því húsnæði að Dalbraut sem ríkisspítalar nota ekki en er talsvert stærri hluti hússins en sá sem nú er notaður af barnageðdeildinni. Þessu hefur verið lýst í áætlunum ríkisspítala, ekki eingöngu fyrir næsta ár heldur hefur þessi till. komið fram áður. En eins og oft strandar á fjármagni. Þó virðast vera meiri möguleikar nú en oft áður að eitthvað geti gerst í málinu, einkum og sér í lagi ef samningar takast við Reykjavíkurborg. En ég tek fram að þeir eru ekki hafnir, þetta mál hefur aðeins verið kynnt og umræður eru að byrja.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það eru fyrirbyggjandi aðgerðir sem skipta mestu máli. Það er misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni að þessi till. fjalli um það þótt hann læsi úr grg. till. Þessi till. fjallar um þjónustu fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára innan stofnana en fjallar ekki um fyrirbyggjandi aðgerðir. Ég er alls ekki að gera lítið úr því starfi sem þarf að vinna innan stofnana, en það er rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að fyrirbyggjandi störf eru þau sem skipta máli.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin samþykkti fyrir örfáum árum síðan að beita sér fyrir stefnubreytingu í heilbrigðismálum um allan heim og gaf út kjörorðið „Heilsa fyrir alla árið 2000“. Einmitt í þeirri áætlun er gert ráð fyrir gífurlegri stefnubreytingu þar sem meiri fjármunum verði varið til fyrirbyggjandi starfs en fjármunir á móti skertir í þeirri þjónustu sem nú fer fram innan sjúkrahúsa og stundum er kölluð þjónusta sem er dýr, kostar mikið en er fyrir fáa, en beita sér frekar að þeim verkefnum sem kosta minna en fleiri njóta góðs af. Ég er hlynntur þessari stefnubreytingu. Hún þarf að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi eins og öðrum þjóðfélögum og það er athyglisvert að Íslendingar eru líklega sú þjóð í heimi sem eyðir mestu af þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála, eða um 11%. Ég endurtek að Íslendingar eru líklega sú þjóð í dag sem að hlutfalli þjóðarframleiðslu eyðir mestu til heilbrigðismála af opinberu fé. Við erum eitthvað hærri en Svíar sem hafa verið taldir þeir hæstu. Bandaríkjamenn eyða meiri fjármunum en það fer í gegnum einkaaðila að verulegu leyti og þar er auðvitað fyrst og fremst um að ræða kostnað vegna þess að mikil tækni er notuð til að lækna fáa, þ.á m. „transplantasjónir“ ýmiss konar sem við lesum um á hverjum degi í fréttum.

Það er líka athygli vert að á Íslandi eru flestir læknar í heiminum miðað við íbúa. Það er ekki víst að við gerum okkur grein fyrir því að þetta er lúxusþjóð, Íslendingar. Það er enn athyglisverðara að kanna það að líklega eru stöðugildi lækna hér á Íslandi 50% fleiri en hjá þeim sem næstir koma. Ég endurtek, til þess að ég misskiljist ekki, að líklega eru stöðugildi lækna á Íslandi hér um bil 50% fleiri en í því landi sem næst kemur, sem skýrist af því að læknar telja sig hafa það lág laun hér á landi að þeir eru yfirleitt í einu og hálfu starfi að meðaltali, sumir í á þriðja starf. Aðrir eru auðvitað einungis í einu starfi og einstaka maður í minna starfi. Þetta er vegna þess að þeir telja sig láglaunamenn á Íslandi samkvæmt sínum kjörum, þurfa á hærri launum að halda. Til þess að fela þau kjör vinna þeir tvöfalt til þrefalt starf, sumir hverjir. Ég er alls ekki að gagnrýna það, ég er bara að benda á staðreyndir sem hljóta að koma upp hjá þjóð sem ekki vill hafa hið formlega launabil of mikið en leysir þá vandann, sem aðrir leysa með opinberum hætti, með því að fela laun sumra stétta með hætti eins og þessum.

Þetta eru mál sem við þurfum að hafa í huga þegar við tölum um heilbrigðisþjónustuna því að það má ugglaust margt til betri vegar færa. Ég get sagt það hér að mér er kunnugt um að hæstv. heilbrmrh., sem ekki er staddur hér og nú og áttaði sig ekki á því að taka ætti þessa till. fyrir núna hefur fullan vilja til þess að breyta um stefnu hér á landi.

Það er nefnilega staðreynd líka að þrátt fyrir allt okkar tal um að nú eigi að snúa sér að heilsugæslunni, þrátt fyrir það að við höfum fyrir 10 árum síðan samþykkt lög á Alþingi þar sem við gumuðum af því að nú ætti að snúa sér að heilsugæslunni, þá er það nú samt svo að sjúkrahúsin taka til sín sífellt meiri hluta fjármagnsins. Hér á Reykjavíkursvæðinu segir borgarlæknir t.d að árið 1971 hafi sjúkrahúsin í Reykjavík tekið 65% kostnaðarins en 75% kostnaðarins 1981. Þróunin hér á landi er því á hinn verri veg, enda er 80% talið það allra hæsta sem þjóðir fara í. Það gera aðeins þjóðir með það kerfi að einkafjármagn auðvalds getur keypt sér læknisþjónustu sem almenningi er ekki boðið upp á.

Þetta vil ég að komi fram þótt það komi þessu máli ekki við í sjálfu sér því það mál sem hér er til umr. er auðvitað góðra gjalda vert. Ég er samþykku. þeirri hugmynd sem kemur fram að það þarf að vera athvarf fyrir unglinga. Því athvarfi er sjálfsagt best fyrir komið innan ríkisspítalakerfisins þar sem geðdeildir eru mjög stórar, þar. sem læknar eru fyrir hendi og þar sem aðstaða gæti verið til að taka á móti slíkum sjúklingum.

Við höfum í dag að Vífilsstöðum tækifæri til að taka á móti sumum úr þessum hópi. En þetta er þó fólk sem er svo ungt að það á yfirleitt ekki samleið með þeim sem eldri eru, eins og ég veit að hv. flm. veit, og þess vegna er þessi till. hér til komin.

Við höfum jafnframt barnageðdeild sem er fyrir þá sem eru haldnir „krónískum“ geðsjúkdómum. Það er ekki pláss á þeirri deild þótt læknar þar hafi sinnt þessari skyldu sinni og lagt á sig ómælt starf til að taka við unglingum sem eiga við fíkniefnavandamál að stríða. Um það hefur ekki verið rætt og ekkert við rétta aðila samið en það kemur til greina að koma upp slíkri stöð við Kleppsspítalann sjálfan þar sem gerðar hafa verið verulegar endurbætur á undanförnum árum.

En sú till., sem er uppi og hefur verið samþykkt af stjórnarnefnd ríkisspítala, er að á Dalbraut verði reynt að koma upp geðdeild fyrir unglinga. Ég vænti þess að það mál fái lausn innan tíðar og tel að það sé komið það langt að í raun muni samþykkt þessarar till. ekki flýta fyrir því máli. En það breytir ekki því að framlagning till. er mjög góð og umr. hér á hinu háa Alþingi af hinu góða. Ég þakka flm. fyrir að leggja fram þessa till. til þess að við fengjum tækifæri til að ræða þetta mál hér í Sþ. og í n. á Alþingi og fræðast betur um það hvernig það er statt.