11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

73. mál, álver við Eyjafjörð

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hæstv. iðnrh. sagði hér áðan í sambandi við þær rannsóknir sem fara fram nú og hafa farið fram við Eyjafjörð. Það hefði mátt skilja það á máli hans að það væri vafasöm fullyrðing hjá mér að þannig væri staðið að þessum málum fyrir norðan að íbúar Eyjafjarðarsvæðisins margir hverjir tækju ekki mark á þeim. Það sem ég talaði um voru ábendingar þess aðila sem á að vinna úr gögnunum um það hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla og hvernig hefði verið staðið að því í Noregi ef þeir, Norðmennirnir, hefðu átt að stjórna slíkum rannsóknum. Eftir þessu hefur ekki verið farið. Aðalrannsóknin hefur farið fram inni á Vaðlaheiði, sem er langan veg frá þeim stað þar sem verksmiðjan á að standa. Það er fyrst og fremst vegna þess að það liggur vegur þar upp á heiðina. Kunnáttumenn á þessu sviði telja að þarna sé ekki raunhæft staðið að málum. Fleira gæti ég talið upp. Ég vil bara að þetta komi fram vegna þess að það mátti ætla af orðum ráðh., eða ég skildi hann þannig, að hann teldi að staðið væri þannig að málum að þetta væri marktækt. En það er það ekki í augum margra Eyfirðinga.