11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

161. mál, atvinnumál fatlaðra

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Við fsp. hv. 5. þm. Reykn. vil ég gefa eftirfarandi svar: Hann spyr í fyrsta lið:

„Hversu margir fatlaðir menn hafa fengið störf hjá ríkinu á grundvelli ákvæða 24. gr. laga nr. 41 23. mars 1983, um málefni fatlaðra, varðandi forgangsrétt fatlaðra til starfa hjá ríkinu að öðru jöfnu?“

Þar sem lögin um málefni fatlaðra hafa ekki verið í gildi nema í ellefu mánuði hefur rn. ekki í dag handbærar tölur yfir fjölda fatlaðra sem fengið hafa störf hjá ríkinu á grundvelli 24. gr. þessara laga.

Ég vil hins vegar sérstaklega geta þess hér að hafin er athugun á öllu landinu varðandi atvinnumál fatlaðra. Svæðisstjórnum hefur verið falið með sérstöku erindi að gera úttekt á því hvernig atvinnumálum fatlaðra er háttað og var sérstakur atriðalisti búinn til í því skyni til að hafa til hliðsjónar við öflun nákvæmra upplýsinga í þessu efni. Þessi atriðalisti er í mörgum liðum, en ég vil aðeins nefna það hér að gert var ráð fyrir því að athugunin tæki fyrst og fremst til þeirra sem eru á aldrinum 16–67 ára, konur og karlar, og er þar sett upp ákveðin aldursskipting, fjöldi fatlaðra eða tegund fötlunar, þ.e. í sambandi við hreyfihamlaða, þroskahefta, fjölfatlaða, geðrænar fatlanir og aðrar tegundir fatlana. Síðan er óskað eftir ákveðnum upplýsingum um fjölda fatlaðra sem vinna launuð störf í fullu starfi, í hálfu starfi, minna en hálft starf eða hafa ekkert starf, hversu margir vinna á almennum vinnumarkaði, vernduðum vinnustað eða annars staðar. Einnig var talið æskilegt að fá upplýsingar um hvers konar störf fatlaðir ynnu og hvað ætla má að margir hinna fötluðu sem ekki eru í vinnu gætu unnið ef hentug störf stæðu þeim til boða, hvað hafi verið gert til lausnar á atvinnumálum fatlaðra á viðkomandi svæði á síðustu árum og hvað væri í bígerð eða undirbúningi, hver væru helstu vandamál, hindranir varðandi þátttöku fatlaðra í atvinnulífi og hvaða atriði það séu sem viðkomandi svæðisstjórn telur að leggja þurfi megináherslu á til úrbóta í atvinnumálum fatlaðra.

Samráðsnefnd um málefni fatlaðra hefur verið falið af félmrh. að standa fyrir ráðstefnu um atvinnumál fatlaðra og er ákveðið að ráðstefnan verði 6. og 7. febr. n.k. Það hefur verið skipuð sérstök undirbúningsnefnd sem hefur starfað að undirbúningi ráðstefnunnar frá því í okt. s.l. Á þessari ráðstefnu verður m.a. fjallað um niðurstöður svæðisstjórna úr fyrrnefndri athugun og þess vænst að yfirlit fáist um stöðu í atvinnumálum fatlaðra og þar komi í ljós upplýsingar um atvinnuþátttöku fatlaðra hjá því opinbera. Einnig verði niðurstöðurnar notaðar til að samræma og skipuleggja aðgerðir og úrbætur í atvinnumálum fatlaðra.

Varðandi þátttöku fatlaðra í atvinnulífinu er hægt að vitna í könnun um málefni fatlaðra í Reykjavík og nágrenni, sem gerð var að tilhlutan Framkvæmdanefndar alþjóðaárs fatlaðra og var gefin út af félmrn. 1983. Þar kemur fram að rúmlega þriðjungur þeirra sem eru virkir í atvinnulífinu starfa hjá ríki og sveitarfélögum, en rúmlega helmingur hjá einkafyrirtækjum.

Varðandi annan lið fsp. vil ég upplýsa að félmrn. mun beita sér fyrir því að koma á framfæri upplýsingum um réttindi fatlaðra, bæði í atvinnumálum sem og öðrum sem snerta hagsmuni þeirra, og ég get sem félmrh. lýst því yfir að ég hef, þegar eftir að þessi ábending kom fram í fsp. hv. fyrirspyrjanda, sett af stað könnun á því með hvaða hætti er hægt að fá opinbera aðila til að setja slíka athugasemd í auglýsingar um störf.

Hv. þm. vitnaði áðan í ákvæði í endurhæfingarlögum um réttindi fatlaðra, en í 24. gr. laga um málefni fatlaðra stendur, með leyfi forseta:

„Þeir sem notið hafa endurhæfingar eiga öðrum fremur rétt á atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi, ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Sé að mati svæðisstjórnar gengið á rétt fatlaðs manns við veitingu starfs getur hún krafið veitingarvaldshafa um skriflega grg. fyrir ákvörðun í sambandi við stöðuveitinguna.“

Þetta veitir að sjálfsögðu mikinn rétt og er nauðsynlegt í þessum málum. Ég mun beita mér fyrir því, ég get lýst því yfir hér, að tekið verður formlega á þessu ákvæði.

Ég vil benda á að tekist hefur, og vonandi verður framhald á því, að hraða uppbyggingu á vernduðum vinnustöðum fyrir fatlað fólk. Það er einn liðurinn í þeirri viðleitni að allt fatlað fólk fái aðgang að atvinnu. Ég tek heils hugar undir að þetta er eitt af þeim stefnumörkum í máli fatlaðra sem eru hvað brýnust að vinna að. Ég vona að sú atvinnumálaráðstefna sem ráðgerð er í febrúar komi meiri hreyfingu á þessi mál en hingað til hefur verið.