11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

161. mál, atvinnumál fatlaðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna hæstv. ráðh. á umr. sem hér fóru fram á síðasta þingi þegar hann talaði fyrir frv. um niðurfellingu á ákveðnum þáttum erfðafjárskatts. Ég hafði nokkrar áhyggjur af því hvernig Erfðafjársjóði, sem veitt hefur fé til framkvæmda fyrir fatlaða, yrði bætt þetta tekjutap því að efnislega var ég ekki á móti niðurfellingu þess skatts. Þá sagði hæstv. ráðh. að ríkissjóður mundi tryggja að til kæmi fé í stað þess sem þar væri misst. Þetta vil ég minna hæstv. ráðh. á. Ég er á engan hátt að draga í efa að hugur hans er góður í þessum málefnum, en eftir stendur að ákaflega erfitt er að standa hér og tala um góðan hug og fullan vilja til að bæta úr þessum málum, svo sem eins og atvinnumálum fatlaðra, þegar ekki virðist vera hægt að ná samkomulagi innan hæstv. ríkisstj. um að leggja í það fé. Það er auðvitað gamla sagan að hér er áreiðanlega ekki inni einn einasti maður sem ekki ber góðan hug til fatlaðra og vandamála þeirra, en þegar kemur að gerð fjárlagafrv. vilja þessi málefni gjarnan sitja á hakanum og rausn hv. þm. er ærið meiri til málefna sem við margir þm. hér inni eigum ákaflega erfitt með að sjá að skili á nokkurn hátt arði. Við teljum hins vegar að það sem látið er til málefna fatlaðra skili arði, að það sé arðbær fjárfesting.

Yfirtaka Landsvirkjunar á Kröfluvirkjun, fsp. 169. mál (þskj. 178). — Ein umr.