11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

169. mál, yfirtaka Landsvirkunar á Kröfluvirkjun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn í þessa umr. vegna þess að á sínum tíma fór ég með málefni Kröfluvirkjunar og hlutaðist til um það 1978 m.a. að Rafmagnsveitur ríkisins yfirtækju rekstur virkjunarinnar og Kröflunefnd, sem skipuð var á sínum tíma, yrði lögð niður. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að virkjun Kröflu á sínum tíma og það hvernig staðið var að málum þar sé skýrt dæmi um mikið óhapp í okkar orkusögu, ef svo má segja, og sá stórhugur sem fólst í því m.a. að menn héldu þar ótrauðir áfram þótt upp væri kominn jarðeldur í des. 1975. Einnig tel ég að yfirstjórn mála á þessum tíma eða vöntun á yfirstjórn og samræmdri stjórn mála á þessum tíma hafi verið dæmigerð mistök sem menn þurfi að læra af. En virkjunin er þarna og það er mjög eðlilegt að þeir sem fjalla um orkumál velti því fyrir sér hverjar eru framtíðarhorfur þessarar 30 mw. virkjunar og hvaða möguleikar eru á að afla henni frekari orku til að nýta þá ónotuðu fjárfestingu sem er í annarri vél sem geymd er á staðnum.

Ég vil engu spá út af fyrir sig um það hvaða möguleikar eru á því að afla orku til hennar, en ég vil hvetja menn til varfærni í sambandi við þau efni og alveg sérstaklega á meðan jarðeldur er uppi eða virkur á háhitasvæðinu við Kröflu. Í ljósi þessa var farið afar varfærið í málefni Kröfluvirkjunar á þeim tíma sem ég fór með orkumál, og ég tel að það hafi verið réttmætt. Hins vegar var þreifað fyrir sér um möguleika á gufuöflun utan þess svæðis sem menn höfðu reynt, án þess að stofna til stórfelldra nýrra fjárhagslegra skuldbindinga. Nú er það hins vegar upplýst að menn sjái þess helstan kost að menn haldi áfram að leita í jarðhitasvæðinu þar sem byrjað var við Leirbotna. Það kom hér fram úr svari hæstv. ráðh., og það eru vissulega vonbrigði, að menn eru ekki bjartsýnni en svo í sambandi við önnur nærliggjandi svæði eins og við Hvíthóla, því ég tók það svo að það væri ekki inni í þessari mynd.

Ég vil bara að endingu hvetja til afar mikillar varfærni í sambandi við frekari fjárfestingar við Kröfluvirkjun, alveg sérstaklega á meðan eldur er virkur á háhitasvæðinu eins og við vorum minnt á fyrir ekki löngu síðan. Að öðru leyti dáist ég raunverulega að þrautseigju og þolgæði þeirra manna sem hafa unnið á þessu svæði við hinar erfiðustu aðstæður og skil mjög vel áhyggjur þeirra sem þar starfa og í rauninni óskir um það að menn gefist ekki upp við þetta erfiða verkefni sem menn hafa glímt þarna við um brátt 10 ára skeið.