11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

169. mál, yfirtaka Landsvirkunar á Kröfluvirkjun

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að þakkarverð er þrautseigja þeirra sem hafa haldið um stjórnvölinn í Kröflu norður þar á þrengingartímum. Héðan af sinni ég lítið um að sakast um orðinn hlut. Menn hafa deilt nægjanlega um Kröfluvirkjun. Kröfluvirkjun er staðreynd og ýmislegt má þar sjá jákvætt, ef menn gleyma því sem þeir gjarnan hafa nú fyrir augum, þeim mistökum sem þeir telja að þar hafi orðið stórkostleg. Hún er vel staðsett í kerfinu, hún hefur mjög mikla orkuvinnslugetu miðað við afl og stærð.

Ég hef áhuga á því að Landsvirkjun yfirtaki þessa virkjun til þess að skipuleggja samneyslu virkjananna. Staðreynd er það að hún hefur verið í eins konar hjáleigu hjá Rafmagnsveitunum og ekki verið nýtt að mínum dómi eins og skyldi og eins og kostur er. Það þarf að koma orku hennar í lóg og það verður best gert með því að hún sé keyrð með öðrum raforkuframleiðslufyrirtækjum Landsvirkjunar.

Ég legg áherslu á, og tók það fram í svari mínu, að það var álit Rafmagnsveitna ríkisins, að óbreyttum ástæðum var tekið fram, að leggja bæri áherslu á könnun á gufuöflun á Leirbotnasvæðinu. En þó að ástæður væru óbreyttar, þá ráða Rafmagnsveitur ríkisins því ekki hvert framhaldið verður. Og af sjálfu leiðir að það gera þær því síður ef nýr aðili yfirtekur. Nýjar ákvarðanir varðandi Kröflu hafa ekki verið teknar, nema ég tók ákvörðun um að tengja Hvíthólasvæðið og auka þar með afl virkjunar og þessarar vélasamstæðu að fullu upp í 30 mw. og taldi enda, þegar sú ákvörðun var tekin, að það væri rétt ákvörðun miðað við það að virkjunin yrði seld Landsvirkjun.

Um allar frekari ráðagerðir og fjárfestingar hlýtur auðvitað að fara eftir því hvernig mál skipast um jarðeldana. Það er alveg útilokað að neinn fari að taka ákvarðanir um að verja meira fé en orðið er fyrr en séð verður að fullu fyrir endann á þeim eldsumbrotum sem þarna eiga sér stað.

Ég hef nýverið fengið skýrslu í hendur, ég bað um hana frá Orkustofnun, um álit sérfræðinga á ástandinu við Kröflu eftir síðustu atburði. Sú skýrsla er ívið svartari en ég hef áður séð frá þeim Delfímönnum, svo að ég enn vitni til þess, sem að líkum lætur, að þótt sérfræðingar séu þá geta þeir aldrei sagt með neinni vissu fyrir um framvinduna, þannig að allt verður þetta spásagnarkennt. En hún er svartari að mínum dómi en ég hef áður séð. Þeir telja ástæðu til að taka fram eldri áætlanir um viðbrögð við nýjum eldsumbrotum og eldgosi.

Ég hef nú fyrir nokkrum dögum skipað nefnd þriggja manna til þess í fyrsta lagi að halda á vettvang og kynna sér allar aðstæður eftir fremsta megni og síðan velta því fyrir sér með hvaða hætti hægt er að hafa uppi varúðarráðstafanir eða fyrirbyggjandi ráðstafanir til varnar mannvirkjum. Þó vil ég taka það fram að þar verða menn nú að athuga vel, ef þeir vilja verja eitt svæði að það verði ekki til að beina hraunflóði á annað. Fer ég ekkert fleiri orðum um það. En þessir síðustu atburðir vöktu mig til áhyggju um framvinduna. Menn mega ekki láta hendi óveifað að hafa uppi þær ráðagerðir og ráðstafanir sem verða má að bestu manna yfirsýn.

Að öðru leyti er könnun á yfirtöku Landsvirkjunar og kaupum á Kröfluvirkjun á algeru frumstigi. En eins og ég sagði, ég mun fara fram á það við meðeigendur ríkisins í Landsvirkjun að formlegar viðræður hefjist á næstunni um málið. En ég get engu spáð um framhaldið á þessu stigi máls umfram það sem ég tók fram í svari mínu áðan.