16.10.1984
Sameinað þing: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég skil þessa till. þannig að hér sé rætt um athvarf, þ.e. einhvers konar stofnun, sem tæki við þeim unglingum eða öðrum sem þegar hafa hlotið meðferð á viðeigandi sjúkrastofnun. Ég held að það sé eðlileg skilgreining á þessu hugtaki. Það má þó vel vera að hér sé um að ræða að hv. flm. leggi annan skilning í þetta, en þetta er minn skilningur. Ég tel að með því móti sé verið að koma til móts við þá staðreynd að langflestir þeirra sem hafa orðið fíkniefnaneyslu að bráð hafa á einn eða annan hátt annaðhvort leiðst út í fíkniefnaneyslu vegna þess að þeir koma frá fjölskyldum í upplausn eða þá að þeir hafa með neyslu sinni lent utan við eðlilegt heimilis- og fjölskyldulíf. Það er kannske þetta sem er alvarlegast í því sem hér er um að ræða. Þó að hinn læknisfræðilegi og sálarlegi þáttur sé mikilvægur er hitt kannske enn þá meira um vert og enn þá meira umhugsunarefni að hér stöndum við gagnvart einstaklingum sem raunverulega eiga hvergi athvarf. Ég vona að þm. geri sér ljóst að með þessu móti, að leggja áherslu á athvarf, erum við að stuðla að því að taka slíka einstaklinga aftur inn í samfélagið, forða þeim frá því voðalegasta sem fólk þekkir, t.d frumstæðar þjóðir, þar sem ekkert er voðalegra, ekkert er ógnvænlegra en að lenda utan við hið eðlilega samfélagslíf.

Með þennan skilning í huga styð ég eindregið þessa till.

En það eru nokkur atriði sem ég vildi minnast á í þessu sambandi. Fyrst er þess að geta að mér finnst nokkuð á skorta nægjanlegar rannsóknir á því í hverju raunverulegi vandinn er fólginn, þ.e. um hve marga einstaklinga er hér að ræða. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið eru flestir sammála um að hér í Reykjavík séu milli 20 og 30 unglingar á aldrinum 13 til 16 eða 17 ára sem eigi við veruleg vandamál að stríða. En ég dreg hins vegar í efa að uppgefnar tölur um neyslu þessa aldurshóps séu mjög nákvæmar. Ég veit að í gangi er allvíðtæk könnun á þessu og ég held að það væri mjög mikilvægt, þegar sú könnun liggur fyrir, að hún verði kynnt þm. svo að þeir sjái um hvað raunverulega er að ræða.

Það væri einnig mjög æskilegt að fá um það tölur hve margir unglingar á þessum aldri, 13 til 17 ára, hafa á undanförnum árum verið inni á sjúkrahúsum og geðdeildum vegna ofneyslu fíkniefna og eins það hvernig þeim hefur vegnað eftir dvölina þar. Ég hef grun um að það sé þó nokkur hópur sem þannig er ástatt um, en við vitum ekki nákvæmlega um þetta.

En það er annað atriði sem ég vildi minnast á í þessu sambandi og það er neysla hinna eldri. Enginn vafi er á því að megnsins af þeim eiturlyfjum sem flutt eru ólöglega til landsins er neytt af eldri aldurshópum. Það er kannske þar sem stærsta meinið liggur. Það er þar sem hættan skapast. Þar er það umhverfi sem þessir unglingar alast upp í. Það er ekki síður mikilvægt út frá því sjónarmiði að athuga úr hvaða hópum unglingarnir koma, svo ég víki nú að því sem ég byrjaði á. Úr hvaða umhverfi koma þeir unglingar sem verða fíkniefnum að bráð?

Það var minnst á eitt atriði í hinni ágætu greinargerð hv. flm. Það er að margt af þessu fólki hefur dottið út úr skólum, hefur ekki lokið skyldunámi. Hverjar eru ástæður þess? Hvernig stendur á því að einmitt þessir unglingar hafa dottið út? Er það vegna neyslu fíkniefna eða er það vegna þess að þeir duttu út úr skóla að þeir hafi leiðst út í þessa ógæfu? Þarna er mál sem hlýtur að snerta skólana. Þarna er mál sem er uppeldisatriði og við þurfum að vita meira um.

Það er enginn vafi á því, og um það hef ég tölur, en af því ég hef þær ekki við höndina vil ég ekki nefna neinar ákveðnar tölur, að meiri hluti þeirra unglinga sem neyta einhverra vímuefna neyta áfengis. Þeir eru miklu fleiri sem neyta áfengis en þeir sem neyta þeirra efna sem minnst er á í greinargerð hv. flm. Áfengið er stærsta vandamálið sem unglingar eiga við að stríða þegar um vímuefni er að ræða. Ég held það væri mjög þarft að kortleggja betur en gert hefur verið hvernig áfengisneyslu unglinga er háttað og, eins og minnst var á í greinargerðinni, hvernig tengslum áfengisneyslu og annarra vímuefna er háttað meðal unglinga.

Þetta eru atriði sem ég held að þjóðfélagið hljóti að láta sig miklu varða, þ.e. þekking, þ.e. skilningur á vandamálinu, ekki bara fordæming eða afsökun, heldur að þekkja hinar raunverulegu ástæður sem liggja að baki því vandamáli sem hér er til umræðu.

Ég ætla ekki að lengja þessa umr., en ég vænti þess að við 2. umr. málsins liggi fyrir nákvæmari tölur um ýmis þau atriði sem ég hef minnst hér á. En ég vil endurtaka stuðning minn við þessa þáltill.