11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

185. mál, áhrif ákvæðislaunakerfa á heilsufar

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Í ársbyrjun 1982 fór hér fram könnun á vinnuskilyrðum, kjörum, heilsufari og félagslegum aðstæðum fiskvinnslufólks. Könnun þessi var að hluta þáttur í samnorrænu verkefni sem ber yfirskriftina „Ákvæðisvinna og jafnrétti“ og fór fram hér á landi og í Danmörku. Jafnréttisnefnd norrænu ráðherranefndarinnar fjármagnaði könnunina og fyrir tilhlutan Alþýðusambandsins, Verkamannasambandsins og Landssambands iðnverkafólks studdi félmrn. verkefnið fjárhagslega, a.m.k. fyrstu árin, þ.e. 1982 og 1983.

Sá þáttur sem hvað mest áhersla var lögð á í þessari könnun var hvaða áhrif ákvæðislaunakerfið hefði á heilsufar launþega. Þetta er þarft verkefni og fyrir löngu tímabært þar sem engar marktækar kannanir eða rannsóknir hafa áður verið gerðar á áhrifum afkastahvetjandi launakerfa á launþega, þó svo að stór hluti launþega, og þó einkum og sér í lagi konur, búi við slík launakerfi.

Í upphafi var áætlað, að því er ég best veit, að könnun þessari og úrvinnslu gagna væri lokið um áramótin 1983–1984. Það var hins vegar ekki, en á fjárlögum 1984 er þó engin fjárveiting til þessa verkefnis og styrkbeiðni sem vinnuhópurinn sendi til Vísindasjóðs til þess að geta gert betri skil íslenska efninu var hafnað. Væri fróðlegt að vita hvers vegna framlag ríkisins var fellt niður.

Þegar ég lagði þessa fsp. hér inn á Alþingi miðvikudaginn 28. nóv. s.l. höfðu ekki verið birtar neinar niðurstöður þessarar könnunar, en föstudaginn 30. nóv. var lagður fram bæklingur á þingi ASÍ þar sem birtar voru niðurstöður hluta hennar. Útgefendur bæklingsins eru ASÍ, Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkamanna. Hér á Alþingi hefur hins vegar ekkert heyrst um þetta mál og má það heita merkilegt. Það er því tímabært að fá fram hér upplýsingar frá hæstv. félmrh. um eftirtalin atriði:

1. Hvaða niðurstöður liggja nú þegar fyrir úr könnun sem gerð var að frumkvæði jafnréttisnefndar Norðurlandaráðs á áhrifum ákvæðislaunakerfa á heilsufarlaunþega?

2. Hverjir kosta þessar rannsóknir? — Þá spyr ég sérstaklega um þetta ár.

3. Hvenær lýkur þeim?