11.12.1984
Sameinað þing: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

185. mál, áhrif ákvæðislaunakerfa á heilsufar

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. svör hans og þá kannske sérstaklega þá yfirlýsingu að áframhald verði á þeirri vinnu sem nú hefur hafist. Það getur orðið til ómetanlegs gagns ef áfram verður fylgst með áhrifum afkastahvetjandi launakerfa á heilsufar launþega og niðurstöður þessarar könnunar, sem nú þegar liggja fyrir, hafðar til samanburðar þannig að marktækur árangur náist. Það er nauðsynlegt að halda þessu starfi áfram, ekki síst með tilliti til þess að í dag liggja ekki fyrir neinar marktækar skýrslur um atvinnusjúkdóma. En það væri einnig fróðlegt að fá að heyra hvort hæstv. ráðh. hefur í hyggju að stuðla að útgáfu skýrslu þessa starfshóps á íslensku, þannig að allar lokaniðurstöður komist í aðgengilegu formi til þeirra sem tóku þátt í könnuninni, þ.e. verkafólks, og bendi ég þar á bæklinginn, sem dreift var á þingi ASÍ, til fyrirmyndar.