11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

Afgreiðsla mála úr þingnefnd

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það verður aldrei nógu mikil áhersla lögð á að það séu greið og góð vinnubrögð um meðferð þingmála og það er sameiginlegt áhugamál forseta og hv. þm.

Það er rétt til upplýsingar að taka hér fram að í þessu tilfelli, sem hér hefur verið gert að umræðuefni, virðist ekki framar venju hafá dregist afgreiðsla máls, sem lagt hefur verið fyrir nefnd, nema síður sé. Þessu máli, sem um er rætt, var vísað til hv. atvmn. 15. nóv. Hinn 21. nóv. hvarf formaður atvmn. af þingi og var erlendis í opinberum erindagerðum til 5. des. Hinn 6. des. var þrem málum vísað til hv. atvmn. þannig að nú liggja fjögur mál fyrir hv. atvmn.

Því miður er formaður atvmn., hv. 4. þm. Reykv., ekki viðstaddur nú. Hann var viðstaddur hér í byrjun fundar, en kom að máli við forseta þegar nokkuð var liðið á fundinn um það að hann þyrfti að víkja af fundi vegna lasleika.

Það sem hér hefur farið fram verður kynnt fyrir hv. 4. þm. Reykv. Það skal og taka fram að hv. 4. þm. Reykv. hefur tjáð forseta að fundur í atvmn. verði kallaður saman mjög fljótlega.