11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

45. mál, bætt merking akvega

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka með örfáum orðum undir þessa till. hjá hv. 4. þm. Norðurl. e.

Ég þarf ekki fremur en flm. að rifja upp þau hörmulegu slys sem hér urðu á öræfunum í sumar. Mér er kunnugt um að í einu þessara tilvika a.m.k. lágu nýlegar slóðir eftir nýhefluðum vegi ofan í meinleysislega kvísl úr Skjálfandafljóti, svokallaða Rjúpnabrekkukvísl, og þess var engin von að lítt vanir ferðamenn áttuðu sig á því að þessi kvísl varð raunar að skaðræðisfljóti á þeim tíma dags sem þarna var um að ræða. Aðvörunarskilti á þessum stað með nokkrum einföldum ábendingum á erlendum tungum, sem hefði þó að geyma hvílíkum hættum íslenskar jökulár leyna, hefði e.t.v., ég segi ekki sennilega, bjargað mannslífum í þessu tilfelli því að útlendir ferðamenn lesa slík skilti, ég held fremur en sumir íslenskir ferðamenn. Vanir íslenskir fjallamenn hefðu t.d. í þessu tilfelli ekki farið í umrædda jökulá einbíla á þessum tíma dags. Óvanir Íslendingar gætu gert slíkt. Þá er ekki síður ástæða til að vara við en útlenda. Þess eru jafnvel vel þekkt dæmi að íslenskir ferðamenn hafa farið mjög óvarlega í þessum efnum. Dæmin um Krossá tilheyra svo að segja dagatalinu nú orðið.

Það er sennilega laukrétt hjá flm. að fjárhæðir sem þarna er um að ræða skipti ekki verulegu máli og ég er viss um að með því að virkja sjálfboðaliðastarf væri hægt að létta þann kostnað verulega. Ég vil sem sagt endurtaka stuðning minn við þessa till.