11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

52. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég er ekki hissa þó hæstv. iðnrh. hafi orðið fyrir vonbrigðum með hversu lítt hefur miðað í þessu máli og ég verð að viðurkenna það hér og nú að hæstv. ráðh. hefur valdið mér gífurlegum vonbrigðum að því er þennan þátt mála varðar í ljósi þess hversu vel af honum gustaði hér áður fyrr að því er varðaði leiðréttingu og baráttu fyrir leiðréttingu í þessum efnum, hversu hann var þá frjór og djarfur, en lítið hefur verið að gert í átt til þess að leiðrétta þetta gífurlega ranglæti, sem hér hefur verið á ferðinni undangengin ár, í tíð núv. hæstv. ráðh. í ríkisstj. Ég er ekki með þessu að segja að hann eigi þar sök á einn. Trúlega eru einhverjir dragbítar þar innan dyra aðrir og verri en hann sem setið hafa á og ekki viljað taka undir leiðréttingu á þessu ranglæti.

Þetta er svo stórt mál og svo mikilvægt að það þyrfti lengri tíma en trúlega gefst hér. Nú er langt liðið á fundartíma. En þetta er það stórt mál að það þyrfti vissulega að ræða. Ég held að menn þurfi að gera sér ljóst að það er fyrst og fremst orkuokrið sem er að hrekja fólk utan af landsbyggðinni hingað á þetta svæði. Ég tek undir að allar orkusparandi aðgerðir eru góðra gjalda verðar, en það dugar ekki til. Það verður strax að koma til hjálpar við fjölda þessa fólks, á stundinni svo til. Fólk getur ekki búið við þetta lengur.

Það er ekki alls kostar rétt hjá hæstv. iðnrh. að orkuverðið sé nú að sliga heimilin. Það hefur fyrir löngu sligað fjölda heimila úti á landi og það er vandamálið sem við blasir. Fólksflóttinn utan af landsbyggðinni frá köldu svæðunum, eins og menn kalla, hingað á gósenlandið í þessum efnum er slíkur að ef ekkert verður að gert er þar eitthvert gífurlegasta vandamál sem við hefur verið að etja í þjóðfélaginu um langt árabil. Þetta veit ég að hæstv. iðnrh. er ljóst, a.m.k. á honum að vera það ljóst, og ég hefði vænst þess, þó að það sé kannske til of mikils mælst, af því ég hef þá trú á hæstv. iðnrh. að hann vilji vel í þessu máli, að hann leiddi í ljós hverjir það eru sem eru dragbítarnir. Það kemur ekki annað til mála, að mínu viti, en að það sé svo í reynd, að hafi hæstv. iðnrh. haft fullan hug á leiðréttingu, sem ég tel vera, hlyti það að hafa gerst fyrir löngu ef ekki væru dragbítar innan dyra í stjórnarliðinu einhvers staðar, illviðráðanlegir draugar að því er þennan þátt mála varðar, sem hæstv. iðnrh. hefur ekki tekist að ráða við.

Varðandi þá þáltill. sem hér er til umr. vil ég aðeins segja að auðvitað er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir til leiðréttingar. Þar er engin ein leið, að mínu viti, sú hin eina rétta. Það er ýmislegt í þessari till. sem ég hygg að gæti orðið mjög til bóta ef hefði verið eftir því farið, en það eru líka aðrar leiðir sem vel koma til greina, m.a. skattalækkunarleið með því að draga ákveðinn hundraðshluta kyndingarkostnaðar frá skatti og væri þá ekki verið að þjóna neinum einum sérstökum, heldur fengju allir til baka eftir notkuninni.

Um hitt held ég að þurfi ekki að deila að aðgerðir í þessum málum væru raunhæfasta kjarabótin sem hægt væri að færa því launafólki sem byggir köldu svæðin.

Hefði hæstv. ríkisstj. haft til þess dug og þor að fara í þá átt með því að lækka þennan gífurlega bagga heimilanna á köldu svæðunum, þá hefði hún komist betur, að mínu viti, út úr þeim þætti samningamálanna á s.l. hausti en raun ber vitni, og launafólk, sem er auðvitað meginatriði, hefði haldið eftir raunhæfum kjarabótum, en ekki sýndarkjarabótum í formi þess sem um var samið á s.l. hausti. Það er því ekki bara eitt sem vinnst með þessu, heldur margt sem næðist til jöfnunar í sambandi við þennan þátt mála.

Varðandi orkujöfnunargjaldið virðist mér nokkuð ljóst að núv. hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi ætla sér að taka ófrjálsri hendi af því, sem það gjald kann að gefa á árinu 1985 samkvæmt fjárlögum, nánast um 500 millj. kr. Fyrrv. hæstv. iðnrh. var harðlega gagnrýndur og það réttilega fyrir þetta og m.a. af mér og ekki síður af hæstv. núv. iðnrh. og hv. þm. Agli Jónssyni — réttilega, segi ég, en ég sé ekki að hæstv. núv. iðnrh. ætli að verða neinn eftirbátur í þessum efnum. Það fer nú að koma upp í minn huga hvort við munum sitja endalaust uppi með Austfirðing í stóli iðnrh. Ég held að hæstv. núv. iðnrh. verði að fara að hrista af sér slenið og láta það ekki á sannast að það verði alltaf frá Austfjörðum sem dragbítarnir koma í þessum efnum. Ég sé ekki betur, og ég vildi gjarnan fá um það orð frá hæstv. ráðh., en að eins og málið lítur út í dag ætti menn að taka þarna ófrjálsri hendi 500 millj. kr. sem ættu og eiga samkvæmt lögum að fara í þennan þátt á árinu 1985, og ég vil gjarnan spyrja hæstv. iðnrh. um það, þó hann einhverra hluta vegna og trúlega eðlilegra hluta vegna ekki geti upplýst það núna, hver kann að vera niðurstaðan í þessum efnum varðandi afgreiðslu fjárlaga á öðrum sviðum sem þessu eru þó tengd. Vissulega getur hann upplýst um það hér á Alþingi hvort meiningin er að orkujöfnunargjaldið fari allt til jöfnunar á hitunarkostnaði eins og lög gerðu og gera ráð fyrir og hann hefur verið mér sammála um að túlka. Ég vildi gjarnan fá um það upplýsingar því nú líður að því að 2. umr. fjárlaga eigi sér stað og afgreiðsla þeirra nálgast og nauðsynlegt er að vita um það frá fyrstu hendi, sem er auðvitað hæstv. ráðh., hvort ekki megi treysta því að andvirði 1.5 söluskattsstigs, sem á að gefa 750 millj. á næsta ári, fari allt til þessa þáttar. Það vildi ég gjarnan fá um orð frá hæstv. ráðh.

Eins og ég sagði áðan er ekki eðlilegt á þessari stundu að eyða lengri tíma, ekki af minni hálfu a.m.k. Ég geri ráð fyrir að þetta mál komi m.a. verulega til umr. við afgreiðslu fjárlaga, við 2. umr. nú á fimmtudaginn og hafi menn ekki fengið þá nokkra vissu fyrir því hvernig þetta leysist muni umr. um þetta mál vera haldið áfram allt fram að þingfrestun, þ.e. til 3. umr. fjárlaga.

Ég óska eftir því að hæstv. iðnrh. upplýsi okkur um það, hinar fáu hræður sem hér eru eftir síðla dags, hvort ekki megi treysta því að 750 millj. fari til jöfnunar á upphitunarkostnaði.