11.12.1984
Sameinað þing: 32. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

52. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það hefði vissulega verið ástæða til þess að fjalla í nokkuð ítarlegu máli um þessi mál. Og ég tek raunar undir það sem hér hefur komið fram og þó að það verði ekki gert af minni hálfu á þessu kvöldi, m.a. og kannske sérstaklega vegna þeirrar áherslu sem hér hefur komið fram um að ljúka umr., þá líst mér vel á það að slík umfjöllun fari hér fram síðar á þessum vetri. Það er fyrst og fremst eitt atriði sem ég vil gera athugasemdir við í máli flm. þessarar till. Ég er honum að sjálfsögðu að mörgu leyti ákaflega mikið sammála. En að einu leyti er ég honum ekki sammála og reyndar mörgum öðrum sem um þessi mál fjalla. Það er þegar verið að bera saman kostnað við hitaveitur og rafhitun. Það hefur aldrei mátt á það minnast að rafhitun væri á lægri töxtum en hinar svokölluðu dýru eða miðlungsdýru hitaveitur. Nú hefur hins vegar farið fram athugun á því hver raunkostnaður er og nákvæm úttekt í þeim efnum. Þá kemur í ljós að raunkostnaður hinna svokölluðu meðaldýru hitaveitna er 15–20% lægri en norm eða útreiknaður kostnaður gefur tilefni til. Annað er það sem ekki má heldur horfa fram hjá í þessu efni. Það er að í þeim tilvikum eru byggðarlögin og fólkið að eignast ákaflega mikil verðmæti. Það er að leggja í fasteign sem það nýtur síðar meir. Það er útilokað að forsvara orkuokrið í raforkukerfinu með því að ekki sé eðlilegt að hafa rafhitunina ódýrari en hjá dýrari hitaveitum.

Annað efnisatriði ætla ég ekki sérstaklega að ræða hér núna. Það er líka annar ágreiningur uppi í þessum efnum. Við urðum þess mjög áþreifanlega varir, ég og virðulegur forseti, þegar við störfuðum í orkuverðsnefndinni að ýmsir aðilar telja að ná eigi þessari jöfnun og þessari lækkun með því að endurbæta húsnæði í landinu. Það er augljóst að hæstv. núv. iðnrh. hefur tekið meira mið af ráðum þeirra manna heldur en okkar virðulegs forseta, Þorvalds Garðars Kristjánssonar. Ég er sammála fyrrv. iðnrh. að því leyti að mér sýnist að það stefni með ýmsum hætti í óefni með störf svokallaðrar stjórnar átaks til orkusparnaðar. En um þetta er hægt að fjalla nánar síðar.

Það sem réð því sérstaklega að ég kvaddi mér hljóðs var að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að ég hefði farið með rangar tölur hér á Alþingi í sambandi við þróun raforkutaxta frá því að hann hóf störf sem iðnrh. og þar til ráðherradómi hans lauk. Það sem ég hef sagt í þeim efnum er að á því tímabili þrefölduðust rauntaxtar raforku. Þetta er óumdeilanlegt. Ég hef líka sagt að orkuverð til húshitunar hafi þrefaldast. Staðreyndin er sú að á árunum 1970–1978 nam kostnaður við að hita upp hina svokölluðu staðalíbúð launum fyrir sex vinnuvikur, en um mitt ár 1984 nam þessi kostnaður rúmlega 18 vikulaunum og hafði á þessu tímabili þrefaldast. Hins vegar var orkukostnaðurinn þá greiddur niður um 1/3 hluta, niður í ca. 12 vikulaun, þannig að raunkostnaðarauki á þessu tímabili var tvöföldun miðað við laun. Þessar upplýsingar hef ég fengið útreiknaðar af fyrrv. starfsmanni orkuverðsnefndar, sem reyndar starfaði með fleiri nefndum, Gylfa Ísakssyni. Hann hefur núna framreiknað þetta fyrir mig til þess sem er í dag og þá er þessi kostnaður kominn niður í 8.4 vikur.

Það er óumdeilanlega mikill árangur að raunkostnaður við húshitun hefur á einu ári lækkað úr 11.9 vikulaunum niður í 8.4 eins og nú er. Ef taxtar raforkuveitna hefðu haldist óbreyttir, eins og ætla má að hefði getað gerst ef ekki hefði skollið á ný holskefla verðbólgu, þá hefðum við verið komnir fyrir mitt næsta ár niður á sömu tölu og Alþb. leggur til að verði höfð til viðmiðunar í þessum efnum. Þetta eru óhagganlegar staðreyndir. Hins vegar er augljóst, eins og kom hér fram í máli iðnrh., að nýr vandi steðjar að þegar og ef að því kemur að orkuveitur hækka sína taxta. Það er augljóst mál.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég tek undir það sem hv. flm. sagði að auðvitað hafa menn hér nægilegt fylgi á Alþingi til að lagfæra þessi mál, þeir sem á því hafa vilja og til þess hafa skyldur. Ég tek undir það með honum þó að það sé að sjálfsögðu alveg nauðsynlegt að sjá til hvernig þessi mál þróast, hvernig orkutaxtar þróast. Það er gífurlega mikið mál. Þessi mál eru ekki ólíðanleg ef þeir breytast ekki, en fari svo að þar verði hækkun að einhverju marki þá hlýtur það að verða mál okkar allra að komast að líðanlegri niðurstöðu og samkomulagi í þessum málum.