12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á nál. hv. fjh.- og viðskn. mæli ég með samþykkt þessa frv. með fyrirvara. Ég vil nú útskýra þennan fyrirvara. Hann nær einungis til 3. gr. frv. og aðeins þess hluta hennar þar sem kveðið er á um samsköttun hjóna. Að undanskildum þessum hluta þessarar greinar er ég fylgjandi efni þessa frv. og hvetjandi þess að það verði samþykkt, enda ákvæði þess til nokkurra hagsbóta fyrir allan almenning. Það er sem sagt einungis hluti 3. gr. frv. sem í mér stendur og vil ég hér gera grein fyrir hvers vegna svo er.

Í greininni er gert ráð fyrir nokkurri samsköttun hjóna, þ.e. á vissu tekjubili og upp að ákveðnu tekjumarki. Hér er í rauninni um tiltölulega takmarkaða samsköttun að ræða og vísast ekki stórt atriði í heimilisbókhaldi flestra heimila. Því finnst mönnum e.t.v. ekki ástæða til að gera veður út af þeim tiltölulega litlu upphæðum sem hér eru á ferðinni, en hámarksábati af þessu ákvæði er 11 þús. kr. fyrir hjón. Það eru heldur ekki upphæðirnar sem slíkar sem ég læt mér annt um heldur sú skattlagningarstefna, þ.e. samsköttunin, sem hér er um að ræða.

Ég er þeirrar grundvallarskoðunar að hvern einasta fullorðinn einstakling, karl eða konu, beri að líta á í lögum sem fjárhagslega sjálfstæðan aðila, jafnt í skattalögum sem öðrum lögum. Þegar 50% reglan svonefnda varðandi skattstofn giftra kvenna var felld niður á sínum tíma og sérsköttun hjóna tekin upp var um að ræða stórt spor í þá átt að viðurkenna að lögum fjárhagslegt sjálfstæði giftra kvenna. Tel ég að í þann ávinning beri að halda. Hitt er svo aftur jafnvíst, að þótt skattalögin hafi þar með viðurkennt fjárhagslegt sjálfstæði giftra kvenna, þá tók löggjafinn ekki við sér á öðrum sviðum. Eftir að sérsköttun komst á þurftu giftar konur að hafa meira fyrir hverri krónu sem þær unnu sér inn en áður. Ekki var komið til móts við þær við þessar breyttu aðstæður þeirra með aukinni dagvistarþjónustu fyrir börn eða nægilega löngu fæðingarorlofi. Og laun þeirra úti á vinnumarkaðinum héldu áfram að vera skammarlega lág. Í reynd þýddi því sérsköttunin aukið vinnuálag á konum, vinnuþrælkun í sumum tilfellum liggur mér við að segja, og aukin vandamál hvað varðaði barnagæslu og aðbúnað allan á heimilum. Alla tíð síðan sérsköttunin var tekin upp hefur verið barist fyrir því af kvenna hálfu að ná fullnaðarleiðréttingu í þessa átt, barist fyrir aukningu dagvistarrýmis og hærri launum, í einu orði sagt fyrir fjárhagslegu sjálfstæði kvenna sem er ein meginundirstaða sjálfstæðis og frelsis kvenna á öðrum sviðum.

Sú samsköttunarregla hjóna sem 3. gr. hljóðar upp á er því frá sjónarmiði fjárhagslegs sjálfstæðis giftra kvenna tvímælalaust spor aftur á bak. Með þessari reglu er lægra launaði makinn, í langflestum tilfellum konan, gerð að nokkurs konar viðhengi maka síns og í leiðinni er með nokkru verið að réttlæta lág laun kvenna úti á vinnumarkaðinum. Skattalögin eru með þessu ákvæði í raun að taka tillit til þess að flestar konur bera ákaflega lítið úr býtum úti á vinnumarkaðinum. Réttlæting á lágum launum kvenna á hvergi heima, hvorki í skattalögum né annars staðar. Vilji menn bæta hlut kvenna að þessu leyti og sjá til þess að þær njóti ávaxta erfiðis síns, þá er að hækka laun þeirra úti á vinnumarkaðinum, m.a. með endurmati á störfum þeirra þar, og bæta aðbúnað barna þeirra í þjóðfélaginu, því að öðruvísi geta konur ekki staðið jafnfætis körlum úti á vinnumarkaðinum.

En samsköttun hjóna snýst ekki aðeins um tekjumismun hjónanna. Hún virðist í fljótu bragði vera skref í þá átt að meta einhvers þau ólaunuðu störf sem unnin eru inni á heimilunum, heimilisstörfin. En eins og þetta er fram sett í 3. gr. þessa frv., þá er hér því miður um gersamlega óviðunandi fyrirkomulag á mati á heimilisstörfum að ræða ef það er þá meiningin með greininni.

1. Heimilisstörf eru unnin á öllum heimilum, ekki einungis heimilum hjóna eða sambýlisfólks, þannig að ef hér er verið að meta heimilisstörf, þá ætti þetta ákvæði að ná til allra heimila og sambúðarforma, sem fyrir hendi eru í þjóðfélaginu, innan þeirra tekjumarka sem greinin kveður á um.

2. Ef hér er um mat á heimilisstörfum að ræða, þá ættu launin fyrir þau að skrifast á þann sem heimilisstörfin vinnur en ekki þann sem heimilisstarfanna nýtur eins og greinin kveður á um. Í reynd þýðir þetta að tekjuhærri makinn, í flestum tilfellum eiginmaðurinn, fær allt að 11 þús. kr. frádrátt frá skatti vegna þess að hann hefur konu heima til að sinna heimilisstörfunum. Heimavinnandi aðilinn skoðast þá á framfæri þess sem teknanna aflar. Sá sem útivinnandi er fær afslátt fyrir að hafa heimavinnandi á sínu framfæri í stað þess, sem réttlátara væri, að sá heimavinnandi njóti sjálfur eða sjálf launanna af störfum sínum. Hér eru svo sannarlega erfið mál að kljást við. Það er erfitt að ná með réttlátri löggjöf til þeirra sem vinna á því sviði þjóðfélagsins, sem hvergi kemur fram í opinberum hagreikningum, þ.e. á heimilunum. Mat á heimilisstörfum er ekki til. Peningalaun fyrir þau eru engin og þau koma hvergi fram í opinberum tölum um verðmætasköpun í þjóðfélaginu.

Við höfum áður hér á þessu þingi rekið okkur á hversu snúið þetta er viðureignar, t.d. hvað varðar lífeyrissjóð heimavinnandi fólks. Ég er ekki að efa að góð hugsun liggur að baki þessari grein hjá hæstv. fjmrh., en eins og hún er framsett hér snýst hún upp í andhverfu sína. Hún tekur ekki mið af þeim sem heimavinnandi eru, heldur þeim sem hafa heimavinnandi á framfæri sínu, ef svo má að orði komast. Ef því er til svarað gegn þessari röksemd að það skipti ekki máli á hvort hjónanna frádrátturinn reiknast því hér sé um fjárhag heimilisins að ræða, ef sú hugsun liggur til grundvallar, þá ættum við að byrja á því að gera heimilið að skattaeiningu, ekki hjón, eins og hér er gert, og leggja heimilunum til frádrátt með skattalögum innan ákveðinna tekjumarka en ekki mökum eins og hér er gert.

3. Sé hér um mat á heimilisstörfum að ræða tekur það mat ekki tillit til þeirra kvenna sem vinna fulla vinnu utan heimilis og síðan heimilisstörfin að auki, kvenna sem búa að fullu við tvöfalt vinnuálag. Getur það ekki heldur talist réttlátt.

4. Það er lögfræðilegt álitamál hvort starfsmat eigi að fyrirfinnast í skattalögum, hvort skattalög eigi ekki að vera hlutlaus að þessu leyti og að í þeim eigi starfsmat ekki heima.

Að öllu samanlögðu er ég andvíg þessu samsköttunarákvæði. Það vinnur gegn fjárhagslegu sjálfstæði kvenna og tekur ekki til heimilisstarfa á réttlátan hátt. Ef heimilisstörf eru metin til launa, þá á að greiða þeim sem störfin vinna þau laun, ekki öðrum. Þá reglu höfum við Kvennalistakonur lagt til grundvallar í meðferð okkar á þessum málum. Við viljum t.d. að heimavinnandi konur fái útgreitt fullt fæðingarorlof. Og svo annað dæmi sé tekið, þá viljum við að heimilisstörf séu metin heimavinnandi fólki til tekna þegar út á vinnumarkaðinn er komið, þeirra tekna en ekki annarra.

Önnur leið, sem vitaskuld er fær í þessu efni, er einfaldlega sú að ríki og sveitarfélög greiði heimavinnandi fólki laun fyrir sín störf og það greiði síðan skatta af þeim eins og aðrir skattþegnar. Ef hæstv. fjmrh. legði fram slíkt frv. mundi ég fagna því innilega því þá fyrst hefðu konur og karlar raunverulegt val um það að vera heima og sinna börnum sínum og bústörfum.

Eins og málin standa nú gefst ákaflega lítill tími til umfjöllunar um það stóra mál sem samsköttun hjóna er og ekkert færi er á að gera vitlegar brtt. við afgreiðslu þessa frv. hér í Ed. Til þess er sá tími of naumur sem hv. þm. er ætlaður til umfjöllunar um þetta mál. Ég hefði vilja leggja hér til að atriðið um samsköttun hjóna yrði fellt út úr frv. og þess í stað yrðu þessar 200 millj. settar í auknar barnabætur og þær greiddar út samkvæmt tekjuviðmiðun. Því miður verður slík tillaga ekki hrist fram úr erminni á einni nóttu, en það er sá tími sem ég hef í rauninni haft til þess að athuga þetta mál, þar sem útreikningar að baki henni eru töluverðir. Ég verð því einfaldlega að láta mér nægja að lýsa hér yfir vilja mínum og skoðun í þessu máli.

Ég mælist til þess við hæstv. fjmrh. að hann íhugi þau atriði þessa máls sem ég hef hér fjallað um í millitíðinni. Því að ef það fé sem hér um ræðir, þær 200 millj. sem hér um ræðir, eru greiddar út sem barnabætur fengju heimavinnandi sjálfir þetta fé í hendur og gætu sjálfir ákveðið hvernig þessu fé væri varið, hvort sem er til umönnunar barna heima fyrir eða til kaupa á barnagæslu. Ég tel það að öllu leyti miklu réttlátara fyrirkomulag en það sem greinin kveður á um.

Væntanlega mun gefast svigrúm til að gera brtt. í Nd. við þetta frv. Standa efni til að við Kvennalistakonur gerum það og þá í þá veru sem ég hef hér nefnt. Væntanlega mun þá verða um að ræða brtt. við frv. til l. um sérstakan barnabótaviðauka, 188. mál, þar sem slík brtt. ætti heima, en það frv. er því miður farið héðan úr Ed. til Nd. og því ekki meira hægt við það að gera hér. Það er því ekki hægt um vik við afgreiðslu málsins hér í hv. Ed. og verð ég því að láta mér nægja að biðja virðulegan forseta að bera 2. mgr. 2. efnismálsliðar 3. gr. sérstaklega undir atkv. hér á eftir og mun ég þá greiða atkv. gegn honum. Ef ekki er hægt sökum þingskapa að bera þetta atriði upp sérstaklega mun ég óska eftir að 3. gr. verði borin upp sérstaklega og mun þá sitja hjá við afgreiðslu hennar, en lýsi því hér yfir að ég er fylgjandi öllum ákvæðum hennar nema þeim sem ég hef hér tiltekið. Þeim er ég andvíg.

Ég vil að lokum aðeins ítreka þá skoðun mína að fjárhagslegt sjálfstæði kvenna er mikilsverðasti þátturinn í sjálfstæði kvenna yfirleitt og að þetta sjálfstæði beri að virða í skattalögum; en koma til móts við konur annars vegar úti á vinnumarkaðinum með hærri launum, starfsendurmati og aukinni dagvistarþjónustu og hins vegar inni á heimilunum með fullnægjandi mati á heimilisstörfum og með þeim hætti að þeir sem störfin vinna njóti ótvírætt afraksturs þeirra sjálfir.