12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

187. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að beita sér fyrir lækkun tekjuskatts er nemur 600 millj. kr. En jafnframt hafa þeir ákveðið að afla annarra tekna þar á móti. Hér er því um skattaskipti að ræða og augljóst að málið í heild hefur bæði jákvæða hlið og neikvæða hlið. Nú er ekki fjallað um báðar þessar hliðar samtímis hér. Við erum hér einungis að ræða þá jákvæðu sem snýr að lækkun tekjuskattsins.

Stjórnarandstaðan hefur ekki verið höfð með í ráðum um það hvernig haga skuli þessari sérstöku lækkun tekjuskattsins. Þarf ekki að orðlengja að þar hefðu að sjálfsögðu komið ýmsar leiðir til greina. Það kom glöggt fram í ræðu hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur hér áðan að hún er ekki að öllu leyti sátt við það hvernig að þessari skattalækkun er staðið og er það aðeins vísbending eða dæmi um að auðvitað er hægt að velja þessa 600 millj. kr. skattalækkun með mjög mismunandi hætti þannig að hún verði mismunandi hópum til hagsbóta. Ég er ekki sannfærður um að hér hafi endilega verið valin hin eina rétta leið og ég hefði vissulega kosið að betri tími hefði gefist til að velta fyrir sér hvort aðrar leiðir væru hyggilegri.

Ég tek undir það með hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur að heimildin, sem í frv. felst, um tilflutning tekna eða öllu heldur skattþreps frá því tekjulægra til hins tekjuhærra er ekkert einhlít eða sjálfsögð ráðstöfun. Þar er verið að hverfa frá því meginsjónarmiði, sem haft var til hliðsjónar þegar núgildandi skattalög voru sett, þ.e. að um sérsköttun væri að ræða. Það væri verið að hverfa í átt til samsköttunar. Hins vegar leynir það sér ekki að ýmsir fjölskylduhópar hafa verulegt hagræði af þessari breytingu og þá einkum þegar svo stendur á að annar maki vinnur fyrir mestöllum tekjum heimilisins en hinn makinn er heimavinnandi. Enda þótt við Alþb.-menn teljum alls ekkert einsýnt að sú aðferð, sem hér er viðhöfð við lækkun tekjuskatts, sé hin eina rétta viljum við eftir atvikum ekki standa gegn þessu frv. heldur styðjum samþykkt þess. Við áskiljum okkur hins vegar allan rétt til að hafa aðrar skoðanir en hæstv. ríkisstj. á því hvernig eðlilegast væri að afla tekna í staðinn fyrir þær tekjur sem hér eru látnar niður falla. Við teljum ófært með öllu að skattaskiptin gerist með þeim hætti að verið sé að fella niður tekjuskatt og láta svo söluskatt koma þar á móti þannig að um yrði að ræða hækkun á öllum algengustu neysluvörum almennings. Við teljum að hægt væri að framkvæma þessi skattaskipti á þann hátt að ekki þyrfti að koma tekjulágu fólki til óhagræðis.

En um leið og við áskiljum okkur allan rétt til þess að hafa okkar tillögur uppi og okkar skoðanir á því hvernig tekna verði aflað á móti í þessu tilviki erum við hins vegar því samþykkir að sú tekjuskattslækkun, sem hér er gerð till. um, nái fram að ganga.