12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

201. mál, tímabundið vörugjald

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vildi leyfa mér að koma hér í ræðustól og þakka fyrir ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Það er ekki allt of oft að við ræðum hér um grundvallaratriði og þess vegna eins og hressandi skúr þegar slíkt gerist. Ég vil taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. v. að því leyti að menn hugi nú virkilega að því sem mögulegri leið í baráttu við verðbólgu einu sinni, þó að það væri ekki af neinni annarri ástæðu en þeirri að aðrar leiðir sem menn hafa farið hafa ekki dugað, að vinna bug á verðbólgunni með þeim hætti að draga úr eftirspurn eftir peningum. Það er það sem hv. 4. þm. Norðurl. v. er að tala um.

Það ráð að takmarka peningaveltuna, þ.e. taka þá úr umferð, hefur ekki dugað í baráttunni við verðbólguna vegna þess að það dregur ekki úr eftirspurn eftir peningum, heldur eykur hana. Menn fara þá að nota þær leiðir, sem færar eru og oft eru nefndar hér í ræðum, til að koma þeim peningum, sem teknir hafa verið úr umferð, eftir einhverjum öðrum leiðum í umferð aftur. En að nota þá einföldu leið að draga úr eftirspurn eftir peningum með því að lækka þau gjöld sem lögð eru á neyslu fólks í tollum og þeim sköttum sem leggjast beint á vöruverð tel ég að sé að mörgu leyti miklu gagnlegra en sú umræða sem hér fer fram um breytingar á einstökum frv. og greinum þeirra og að starf okkar, sérstaklega á þeirri stundu sem við lifum, núna, ætti að beinast að því að ræða þessi mál út frá grundvallaratriðum og beina öllum okkar kröftum að því að finna lausnir sem duga. Það ætti að því leyti að vera einfalt að við höfum það mjög klárlega fyrir augunum, horfum við til baka, hvaða aðferðir duga ekki.