12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það blandast víst engum hugur um það að heldur þykir mér mál þetta ógeðfellt og svo er kannske um flesta hv. þm. Enginn er sjálfsagt sérlega glaður að þurfa að standa að máli sem þessu. Á haustþinginu í fyrra talaði ég nokkrum sinnum um það hvort ekki væri hugsanlegt að sleppa með heldur skemmtilegri hætti út úr þeim vanda sem við vissulega erum í, því að við þurfum að varðveita okkar fiskistofna. Ég talaði þá allmjög um að hugsanlegt væri að stytta árið, eins og menn sögðu að ég héldi fram, þ.e. að hafa lengri veiðilaus tímabil, t.d. um hátíðar og í mesta skammdeginu þegar veiðar eru dýrastar og hættulegastar og skip stunda yfirleitt ekki fiskveiðar nema í undantekningartilfellum til að hagnýta góða erlenda markaði fyrir nokkra togara o.s.frv. Síðan gætu menn kannske valið sér nokkurra vikna tímabil að sumarlagi sem þeir ekki stunduðu veiðar þannig að t.d. hverju skipi yrði ekki haldið til veiða öllu lengur en tíu mánuði ársins í stað tólf. Ég held að finna megi auðveldari og einfaldari og kannske skynsamlegri leið til að bregðast við þessum vanda en einmitt þá sem valin hefur verið. En þetta sagði ég allt í fyrra og skal ekki vera að endurtaka það eða tefja tíma mikið á því.

Ég stend hér frekar upp til að benda á það, sem ég raunar gerði þá líka, að við Íslendingar eigum mikilvæg ónýtt mið. Við eigum hvorki meira né minna en ákveðin hafsbotnsréttindi og þar með einir möguleika á togveiðum, botnvörpuveiðum, dragnót og slíku á Reykjaneshrygg út í 350 mílur-kannske er nú botninn þar óþægilegur-en líka á Rockall-svæðinu allt út í 600 mílur í sameign með Færeyingum hugsanlega. Auk þess höfum við samningsbundin réttindi til helmings fiskveiða á Jan Mayen-svæðinu.

Það eru nú liðin hvorki meira né minna en sex ár þessa dagana frá því að fyrstu þáltill. um Jan Mayen-svæðið og Rockall-svæðið voru samþykktar hér á hinu háa Alþingi. Strax þá var á það bent að við þyrftum að hagnýta þessi hafsvæði til að styrkja okkar réttindi. Því miður hefur því í engu verið sinnt og menn hafa haldið því fram að það væri t.d. enginn fiskur á Rockall-svæðinu, það væri tilgangslaust að skoða það. Það var þess vegna ekki gert. Menn hafa líka haldið því fram að það væri eftir litlu að slægjast á Jan Mayen-svæðinu og þess vegna óþarft að vera að gæta réttinda okkar þannig að við nýttum þau og létum ekki Norðmenn eða aðra hirða þau af okkur með því að stunda þar veiðar þegar við sýndum vanrækslu. Sama gildir enn þann dag í dag um Rockall-svæðið.

Það var raunar svo þegar Norðmenn komu hér 29. júní 1979, eða nokkrum mánuðum eftir að þál. fyrst var samþykkt um Jan Mayen-svæðið, hvorki meira né minna en þrír ráðh. sem komu með fríðu föruneyti, tveim eða þremur ráðuneytisstjórum og einhverjum fylgdarmönnum, þá ætluðu þeir að afgreiða það mál ósköp einfaldlega með því að Norðmenn ættu þetta allt saman og buðu okkur upp á nokkra loðnutitti í tvö ár sem endurgjald fyrir það að þeir mættu hirða þetta. Þeir byrjuðu á því að tala um allt inn að miðlínu en þeir framlengdu för sína til hins 30. þess mánaðar vegna þess að staðið var á móti þessu glæsta tilboði. Þeir framlengdu brottför klukkutíma eftir klukkutíma án þess eiginlega að tala mikið við okkur Íslendingana, sem í samninganefndinni vorum, en rifust þeim mun meira innbyrðis og fóru svo eitthvað um fimmleytið burt héðan. Ári síðar vorum við búnir að ná þeim samningum sem núna eru í gildi.

En það var athyglisvert að frá útvegsmönnum komu á þeim tíma, 2–3 dögum eftir að þessir menn hurfu á brott, yfirlýsingar um að þeir teldu að rangt hefði verið að farið, það hefði átt að samþykkja tilboð Norðmanna til að gæta hagsmuna Íslendinga í tvö ár, eins og ég sagði, að fá að veiða nokkra loðnutitti.

Um Rockall-svæðið og Reykjaneshrygg er það sama að segja að það er ekkert gert í því, hvorki af stjórnvalda hálfu að örva menn til að reyna að stunda þetta né af hálfu útvegsmanna sjálfra að reyna nú að drífa sig í að leita á þessum svæðum og vita hvort þeir mundu ekki fá einhvern afla.

Nú er mér það ljósast allra manna að útgerðin á við mjög mikla erfiðleika að etja og mér er líka ljóst af hverju það stafar. Það er vegna þess að útgerðin hefur borgað okurvextina sem verið er að tala um. Núna árum saman, 4–5 ár, hefur útgerðin alltaf verið neydd til þess að taka dollaralán á hæstu vöxtum og síðan hafa komið allar gengisfellingarnar. Það er mesti misskilningur þegar menn eru að tala um að vextir, sem eru nú sjálfsagt ein 8%, raunvextir, ekkert hærri en í nágrannalöndunum, séu hærri en útgerðin hefur áður búið við. Ég veit að í mínu kjördæmi fengust engin rekstrarlán og ekki nokkur skapaður hlutur nema það yrði tekið í dollurum. Það var að setja öll útgerðarfyrirtækin á hausinn. Útgerðin, sem hefur orðið að búa við þessi kjör á sama tíma og ýmiss konar þjónustugreinar og aðrar hafa fengið lán, kannske óverðtryggð og kannske með mjög neikvæðum vöxtum, úr bankakerfinu. Þetta er allt á þessa bókina lært. Þess vegna er þessi meginatvinnuvegur okkar kominn nánast á hausinn.

Þessi hæstv. ríkisstj. er auðvitað að reyna að bæta úr þessu neyðarástandi. Eitt af því, sem gripið hefur verið til, er þetta óyndisúrræði sem við ræðum hér núna. En við ættum að gera þetta með allt öðrum hætti, t.d. styrkja þá sem vildu stunda fiskveiðar á Jan Mayen-svæðinu, Rockall-svæðinu og Reykjaneshrygg til þess einmitt að styrkja okkar þjóðréttarstöðu um alla framtíð, aldur og ævi. Ef ég hef einhvern tíma viljað láta ríkið styrkja atvinnurekstur þá er það nákvæmlega þetta. Jafnvel þó að það yrði mikill taprekstur á þeirri útgerð þá væri það réttlætanlegt til þess að tryggja framtíð íslensku þjóðarinnar um aldur og ævi. Það er verið að berjast fyrir því núna að við náum þessum réttindum eða höldum samningsbundnum réttindum á Jan Mayen-svæðinu til að veiða helming alls afla sem þar er að fá langt norður í höf, langt norður og austur

fyrir Jan Mayen, 200 mílur. Nei, nei, það má enginn vera að að hugsa um það.

En menn segja kannske að það sé enginn fiskur á Rockall-svæðinu, þeir segja það kannske enn þá. Í fyrrahaust fór einn línuveiðari frá Noregi á þetta svæði þegar allt var í eymdinni hér. Hann kom til baka — ég held að ég muni tölurnar rétt — með 70 tonn af saltfiski, boltaþorski, 50 tonn af frystum þorskflökum og annað eins af ísfiski eftir að vísu nær tveggja mánaða útivist á þessu svæði. Kannske hefur eitthvað af íslenska þorskinum einmitt verið þar þegar kaldi sjórinn var hér. Nei, nei, það datt engum í hug að líta á það þó það væri til þess að tryggja okkur þjóðréttarstöðu, sem er algjörlega ómetanleg, um aldur og ævi. Síðan kemur núna grein í Sjávarfréttum — er það ekki í Sjávarfréttum? Þetta er ljósrit sem ég hef hér. Mig langar að fá, með leyfi forseta, að lesa hérna upp örlítið. Þetta er þýtt úr Fishing News:

„S.l. föstudag, 27. júlí, kom dragnótabáturinn Boy Andrews úr átta daga veiðiferð af Rockall-svæðinu með afla að verðmæti tæp 27 þús. sterlingspund eða 1.1 millj. ísl. kr. Þetta var fyrst og fremst tilraunaferð. Veiðin var 1170 kassar af ísuðum fiski, að langmestum hluta ýsu en eitthvað smávegis af þorski, ufsa og öðrum botnfisktegundum.“

Og síðar segir:

„Förin til Rockall var farin að frumkvæði Bremners“ — hann var nefndur þar áður, þ.e. skipstjórinn — „til þess að reyna nýjar leiðir vegna takmarkaðra veiðisvæða eða bannaðra veiðisvæða í Norðursjó. Alls fór báturinn 1173 sjómílur í ferðinni. Þá má geta þess að kaupendur aflans í Skotlandi og Englandi segja að hann hafi allur verið í hæsta gæðaflokki.“

Síðan er þess getið að fiskiðnþróunarstofnunin í Skotlandi lofaði fjárhagslegum styrk til ferðarinnar, bæði að taka þátt í olíukostnaði og einnig ef um veiðarfæraskemmdir yrði að ræða, en botninn þarna er mjög varasamur. Árangur ferðarinnar var hins vegar svo góður að stofnunin þurfti ekkert að leggja af mörkum, eins og menn sjá af þessum tölum. Og hver var nú stærðin á þessum bát? Jú, 85 feta langur, ca. 100 tonn, eins og bátarnir okkar. Að vetrarlagi, þegar allra veðra er von og ísingarhætta er mikil, er auðvitað miklu hættuminna að veiða á þessum svæðum í heitari sjó en hér norður á Hala t.d. Þessu er ekki sinnt.

Ég vildi nota þetta tækifæri til að koma þessu á framfæri. Nú veit ég að hæstv. sjútvrh. er mikill áhugamaður, ekki eingöngu um sjávarútvegsmálefni, heldur líka um hafréttarmálefni. Það er góðra gjalda vert að leita fiskveiðiréttinda við Bandaríkjastrendur og kannske við Afríku og víðar. Mér skilst t.d. að við Grænhöfðaeyjar, þar sem við erum nú með þróunarhjálp og kostum veiðitilraunir, sé mjög mikinn fisk að hafa og væri hugsanlegt að fleiri íslensk skip færu þangað og gætu nýtt hann og gert úr honum verðmæti og kennt þarlendum veiðar í ríkari mæli líka í leiðinni. En fyrst og fremst eigum við auðvitað að stunda veiðar hér í nágrenninu á þeim hafsvæðum sem eru og eiga að vera íslensk hafsvæði og verða það ef Alþingi stendur nógu vel í ístaðinu nú á næstu mánuðum, kannske misserum. En á næsta ári eigum við að tryggja okkur öll þessi réttindi, bæði á Reykjaneshrygg og á Rockall-svæðinu og stunda þau og hagnýta.