12.12.1984
Efri deild: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Árni Johnsen:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að teygja togtímann í þessu máli frekar en orðið er, en mér finnst ástæða til að fjalla aðeins um það sem ég tel betra við þetta frv. en það frv. sem við fjölluðum um á fyrra ári. Ég vil einnig taka það fram að ég tel að þessu máli hafi verið mjög vel stjórnað af hæstv. sjútvrh. og þeim öðrum sem það hafa fjallað um.

Ég vil þó aðeins árétta í sambandi við tvö atriði sem eru reglugerðaratriði. Það er í fyrsta lagi að það verði svigrúm til þess, ef aðstæður kalla á það, að smábátasjómenn geti átt kost á því að afla sér kvóta. Ég hef fjallað um það atriði fyrr hér í hv. deild. Það er auðvitað mjög slæmt þegar við sama borð sitja menn sem hafa fulla atvinnu af sjósókn og svo þeir sem stunda sjósókn í tómstundum. Ég held að þarna verði að greina á milli og rétta hag þeirra sem hafa fulla atvinnu af sjósókn, en hafa enga kauptryggingu á bak við sig, gefa þeim a.m.k. möguleika til þess að afla sér verkefna ef slík staða kemur upp að óbærilegt er.

Í öðru lagi gætir mikils ósamræmis varðandi skip sem sigla með afla og gámaútflutninga. Þarna held ég að verði að samræma reglur á milli, hvort sem það er niðurfelling á 25% reglunni eða það er gert á annan hátt, en auðvitað er ekki hægt að halda áfram því misræmi sem er í þeim efnum.